Sjávarútvegsstefna

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 14:49:29 (7559)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Það er mikil umræða um sjávarútvegsmál í landinu þessa dagana. Raunar er það ekki nýtt. Íslendingar lifa á fiskveiðum og sjávarfangi svo sem kunnugt er og þrátt fyrir tilburði í þá átt að draga úr mikilvægi veiða og vinnslu sjávarafurða í atvinnulífi landsmanna og auka í þess stað aðrar atvinnugreinar á útflutningur sjávarafurða enn stærsta hlutdeild í tekjuöflun okkar erlendis.
    Það er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir að fast að 80% af útflutningstekjum okkar koma úr sjávarútvegi. Það er því ekki að undra að þau mál séu rædd vítt og breitt um þjóðfélagið. Þegar við þetta bætist að þorskaflinn sem stendur undir 50% af útflutningsverðmætunum hefur dregist mjög saman á undanförnum árum og ekki annað séð en að svo verði a.m.k. þrjú til fjögur næstu árin ef marka má tillögur Hafrannsóknarstofnunar, þá er það einnig nærtæk skýring á þeirri miklu umræðu sem á sér stað.
    Í öðru lagi er það svo skýrsla tvíhöfða nefndar sem veldur umræðunni. Höfundar hennar þeytast nú um landið og kynna skýrsluna á flestum þéttbýlisstöðum landsins. Þeirri skýrslu er ætlað að vera stefnumótandi í stjórnun fiskveiða á næstu árum og er árangur af starfi þeirrar nefndar sem ríkisstjórnin skipaði til að endurskoða fiskveiðistefnu. Það hefur verið gagnrýnt mjög hvernig staðið var að skipun þeirrar nefndar. Stjórnarflokkarnir áttu einir aðild að henni og nefndin hefur ekki haft lögboðið samráð í starfi sínu við sjútvn. þingsins né hagsmunaaðila.
    Í þriðja lagi og jafnvel fyrst og fremst er það ástandið í þjóðfélaginu í dag sem kallar á umræðu um málið. Sjávarútvegurinn er rekinn með allt að 10% tapi þó að nokkuð sé misjafnt milli fyrirtækja. Skuldastaðan er erfið og fullyrt að skuldirnar séu yfir 100 milljarðar kr. eða um það bil sem nemur eins árs fjárlögum hins íslenska ríkis. Það er því nauðsyn á úrræðum, bæði skammtímaúrræðum og langtímalausnum. Við skulum jafnframt gera okkur grein fyrir því að staða sjávarútvegsins ræður mestu um stöðu þjóðarbúsins. Því miður eru það enn þá margir í þessu þjóðfélagi sem ekki skilja samhengið þarna á milli.

Þeir eru enn þá margir sem halda að við getum lifað af því að selja hvert öðru vöru eða þjónustu. Það er mikill misskilningur. Á frumvinnslunni á auðlindum okkar til lands og sjávar byggjast aðrar atvinnugreinar og þar þróast þjónustan sem viðbót. En þjónustustörfin verða ekki til af sjálfu sér ef ekki er hægt að selja framleiðslu af einhverju tagi. Nú hefur landsframleiðslan stöðugt verið að dragast saman frá 1987 að stöðnunin byrjaði og síðustu tvö til þrjú árin hefur svo atvinnuleysið verið að aukast og er nú mælt um 5% að meðaltali og þó meira meðal kvenna. En hafa menn tekið eftir því hvernig þróunin hefur verið? Atvinnuleysið byrjaði á landsbyggðinni þar sem frumvinnslan hefur mest vægi, þar sem það kom fyrst fram með minnkandi afla og þar af leiðandi minni vinnu.
    Samdráttur í landbúnaði hefur líka haft mikil áhrif en það ætla ég ekki að fjalla um nú. Síðan færðist atvinnuleysið yfir á þjónustugreinarnar sem lifa af að þjónusta frumvinnsluna og yfir á verslunina sem selur því meira sem fleiri fiskar veiðast. Ég tek það auðvitað fram að ég er hér að einfalda þetta ferli til þess að þeir sem á hlusta skilji betur hve alvarlegt málið er.
