Umferðarlög

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 18:13:47 (7574)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég get nú ekki látið hjá líða að lýsa nokkrum vonbrigðum mínum með tök og niðurstöðu allshn. varðandi a.m.k. tiltekna þætti þessara breytinga eða endurskoðun umferðarlaga og leyfi mér að lýsa nokkrum efasemdum um að það sé yfir höfuð framfaraspor eða til bóta að ljúka þessum breytingum eða afgreiðslu málsins nú á þessu vori með þeim hætti sem hér er lagt til. Það hefur greinlega ekki tekist til sem skyldi, samanber þá óánægju sem til að mynda Ökukennarafélag Íslands lætur í ljós með þær breytingar sem að þeirra starfssviði undir þessum lögum snýr sérstaklega.
    Þá verð ég í öðru lagi að játa að það eru mér nokkur vonbrigði að hv. allshn. virðist alls ekki hafa gert nokkurn skapaðan hlut með frv. til laga um breytingu á umferðarlögum sem ég var 1. flm. að og var þó sent til nefndarinnar eða komið til nefndarinnar á undan því stjfrv. sem hér er verið að leggja til að afgreiða. Ég hafði satt best að segja vonast til þess eftir að allshn. hafði fengið bæði þessi frumvörp til umfjöllunar, að þá yrði farið nokkuð vandlega yfir það hvaða ráðstafanir væri skynsamlegast að gera einkum hvað varðar þennan þátt málsins, þ.e. ökukennsluna og ökuskírteinin eða réttindin, bæði hvaða kröfur yrðu gerðar hvað námið snertir og próf en ekki síður þá hvernig á þeim tíma sem í hönd færi væri reynt að stemma stigu við þeirri háu slysatíðni sem er mjög sláandi þegar tölur eru skoðaðar þar að lútandi.
    Í því frv., sem ég flutti eða er 1. flm. að, er lagt til að tiltekið reynslutímabil sé upphaf að ökumannsferli hvers og eins sem fær réttindi til þess að stjórna bifreið eða bifhjóli og bætist við eða komi framan við það reynsluskírteini eða bráðabirgðaskírteini sem nú er við lýði og gildir í tvö ár. Þegar ég varð mér úti um umsagnir sem borist höfðu allshn. um þetta mál af því að ég saknaði einhverrar afgreiðslu á því þegar stjfrv. birtist á nýjan leik, þá kemur í ljós að af fjórum umsögnum sem mér sýnist að nefndinni hafi borist, þá mæla tvær eindregið með afgreiðslu frv., telja að það fyrirkomulag sem þar er lagt til sé til bóta, í þriðju umsögninni eru færðar fram efasemdir og í þeirri fjórðu er ekki mælt með samþykkt frv. Þannig að ef þetta er nú lagt saman, án þess að vera að gera upp á milli þessara umsagna, þá er ekki hægt að segja annað en að hlutfallslega verulegur stuðningur hafi komið fram við þá breytingu sem þarna er á ferðinni. Þar á meðal mælir Ökukennarafélag Íslands með því að þessi breyting sé gerð.
    Það er hins vegar mjög andvígt því sem hv. nefnd leggur til að gert sé varðandi breytingar á 57. gr. umferðarlaganna, þ.e. að heimila að taka upp akstur í umsjá leiðbeinanda eða æfingaakstur án þess að ökukennari sitji við hlið nemandans og að síðan sé álitamálum varðandi það fyrirkomulag einfaldlega vísað í reglugerð sem dómsmrh. eigi að setja. Ég held að menn hljóti nú a.m.k. að geta orðið sammála um að það sé afar vandasamt að setja reglur af þessu tagi og skipti miklu máli hvernig til takist. Ef menn vilja á annað borð breyta þessari þjálfun ökumanna þannig að ófaglærðir menn eða leiðbeinendur eða hvað við köllum það taki að einhverju leyti þátt í því að þjálfa upp ökumenn áður en þeir fá ökuréttindi, þá þarf a.m.k. að mínu mati að ganga mjög skýrt frá því hvar inn í þjálfun hinna verðandi ökumanna slíkt á að koma. Ég sé ekki að það sé gert hér í þessum brtt. nefndarinnar eða eins og frv. lítur þá fyrst út eftir 2. umr. Og ég vil spyrja hv. formann allshn. að því, hvernig hugsa menn sér þetta fyrirkomulag? Hugsa menn einhver aldursmörk þegar menn geta farið að hefja þessa þjálfun? Verður það tengt með einhverjum hætti inn í ökukennsluna sem slíka, hvernig yrði samskiptum leiðbeinandans og ökukennarans háttað o.s.frv.? Ég held að það séu nú býsna mörg álitamál sem vakni þegar þetta er lagt til eins og hér er gert.
