Sjávarútvegsstefna

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 15:58:57 (7565)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Umræðan í dag hefur snúist um grundvallaratriði í fiskveiðistjórnun. Fiskveiðistjórnun felst þremur meginspurningum:
    1. Hvað er til skiptanna? Það er bæði spurning um magn og möguleika til nýtingar án þess að skerða höfuðstólinn.
    2. Hvernig verður því réttlátlega skipt og milli hverra?
    3. Hvernig má auka það sem er til skiptanna, magnið og verðmætið?
    Þegar fram í sækir mun seinasta spurningin sennilega reynast okkur mikilvægust. Það kostar óhjákvæmilega peninga að finna ný fiskimið, vannýtta stofna, læra að nýta þá og markaðssetja, einnig að setja á laggirnar fiskeldi á traustum grunni. En við megum ekki spara þau útgjöld vegna þess að það getur reynst dýr sparnaður þegar fram í sækir.
    Ég vek athygli á þeirri öfugþróun að skera niður um helming, úr 20 millj. í 10, það fé sem varið hefur verið til nýsköpunar- og tilraunaverkefna í sjávarútvegi á vegum sjútvrn. Þar var skorið þar sem síst skyldi og á þessu bera núverandi stjórnvöld ein ábyrgð og það er ekki góður vitnisburður um heilindi stjórnarliða þegar þeir tala um eflingu rannsókna.
    Ég vildi í upphafi máls míns geta þess því þótt í dag ræðum við fremur fyrri tvær spurningarnar má sú þriðja, framtíðarmöguleikarnir, ekki gleymast. Sambúð okkar Íslendinga við fiskstofnana umhverfis landið er spurning um líf og dauða byggðar hér á landi. Skynsamleg nýting gjöfulla fiskimiða er forsenda þess að við höfum búið hér í 1100 ár. Í stórum dráttum má segja að fiskurinn í sjónum hafi dugað okkur mætavel fram til þessa, en þó gerði misjafnt árferði og dyntóttir fiskstofnar formæðrum okkar og feðrum skráveifu annað slagið. Sumt í sambúð okkar við fiskimiðin hefur ekki breyst. Við ráðum vissulega yfir öflugri tækjum en nokkru sinni fyrr til að sækja fiskinn, en á móti kemur að fyrr á tímum var fiskur sóttur í meira mæli á grunnslóð, bæði með íslenskum og erlendum fleytum. Fyrr og nú þurfti því á þekkingu að halda á þoli miðanna og hegðun fiskstofnanna. Þar á ég bæði við þekkingu byggða á vísindalegum gögnum og reynslu sjómanna.
    Við þurfum enn að reiða okkur á rysjótt veðurfar, ekki síst smæstu fleyturnar. En annað hefur breyst verulega og er hluti vandans nú. Fólki hefur fjölgað hér á landi, kröfur þess til arðsemi fiskimiðanna eru meiri nú en áður, flotinn hefur stækkað og veiðarfæri hafa aldrei verið öflugri. Við þessu höfum við orðið að bregðast og að sumu leyti hefur okkur lánast það en að öðru leyti ekki. Útfærsla landhelginnar gaf okkur stundargrið en nú blasa við okkur staðreyndir um geigvænlegan aflasamdrátt og við honum verður að bregðast. Þá reynir á að það sé gert af skynsemi og af réttlæti.
    Aflamark var upphaflega sett til að takmarka sóknina í sameignlega auðlind okkar og ég get ekki bent á betri leið til þess en ég legg ríka áherslu á það að það er ekki nóg að setja heildaraflahámark. Það skiptir líka meginmáli að stýra því hvert þessi fiskur er sóttur og vernda bæði hrygningarstöðvar og uppvaxtarsvæði. Það verður ekki gert nema með lokunum ákveðinna svæða.
    Skilningur fer nú vaxandi á því að þetta verði að gerast samhliða. Við þurfum að hafa ákveðna stærð hrygningarstofns til að geta vænst uppbyggingar. Um það hafa margir vitnað, bæði innlendar og erlendar hafrannsóknir m.a. Skemmst er að minnast viðvarana Englendingsins Pope hér í fyrra sem ítrekaði að á meðan þorskstofninn væri of lítill væri hætta á hruni og þetta getum við ekki hunsað. Ég tel því ekki nóg að það sé einungis heildaraflatakmarkanir sem stýra veiðunum, heldur verður að nota það samhliða að

takmarka dagafjölda báta og skipa og takmarka leyfi á einstök veiðarfæri og heildaraflatakmarkanir. Hins vegar má nýta sóknarstýringu fyrir einstaka flokka útgerðar, svo sem smæstu smábáta með góðum árangri því veðurlagið eitt og sér stýrir mjög þeim veiðum.
    Ég bendi líka á að sá afli sem smábátar draga á land fæst með hlutfallslega litlum tilkostnaði og að því leyti eru smábátaveiðar vistvænni en aðrar veiðar. Nýting aflans er yfirleitt góð og smábátaveiðar skapa fleiri störf með minni tilkostnaði en aðrar veiðar. Þetta ber að hafa í huga svo og hvaða veiðar auka á sóun svo sem þegar afla er hent vegna þess að stærð fisks passar ekki í vélarnar á frystitogurunum. Hins vegar má kerfið ekki ýta undir að fiski sé hent af öðrum ástæðum, svo sem ef eitt tog af smáfiski slæðist með eða einhverjar tegundir sem ekki passa í kvótann það sinnið. Við verðum því að muna að það er ekki bara það að leyfa smábátum að vera með krókaleyfi sem skiptir máli, heldur líka hvers vegna við viljum það. Og ég styð það að smábátar fái að hafa krókaleyfi sitt í friði. Ég tel að rökin fyrir því séu óyggjandi. Ég vil því taka það fram að með þessum fyrirvörum er aflamark nýtilegt en þó því aðeins að það sé notað til þess að deila hinni takmörkuðu auðlind sem til skiptanna er sem réttlátast.