    Upp á síðkastið hefur atvinnuleysið aukist mest á höfuðborgarsvæðinu, vegna þess að þar hefur þjónustan meira vægi, en hefur dregið úr því á landsbyggðinni, þannig er þetta samspil í raun. En við skulum samt gera okkur grein fyrir því að atvinnuleysið mun halda áfram að aukast um allt land ekki hvað síst ef við skoðum þá stöðu sem öll sjávarútvegsfyrirtæki eru í nú. Stöndugustu fyrirtæki landsins eru rekin með tapi. Í byrjun mars voru talin upp í einu dagblaðanna um 20 sjávarútvegsfyrritæki sem stæðu vel rekstrarlega séð í byrjun mars. Nú eru sem óðast að koma fram ársreikningar þessara fyrirtækja og allir með meira eða minna tapi. Venjulega fylgir sú skýring með að þetta séu tölur gærdagsins því nú sé staðan miklu verri. Hvað ætla stjórnvöld að gera? Ætla þau að láta gjaldþrotaleiðina halda áfram með öllum sínum sársaukafullu afleiðingum, því gjaldþrot heimila og gjaldþrot sveitarfélaga fylgja í kjölfarið. Eða lifa þau í lituðu glerhúsi og sjá ekki út? Ég fullyrði að það glerhús brotnar fyrr en varir ef ekkert verður að gert.
    En hvers vegna hefur sjávarútvegurinn alltaf verið að tapa? spyrja nú þreyttir landsmenn. Af hverju stendur greinin ekki undir sjálfri sér? Getur hún ekki selt vöruna fyrir því sem kostar að framleiða hana? Það er einmitt kjarni málsins og hefur alltaf verið. Sjávarútvegurinn hefur ekki fengið að verðleggja vöruna sjálfur eins og þjónustugreinarnar gera hér innanlands. Sjávarútvegurinn er háður erlendum gjaldmiðlum og því hvernig íslenska gengið er skráð. Þær sveiflur sem þar verða koma niður á tekjunum og því til viðbótar eru skuldir sjávarútvegsins í erlendri mynt orðnar mjög miklar. Allar breytingar á gjaldmiðli koma því einnig fram í skuldastöðunni. Sjávarútvegurinn er kominn í alvarlega klemmu og það er ekki lengur hægt að bjarga sér fyrir horn með því að fella gengi eins og gert hefur verið til að auka tekjur sjávarútvegsins. Ef það væri gert mundu skuldirnar hækka í sama hlutfalli. Það er í dag vandamálið við að fella gengið til að koma til móts við þær sveiflur og lækkun sem orðið hefur á erlendum mörkuðum síðustu mánuði. Og þá er nærtækt að spyrja, ef ekki er hægt að auka tekjurnar á þennan hátt er þá hægt að draga úr kostnaði, hvernig væri það gert? Hverjir eru kostnaðarliðirnir? Það er m.a. launakostnaður, vaxtakostnaður, orkukostnaður og annar rekstrarkostnaður. Samanlagt fer þessi kostnaður nú, svo við einföldum hlutina, 10% fram yfir tekjurnar. Því atvinnugreinin er rekin með um 10% tapi eins og ég sagði áðan eða stefnir í það.
    Verslun og þjónusta hefur getað blómstrað á kostnað sjávarútvegsins á undanförnum árum vegna þess að þar hafa menn verðlagt söluvöru sína eftir því sem hún kostaði í innkaupum og hafa fengið ódýran gjaldeyri til að kaupa hana fyrir.