    Þó svo að ökukennslan eða þjálfun ökumannanna verði þegar upp er staðið jafngóð og jafnvel betri, þá hefði það ekki svarað eða mætt því sem var megintilgangur hins frv. að reyna að draga úr slysatíðninni á fyrstu mánuðum eða missirum ökumannsferilsins. En það sem stendur upp úr öllu öðru þegar tölur eru skoðaðar í þessu sambandi, það er hin hrikalega slysatíðni sem tengist fyrstu mánuðum eða fyrstu árum sem menn stjórna bifreið eða bifhjóli.
    Það vekur nokkra athygli mína að í umsögn Landssambands lögreglumanna sem lýsir efasemdum um það reynsluskírteinisfyrirkomulag sem lagt var til í frv. okkar nokkurra þingmanna að ein meginröksemdi þeirra eða ein helsta efasemd þeirra er sú að það liggi ekki fyrir tölfræðilega sannað að fyrstu sex mánuðir á aksturstíma hvers og eins séu hættulegastir og sé það á grundvelli þess sem Landssamband lögreglumanna hafi efasemdir um að þar sé valinn akkúrat rétti tíminn til þess að binda eða skilyrða ökuréttindin við það að reyndari stjórnandi sé við hlið þess sem keyrir. Það er að vísu rétt að samkvæmt þeim fátæklegu gögnum sem til eru um þetta og ég hef nú að hluta til unnið upp úr gögnum Umferðarráðs, þá er fyrsta árið ekki sundurgreint í mánuði. Það eru eingöngu birtar slysatölur eða óhappatölur fyrir hvert almanaksár í heild eða hvert aldursár stjórnendanna, þ.e. 17. árið, 18. árið o.s.frv. og ekki flokkað þar niður á mánuði. En ég hafði það m.a. eftir bæði lögreglustjórum í nokkrum umdæmum og fleirum sem að þessum málum hafa komið að þeir teldu engan vafa á því að fyrstu sex mánuðirnir eða svo væru þarna langvarasamasti tíminn og skýrðu það að mestu leyti hvers vegna fyrsta árið stendur langt upp úr öllu öðru í slysa- og óhappatíðni í stjórnendum ökutækja og bifhjóla. Það ber þar mikið á milli strax þegar borin eru saman annars vegar 17 ára hópurinn og hins vegar 18 ára hópurinn. Á hverju einasta ári undanfarin 6--7 ár eru slys og óhöpp mun fleiri í hópi 17 ára heldur en 18 ára og það bendir til þess að mínu mati nokkuð sterklega að upphafið á þessum ferli sé það varasamasta.
    Ef menn vildu lengja þetta tímabil t.d. upp í eitt ár eins og er við lýði að mér skilst í a.m.k. sumum fylkjum Bandaríkjanna, þá er ég svo sannarlega tilbúinn til að skoða það ef mönnum finnst ekki nógu langt gengið. En að vísa málinu frá á þeim grundvelli að það liggi ekki fyrir alveg tölfræðilega sannað að þessir fyrstu sex mánuðir séu jafnafdrifaríkir í þessu sambandi og ætla má finnst mér ekki merkilegur málflutningur satt best að segja.