    Við kvennalistakonur teljum eðlilegast að miða við það að úthluta kvótum til byggða, þ.e. til þeirra landsvæða þar sem fólkið lifir á útgerð og fiskvinnslu og þau eru mörg. Kvóti á ekki að vera séreign sem fer beint til eigenda skipa eða fiskvinnslustöðva til frjálsrar ráðstöfunar sem getur þess vegna verið alveg úr takti við hagsmuni byggðarlaganna. Og mér finnst það hrein öfugmæli að halda því fram að það komi fiskvinnslufólki eða sjómönnum sérstaklega til góða ef eigendur vinnsluvinnustaðanna geta ráðskast að vild með kvóta seldan úr byggðarlagi eða selt skip í annan landsfjórðung eins og maður hefur heyrt. Þar ræður því miður ekki greiðasemi við fólkið í landinu heldur beinharðir viðskiptahagsmunir tiltölulega fárra manna og það er alveg undir hælinn lagt hvort þeir hagsmunir fara saman við hagsmuni heildarinnar. Allt er þetta gert í nafni hagræðingar. Mér er fyrirmunað að skilja þá hagfræði sem gengur út frá því að hægt sé að líta á eina atvinnugrein einangraða og án tengsla við annað líf í landinu. Það hefur skýrt komið fram í sjútvn. og í skýrslu tvíhöfða nefndar að þar er einungis gengið út frá þeirri hugsun að reka útgerð og fiskvinnslu sem hagkvæmast án þess að taka inn aðrar stærðir, svo sem verndun fiskstofna og byggðasjónarmið.
    Í inngangi skýrslunnar er þetta einfaldlega orðað: Hagkvæmni er sá rauði þráður sem gengur í gegnum þessa tillögugerð. Ég spyr: Er hægt að einangra meinta hagkvæmni við eina atvinnugrein þótt stór sé, án þess að taka tillit til annars? Mér sýnist að því sé slegið föstu að fyllsta hagkvæmni náist með því að leyfa kvótanum að valsa milli byggðarlaga eftir þeim lögmálum einum hvernig ástandið er í seðlaveskjum íbúanna á hverjum stað.
    Ég minni á að það eru ekki nema þrjú ár síðan út kom hjá Byggðastofnun skýrsla um kostnað þéttbýlismyndunar. Í niðurstöðum hennar kom fram að áframhaldandi vöxtur þéttbýlis hér á suðvesturhorninu á kostnað landsbyggðarinnar hefði meiri útgjöld í för með sér en ábata. Neikvæðust var útkoman fyrir sveitarfélög, bæði þau sem flutt var frá og til en einnig fyrir ríkið. Það gat brugðið til beggja vona varðandi fyrirtæki og varðandi fólkið sjálft var það aldrei jákvætt, í mesta lagi skaðlaust. Það er ekki hægt að segja að kvótabraskið sé hagkvæmt og horfa fram hjá staðreyndum af þessu tagi og mannlegi þátturinn má ekki gleymast, líðan fólks, óskir þess og rætur.
    Er það hagkvæmni sem felst í því að kippa grundvellinum undan atvinnulífi heilla byggðarlaga í nafni hagræðingar sem ræður ferð? Mig langar að vitna í blaðagrein frá því í nóvember eftir Jón nokkurn Þórðarson en hann er að gagnrýna það ástand sem skapast þegar ákveðin byggðarlög missa forræði yfir þeim fiski sem þau áður höfðu til ráðstöfunar, með leyfi forseta:
    ,,Við skulum flýja héðan, hér er ómögulegt að vera. Yfirgefum allt, skip, jarðir, skuldir. Það er allt betra en að vera hér.`` Þessi og þvílík ummæli segir Jón því miður hafa við mikil rök að styðjast því þegar eins og áður er að vikið, aðalatvinnuvegur héraðsbúa er með öllu eyðilagður, þá sé eigi að undra að mönnum hrjósi hugur við að hafa þar langa bólfestu. Og síðar í greininni segir Jón um hver eigi að axla ábyrgðina: ,,Það er sannast að segja að hér er um alvarlegt mál að ræða og góð ráð dýr eftir því sem á stendur. Í þessu máli er svo mikið í hættu að bæði þing og stjórn landsins verða að skerast í leikinn eigi vel að fara.`` Og það vefst ekki fyrir Jóni að sjá tengsl milli lífs og dauða byggðar, verslunar og sjávarútvegs. ,,Hvernig svona skipuð byggðarlög muni bera sig þarf eigi að spá neinu um. Framtíðin mun bráðlega leiða það í ljós. Hér er þó eigi allt talið sem héraðsbúum með þessu ólagi getur orðið til niðurdreps. Allir játa að góð og framkvæmdasöm verslun styðji velmegun hvers byggðarlags, en hvernig geta menn hugsað sér hagfellda verslun við Faxaflóa, þegar svo er komið að héraðsbúar eru sviptir aðalatvinnu sinni, fiskveiðum?``
    Eins og heyra má á orðfæri og síðustu tilvitnuninni er ekki um glænýjan texta að ræða. Hann var að sönnu skrifaður í nóvember en árið var 1896 og staðurinn Hlið á Álftanesi. Ég bið menn að velta því fyrir sér að einu sinni átti byggð undir högg að sækja hér við Faxaflóa og þá forðuðu menn sér í austur og vestur í leit að betri lífskjörum. Stjórnvaldsaðgerðir skipta máli og við getum velt því fyrir okkur hvaða staður er útkjálkaslóð, hvenær Faxaflóinn var útkjálkaslóð.