    Allt frá árinu 1984 hafa verið í gildi lög um fiskveiðistjórnun, þ.e. svokölluð kvótalög. Mikið hefur verið deilt um framkvæmd þeirra og ber þar hæst þá ákvörðun að úthluta veiðiheimildum til skipa. Þá hefur sala veiðiheimilda milli útgerðaraðila einnig sætt vaxandi gagnrýni sem stutt er þeim rökum að hér sé um sameign þjóðarinnar að ræða samkvæmt lögum og því óeðlilegt að það myndi seljanlegan eignarrétt milli manna og það aðeins þeirra útgerðaraðila sem áunnu sér aflareynslu á tilteknu tímabili. Hvorki sjómennirnir sem unnu við að afla þeirrar veiðireynslu né fiskverkafólkið sem vann úr aflanum og gerði hann að verðmætri vöru fékk neina hlutdeild í þessari útdeilingu. Hins vegar geta bæði sjómenn og fiskverkafólkið horft upp á það að skipin með kvótanum eru seld út byggðarlaginu. Fólkið stendur eftir með atvinnuleysið sem fylgir í kjölfarið þegar rétturinn sem fylgt hefur búsetu árum saman er tekinn af því. Fiskveiðiheimildirnar verða að fylgja byggðarlögunum þar sem þær hafa orðið til. Þar hafa fiskveiðar og vinnsla þróast með árunum vegna nálægðar við gjöful fiskimið. Þar hefur fólkið byggt sér hús og sveitarfélögin komið upp margháttaðri þjónustu. Þar hafa sprottið upp fyrirtæki sem þjóna fólkinu og framleiðslufyrirtækjunum. Ef sama fyrirkomulag verður á fiskveiðistjórnuninni og verið hefur þá sjáum við fram á uggvænlega þróun. Íbúarnir verða að flytja nauðugir viljugir og skilja eftir sig allt sitt lífsstarf. Verði það raunin þá glatar þjóðarbúið líka óhemju verðmætum í þeim eignum sem ekki nýtast lengur. Jafnframt verður þá að byggja upp á öðrum stað og slíkt getur ekki verið þjóðhagslega hagkvæmt. Það er ekki nóg að horfa á eina tölu í dæminu að rekstur fyrirtækja verði að vera fjárhagslega hagkvæmur og til þess skuli öllu fórnað. Vissulega eigum við að stefna að því að sjávarútvegurinn geti staðið undir sér og þar með undir allri neyslunni en til þess hefur hann ekki ævinlega skilyrði og þar ráða ytri aðstæður oft miklu. Það er ekki hægt að afgreiða málið með því að hér sé bara um illa rekin fyrirtæki að ræða, skussa sem eigi ekki rétt á sér, svo einfalt er málið ekki.
    Ég ætla að taka hér dæmi um þrjú fyrirtæki. Tvö í góðum rekstri en eitt að verða gjaldþrota. Til

að forða því keyptu tvö betri fyrirtækin togara af því þriðja. Auðvitað með kvótanum. Kvótanum skyldi jafnað á hin fyrirtækin tvö og þeirra skip og togari þess sem var að verða gjaldþrota seldur án kvóta. Með öðrum orðum tekinn úr rekstri. Er þetta ekki hagræðingin? Fækka skipum í rekstri og auka aflaheimildir hinna? Vissulega, en hvað skeði? Við úthlutun á kvóta næsta fiskveiðiárs var kvóti fyrirtækjanna tveggja skertur sem nam nálægt þeim kvóta sem þau keyptu af gjaldþrota togaranum. Þau höfðu sem sagt ekkert upp úr kaupunum nema að borga fyrir fisk sem þau fengu svo ekki að veiða. Fyrirtækin tvö þurfa að sjálfsögðu að standa skil á kaupverði kvótans á næstu árum þó þau megi ekki veiða upp í hann. Þau hafa bætt við kostnað fyrirtækjanna en fá engar tekjur á móti. Þessi fyrirtæki unnu alveg nákvæmlega eftir kerfinu en það skapaði bara enga hagræðingu.
    Framkvæmd þeirrar fiskveiðistefnu sem nú er í gildi hefur ekki fært okkur ávinning, hvorki í uppbyggingu fiskstofna, minnkun fiskiskipaflotans og þar með minni fjárfestingu né haldið uppi atvinnu um landið. Hverju hefur þá stefnan skilað? Hún hefur skilað því að verslað er með óveiddan fisk í sjó, að kvótinn er sífellt að færast á færri hendur, að hagsmunir fiskverkafólks eru fyrir borð bornir, að nú er stefnt að því að afnema krókaleyfi og banna línutvöföldun.
    Núgildandi lög um stjórnun fiskveiða eru frá árinu 1990. Þau átti að endurskoða fyrir árslok 1992. Við höfum þegar heyrt hvernig að því máli hefur verið staðið. Hvað úr þeim tillögum verður sem tvíhöfða nefndin er nú að kynna er ekki vitað á þessari stundu. Ljóst er að mikil andstaða er í báðum stjórnarflokkum meðal einstakra þingmanna við þeim tillögum en það er spurning hversu mikils þeir mega sín. Þá má ljóst vera að Framsfl. gælir við að styðja tillöguna um óbreytt kvótakerfi því það er þeirra afkvæmi.