    Síðan er það svo að ef farið er að skoða þessi mál á annað borð og velta því fyrir sér hvar skórinn kreppir virkilega í þessum efnum hjá okkur, þá er ekki nokkur vafi á því að mínu mati að menn hafa verið með kolrangar áherslur hvað varðar fyrirbyggjandi ráðstafanir í slysavörnum í umferðinni hér um árabil. Og sú vitlausasta af þeim öllum er að mínu mati sú ofuráhersla sem lögð hefur verið á skoðun bifreiða og á að það mætti ætla að peningaeyðslu- eða peningaráðstöfun á þessu sviði, að aðaluppspretta umferðaróhappa og slysa væri lélegur bílakostur, væru bilanir í bifreiðum eða hvað. Er það ekki þannig að landsmenn eyði hundruðum millj. kr. á ári hverju og stjórnvöld hér áður fyrr ómældum fjárhæðum í það að skoða bílaflotann með miklu batteríi og tók nú steininn úr eftir að það var einkavætt því að síðan hefur okrið farið upp úr öllu valdi eins og kunnugt er þegar þessi einokunarstarfsemi var einkavædd hér með miklum glæsibrag af núv. hæstv. iðnrh. og viðskrh., þáv. dómsmrh., og ein af fáum einkavæðingum í sögunni sem er svo rækilega bundin við einokun að menn eru settir nánast í fangelsi ef þeir eiga ekki skipti við þessa einkavæddu einokunarstofnun, fá stórar sektir, klippt númerin af bílunum þeirra o.s.frv. eins og kunnugt er þannig að það er nú sæmilega tryggt að hin einkavædda stofnun fái viðskipti.
    En hvernig lítur þetta nú út þegar farið er að kíkja á tölfræðina á bak við málið? Er það svo að þessi mikla áhersla á að skoða bíla í samanburði við það sem lagt er t.d. í ökukennslu, fræðslu og forvarnir sé réttlætanleg? Svarið er nei. Staðreyndin er auðvitað sú að bilanir í bifreiðum og óhöpp sem rekja má til þess að bílaflotinn sjálfur sé ekki í nógu góðu ásigkomulagi er hverfandi hlutfalla allra slysa, hverfandi hlutfall, í mesta lagi mælt í fáeinum prósentum borið saman við þau 90% sem bæði skandinavískar og bandarískar kannanir sýna að eiga rót sína að rekja til stjórnandans, þess sem stjórnar ökutækinu eða bifhjólinu. Ég hefði gjarnan viljað að hv. allshn., úr því að hún fór að skoða umferðarlög á annað borð, færi yfir þessa hluti og kannaði þá m.a. út frá þessum forsendum hvort ekki væri hægt að einhverju leyti að losa um þá áþján landsmanna að þurfa að eiga samskipti við hina einkavæddu Bifreiðaskoðun Íslands hf. með þeirri gjaldskrá sem þar er í gildi. Og það vill svo til, hæstv. forseti, að ég fékk upp í hendurnar nú fyrir nokkrum dögum síðan glænýtt gagn í þessum efnum sem er ný norsk könnun um gildi þess að skoða bifreiðar reglubundið með þeim hætti sem við höfum baksað við hér um árabil borið saman við hitt að gera það ekki. Sem sagt, það var reynt með mjög viðamikilli könnun í Noregi sem tók til fjögurra ára að svara því, skila svona reglubundnar skoðanir með tilheyrandi kostnaði einhverjum árangri í slysavörnum. Og hvert var svarið? Nei. Það var þannig að þessi viðamikla norska könnun tók hvorki meira né minna en til allra norskra einkabíla og flutningabíla sem skráðir voru í Noregi árin 1978, 1979 og 1980. Þessi flokkur bíla var settur í fjögurra ára tilraun og þetta eru samtals eitthvað á þriðja hundrað þús. bifreiðar ef ég man rétt og tilgangur könnunarinnar var sá að rannsaka og fá úr því skorið hvort reglubundin skoðun eða öryggiseftirlit með slíkum bílum skilaði árangri. Og þetta var gert með þeim hætti að í fyrsta lagi var rannsakað hvort árleg skoðun eins og hér er notuð eða skoðun þriðja hvert ár eða alls engin skoðun sýndi einhvern tölfræðilegan, marktækan mun í tíðni óhappa í þessum viðkomandi bílaflota. Fjöldinn er svo mikill, tilraunin er svo stór að tölfræðilega á hún að sýna marktæka niðurstöðu með öllum þeim breytileika sem reikna má með í formi aðstæðna, bifreiðastjórnunar og allra slíkra hluta. Og það skýrist kannski ef farið er yfir þær tölur sem á bak við standa. Í flokki eitt, þ.e. þeim hópi bíla sem skoðaður var á hverju ári á tilraunatímabilinu í fjögur ár voru 46.422 bílar. Í flokki 2, þeim flokki bíla sem skoðaður var þriðja hvert ár eða í upphafi eða á öðru ári tilraunarinnar, sem sagt aðeins einu sinni, voru sömuleiðis 46.422 bílar, en í þriðja hópnum, samanburðarhópnum við þessa tvo, sem alls ekki var skoðaður á þessu fjögurra ára tímabili voru 111.412 bílar. Niðurstaðan varð alveg skýr. Hún var sem sagt sú að á tímabilinu 1986--1989 var ekki marktækur munur á tíðni óhappa sem þessir þrír samanburðarhópar lentu í. Það fannst enginn marktækur munur en tölfræðin segir okkur og óvissumörkin miðað við þennan fjölda bíla að væri þarna um einhverja fylgni að ræða, þá hefði hún komið fram. Og eins og höfundar könnunarinnar segja í lokaorðum, það sé með miklu öryggi hægt að segja að reglubundið eftirlit, ,,periodisk kontrol ikke har invirket på sikkerheden, verken for de biler som er kontrolert årligt eller for de som ble kontrolert bare i 1986, sammenlignet med de som ikke ble kontrolert``. Með miklu öryggi má fullyrða að niðurstaða höfunda könnunarinnar sé sú að þarna sé um engin marktæk áhrif að ræða.
    Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að mér finnast þetta býsna magnaðar niðurstöður í ljósi þess hvernig við erum að ráðstafa hér fjármunum á þessu sviði og hefði gjarnan viljað sjá að menn væru að þreifa sig áfram eftir einhverjum brautum af þessu tagi að reyna að velta því virkilega fyrir sér hvar er það sem skórinn kreppir. Hvar er uppspretta slysanna og óhappanna og hvert á að beina fjármunum og mannafla í formi fyrirbyggjandi ráðstafana? Það er greinilega ekki í gegnum mörg hundruð millj. kr. útgjöld þjóðarbúsins í bifreiðaskoðun. Það er greinilega ekki svo þegar menn annars vegar hafa fyrir sér samkvæmt viðamiklum könnunum austan hafs og vestan að yfirgnæfandi meiri hluti allra óhappa samkvæmt skýrslum rekur sig til stjórnendanna eða um 90% og hins vegar þessa viðamiklu norsku könnun sem

er sú eina sinnar tegundar sem mér er kunnugt um að hafi verið gerð, þá ber það alveg að sama brunni að áherslur manna eru í raun og veru ekki í nokkru samræmi við þær upplýsingar sem fyrir liggja um meginorsakavaldana á þessu sviði.
    Ég er alveg sannfærður um það að vilji menn virkilega ná árangri gagnvart þessum hroðalegum slysum sem hér eru á Íslandi í umferðinni og eru allt of mörg, setja okkur í hóp efstu þjóða hvað það snertir að ungmenni séu hér að slasast eða deyja vegna umferðaróhappa, þá þurfa menn að beina kröftum sínum að rótum vandans sem er í hinum mannlegu þáttum sem þessu tengjast. Og þar verður því ekki á móti mælt hvað sem hver segir að það eru fyrstu mánuðir eða ár ökumanns sem eru hættulegust. Og ég tel því miður, hæstv. forseti, að hv. allshn. þó að hún hafi sjálfsagt unnið að þessu eftir bestu vitund hafi ekki verið á réttum brautum hvað þetta snertir. Ég hef áhyggjur af þeim breytingum sem þarna eru lagðar til varðandi akstur án þess að ökukennarar hafi þar hönd í bagga, sérstaklega vegna þess að mér finnast þær hugmyndir alls ekki hafa verið útfærðar eða settar í samhengi við ökukennsluna að öðru leyti eða þjálfun ökumanna með skýrum hætti a.m.k. ekki svo að ég hafi séð.