    Fyrrv. sjútvrh. og varaformaður Framsfl. var helsti forsvarsmaður þess kerfis og er ekki þekktur að því að skoða málin í nýju ljósi. Það getur því vel verið að þeim stjórnarliðum sem ekki styðja tillögur tvíhöfða verði leyft að sprikla svolítið og málið náist fram með stuðningi framsóknarmanna. Ég tel að tillögurnar um óbreytt kvótakerfi og kvóta á smábáta sýni uppgjöf. Stjórnarliðar hafa gefist upp á að deila við LÍÚ eða leita nýrra lausna. Þá eru þær tillögur þeirra að afnema krókaleyfið og línutvöföldunina til þess fallnar að valda enn meiri byggðaröskun en kerfið hefur þegar valdið. Ég vænti þess þó að svo mikil andstaða sé við það að afnema krókaleyfið eins og raunar hefur komið fram í umræðum hér að þær tillögur nái ekki fram að ganga.
    Sú þáltill. sem hér er á dagskrá er til að reyna að forðast slys og byggist á því að víðtæk samstaða þurfi að nást um sjávarútvegsstefnu sem gerist m.a. með því að fela sjútvn. þingsins að endurskoða lögin frá 1990 um stjórn fiskveiða og móta þá heildstæða sjávarútvegsstefnu. Undir það sjónarmið skal tekið.
    Fylgiskjal með tillögunni eru drög að frv. unnið af Jóhanni Ársælssyni o.fl. Í athugasemdum með frv. eru tilgrein fimm meginmarkmið. Og þau eru, með leyfi forseta:
    1. Að tryggja til frambúðar óumdeilanlegan eignarrétt og fullan ráðstöfunarrétt þjóðarinnar á auðlindum íslenska hafsvæðisins.
    2. Að við stjórn á nýtingu auðlinda sjávar verði gætt réttlætis gagnvart byggðarlögum, sjómönnum, fiskvinnslufólki og útgerðaraðilum.
    3. Að með stjórnkerfi fiskveiðanna verði stuðlað að bættri meðferð afla, verndun smáfisks og að því að verja lífríkið í sjónum fyrir óheppilegum áhrifum veiðarfæra og veiðiaðferða.
    4. Að í stjórnkerfinu verði fólginn hvati til nýsköpunar og hagræðingar í greininni og tryggðir eðlilegir möguleikar á aðgangi nýrra aðila að atvinnurekstri í sjávarútvegi.
    5. Að rannsóknir á sviði sjávarútvegs verði stórefldar til að mögulegt verði að ná þeim markmiðum sem nauðsynlegt er að setja til að tryggja hámarksafrakstur af þessari sameiginlegu auðlind þjóðarinnar.
    Ég tel að þetta séu farsæl meginmarkmið enda eru þau mjög í takt við stefnu Kvennalistans í sjávarútvegsmálum. Ég er hins vegar ekki sammála í öllum atriðum þeim leiðum sem eru valdar til að ná markmiðunum og hef þá fyrst og fremst efasemdir um að sóknarmark eitt og sér geti skilað þeim árangri sem að er stefnt. Það getur þó vel verið að það sé heppilegt fyrir einstaka tegundir fiskstofna.
    Menn hafa haldið því fram að þegar sóknarmark var í gildi hafi komið fram þeir agnúar sem vel mætti sníða af. Aðrir segja að sóknarmark gangi ekki, það sé fullreynt. Ýmsar aðrar þjóðir hafa notað eins konar sóknarmark eða aðgangstakmarkanir, t.d. Kanadamenn og Ástralíumenn. Og flestar þjóðir nota fleiri en eitt kerfi til að ná þeim markmiðum sem menn setja sér með fiskveiðistjórnun. Íslendingum virðist hins vegar ekki treyst til að hafa einhvern sveigjanleika í sinni fiskveiðistjórnun eða reyna fleira en eitt kerfi. Alla verður að binda á sama klafann. Tvíhöfða nefndin með hagfræðingana í broddi fylkingar er fyrir fram sannfærð um ágæti aflamarksins og frjáls framsals kvóta og fullyrðir alls staðar í skýrslu sinni að það sé besta leiðin til hagræðingar í greininni. Þó er þess einmitt getið í skýrslunni að flestar þjóðir hafi hömlur á framsali kvóta.
    Eins og ég hef áður vikið að eru svo margir ágallar á því kerfi sem við notum í dag að full þörf er á breytingum. Ég ætla ekki að fara hér nákvæmlega í tillögur tvíhöfða nefndar, þær eru ekki á dagskrá nú og verða vonandi ekki á þessu þingi. Áður en það gerist er víst að einhver hrossakaup eiga eftir að eiga sér stað á milli stjórnarflokkanna. Ég tel þessa tillögu sem hér er á dagskrá gott innlegg í málið og styð að hún verði afgreidd.

    Kvennalistinn hefur ekki breytt stefnu sinni um byggðakvóta þar sem 80% af heildarafla væri skipt á milli byggðarlaga en 20% rynni í sérstakan sjóð sem síðan yrði til ráðstöfunar vegna sérstakra aðstæðna eða til sölu eða leigu eftir aðstæðum. Ef um leigu eða sölu væri að ræða skyldi það m.a. notað til rannsókna eða fræðslu sem tengist sjávarútvegi. Byggðarlögin skyldu ráða því að mestu sjálf hvernig þau ráðstöfuðu sínum kvóta og hvort þau tækju gjald fyrir. Þau gætu úthlutað til fyrirtækja, einstaklinga, útgerða eða vinnslu. Úthlutun væri tímabundin en ekki um ófyrirsjáanlega framtíð. Þannig myndaðist sveigjanleiki sem nauðsynlegt er að hafa. En við gerum okkur fulla grein fyrir því að ýmsar aðstæður hafa breyst og útfærsla þessara hugmynda yrði vitaskuld að taka mið af þeim veruleika sem við búum við og má þar nefna tilfærslu á afla milli landshluta og minnkandi afla.
    Upprunalega hugmyndin um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins kom talsvert til móts við hugmyndir okkar kvennalistakvenna og við studdum því lögin um hann á sínum tíma. Jafnframt vorum við alfarið á móti því að hlutverki sjóðsins væri breytt eins og gert var á síðasta þingi og það hefur líka komið í ljós að það voru mistök sem verður að leiðrétta. Þá má einnig segja að þær hugmyndir tvíhöfða nefndar að heimilt sé að framselja aflahlutdeild báts yfir á vinnslustöð sé spor í rétta átt eða í átt að okkar stefnu enda rökin fyrir því vegna byggðasjónamiða. Í sambandi við endurskoðun fiskveiðistefnunnar teljum við rétt að skoða með opnum huga stjórnkerfi annarra þjóða, t.d. hvort hér geti hentað tvískipt stjórnkerfi fiskveiða. Og þá mætti skoða japanska fyrirmynd þar sem veiðiréttindi gilda í innfjörðum og við strendur en veiðileyfum utan landgrunns er úthlutað á ákveðin fjölda togveiðiskipa. Þetta kerfi hefur tryggt viðgang fiskstofna og stöðugleika í veiðum og vinnslu í aldaraðir hjá þeim. Þannig hafa þeir forðast sóun og hrun sem hefur verið einkenni margra vestrænna þjóða.
    Fiskveiðistjórnun þarf að hafa það markmið að vernda lífríki hafsins fyrir ofveiði og mengun og viðhalda m.a. með veiðum eðlilegu jafnvægi á milli tegunda. Til þess þarf að auka rannsóknir ekki síst fjölstofnarannsóknir og rannsókn á umhverfisþáttum og áhrifum þeirra á stærð fiskstofna. Jafnframt þarf að rannsaka áhrif hinna ýmsu veiðarfæra á lífríki sjávar. Og við kvennalistakonur teljum að auka þurfi stuðning við tilraunaveiðar og nýsköpun í veiðum og vinnslu. Beina þarf skipum í veiðar á vannýttum stofnum og veiðar djúpsjávarfiska. Allar togveiðar ættu að vera utan 12 mílna a.m.k. og friða þarf tímabundið helstu hrygningarsvæðin. Við minnum á að heildstæð sjávarútvegsstefna þarf einnig að ná til vinnslu í landi sem oftar en ekki er aðalvinnustaður kvenna í sjávarplássum landsins.
    Virðulegi forseti. Við teljum æskilegt að þessi markmið og leiðir til að ná þeim verði í nýjum lögum um stjórn fiskveiða. En við leggjum áherslu á að ná þarf víðtækri samstöðu allra þeirra aðila sem hlut eiga að máli, annars verður aldrei friður um fiskveiðistefnu og þá næst ekki sá árangur sem að er stefnt.