    Ég held að það sé líka óskaplega óheppileg byrjun á þessu máli að gera þessar breytingar í andstöðu við Ökukennarafélag Íslands og alla þá ökukennara sem ég þekki til eða hef heyrt til undanfarna sólarhringa, svo mikið er víst. Það er ekki mjög gæfuleg byrjun að leggja af stað með þessar breytingar í fullkominni andstöðu við þá stétt í landinu sem á að annast fræðslu á þessu sviði. Og nú hef ég ekki í sjálfu sér heyrt menn yfirleitt halda því fram sem þetta hafi verið að rannsaka, hvorki t.d. sérfræðinga Umferðarráðs, landlæknisembættið, héraðslæknaembættin eða lögreglustjórana að þeir telji að það sé í sjálfu sér í ökukennslunni sem brotalömin liggur í þessum efnum. Menn hafa miklu meira velt því fyrir sér hvort það geti ekki verið eitthvert ríkjandi kæruleysi umhverfisins gagnvart þessum hlutum sem þarna þurfi að draga fram til ábyrgðar að þrátt fyrir þau slys sem verða hér því miður næstum að segja daglega eða vikulega í umferðinni þar sem ungmenni koma mjög oft við sögu, þá ríki mikið kæruleysi í umhverfinu gagnvart þessum málum og það sé nánst reglan en ekki undantekningin að daginn sem 17 ára ungmennið fær ökuskírteinið, þá sé heimilisbíllinn afhentur og lyklarnir og menn geti farið hvert á land sem er með bílinn fullan af jafnöldrum sínum þannig að líf fimm ungmenna sé þá komið í hendur stjórnanda sem er 17 ára og tveggja daga og hefur nákvæmlega svo mikla reynslu af því að stjórna ökutæki. Þetta er ekki mjög skynsamlega í hlutina farið og þær þjóðir sem hafa verið að endurskoða sína löggjöf á undanförnum árum og þykja hvað framsæknastar í þessum efnum eru að fikra sig áfram þarna eftir öðrum brautum að ég tel.
    Hæstv. forseti. Það er sjálfsagt of seint í rassinn gripið að fara að halda ræður af þessu tagi við 3. umr., enda virðist minn málflutningur hér þegar ég mælti fyrir frv. því sem ég flutti ásamt fleiri þingmönnum og vísað var til hv. allshn. ekki hafa fallið þar í mjög frjóan jarðveg, a.m.k sé ég þess ekki stað í brtt. nefndarinnar eins og þær komu fram og verður þá bara að taka því eins og það er, en mér segir svo hugur um að menn séu ekki að smíða neitt þúsund ára hús í sambandi við þessar breytingar á umferðarlögunum og þeir hlutir muni verða hér áfram til skoðunar og mér liggur nú við að segja vonandi nema þá bregði mjög til betri tíðar í sambandi við þessi mál, ellegar held ég að menn hljóti að verða hér áfram á næstu árum í því að leita leiða til þess að bæta þetta ástand. Það er ekki nógu gott. Og við verðum að horfa á hvað það er sem veldur því að slysatíðnin er jafnhá hér á Íslandi og raun ber vitni borið saman við ýmsar nágrannaþjóðir, hvort það sé eitthvað í fyrirkomulagi þessara mála hjá okkur eða einhverjar uppeldislegar eða félagslegar aðstæður sem þarna liggi til grundvallar og ráðast þá að þeim rótum vandans. Auðvitað verða svona mál aldrei leyst í eitt skipti fyrir öll á einu bretti með einhverri snjallri kerfisbreytingu. Mér dettur ekki í hug að halda slíku fram og svo einföld erum við auðvitað ekki að við látum okkur detta það í hug, að við munum útrýma umferðarslysum með einhverjum slíkum töfrabrögðum. Og sjálfsagt er það þannig að þrotlaust áróðursstarf og fyrirbyggjandi aðgerðir sem eru sífellt í gangi í skólum og heimilum og annars staðar þar sem því verður komið við er það sem mestum árangri skilar í þessu sambandi.
    En ég a.m.k. vildi gjarnan fá að heyra formanninn fara aðeins betur yfir það hvernig þessi reynsluakstur er þá hugsaður í samhengi við ökukennsluna að öðru leyti og skipulag þessara mála og ég vildi koma því á framfæri, hæstv. forseti, að ég tel að með engum fullnægjandi rökum hafi þeim hugmyndum sem við nokkrir þingmenn settum fram í frv. fyrr í vetur um ráðstafanir til að reyna að draga úr tíðni slysa og óhappa á fyrstu mánuðum ökumannsferilsins verið hafnað. Ég hef a.m.k. ekki heyrt þau og væri þá þakklátur fyrir það þó að seint væri að þau kæmu hér fram ef þau eru einhver eða hafa verið flutt.