Umferðarlög

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 18:37:49 (7575)

     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirra athugasemda sem hér hafa komið fram frá tveimur hv. þm. þá tel ég rétt að ræða þetta mál aðeins nánar. Mér finnst það reyndar svolítið sérstakt að það virðast vera nokkuð ólík sjónarmið um þessi mál í Alþb. vegna þess að það voru tveir hv. varaþm. frá Alþb. sem sóttu fundi um þetta mál í allshn., þ.e. Lilja Rafney Magnúsdóttir og Auður Sveinsdóttir. Hv. þm. Kristinn Gunnarsson hafði ekki tök á að sækja fund í nefndinni, var þá frá þingi en alls fjallaði allsh. um þetta frv. á 9 fundum þannig að mönnum hlýtur að vera ljóst að það er búið að ræða þetta mál mjög ítarlega.
    Það er einnig búið að fá margar umsagnir sem farið hefur verið yfir þó að menn kjósi að líta ekki á þær heldur einvörðungu þessa umsögn frá Ökukennarafélagi Íslands. Og þeir taka það meira að segja fram

að þeir séu ekki á móti því að foreldrar komi inn í þessi mál. Þeir vilja aðeins meiri umræðu og væntanlega meira samráð við þá sjálfa. Ég get ósköp vel skilið það en ég held að með því samkomulagi sem ég lýsti hér í fyrri ræðu hafi verið búið svo um hnútana að það verði.
    Vegna orða hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar áðan um að formaður þurfi að koma hér með sérstaka lögskýringu, þá var það nú svo að almennt er ekki þörf á því að þegar í lögum eru veittar heimildir fyrir ráðherra til þess að setja reglugerðir, þá þarf ekkert að skýra það nánar en það er heldur ekki gert ráð fyrir því að það séu ítarleg fyrirmæli í lagaákvæðum sem snerta þessa heimild. Hins vegar þótti mér rétt að skýra þetta ákvæði enn frekar og hef þó komið að því á öðrum stöðum, m.a. við stjórn Félags ísl. ökukennara og í fjölmiðlum og taldi rétt að gera líka hér á hinu háa Alþingi.
    Varðandi það að það hefði komið seint til að þeir kæmu inn í nefndina þá var það á fundi í gær en þetta mál var líka rætt á fundi allshn. sl. mánudagsmorgun, þar sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var ekki viðstaddur, þar sem við ræddum einmitt það atriði að óska eftir því við hæstv. dómsmrh. að fá reglugerðina. Og það er, verð ég að segja, hlutur sem ég er í sjálfu sér ekki hrifin af vegna þess að ég tel að það eigi ekki að blanda saman löggjafarvaldi og framkvæmdarvaldi með þessum hætti. En ég tel vegna þessa misskilnings sem upp hefur komið, m.a. hefur sá misskilningur komið fram í fjölmiðlum og ég vil að hann sé leiðréttur, þá tel ég rétt að veita sérstaka undanþágu til þess að ná sáttum við ökukennara sem ég er viss um að við höfum öll áhuga á að hafa fullar sættir við og hafa unnið mjög gott starf.
    Vegna þess bréfs sem hv. þm. minntist hér á áðan frá ökukennurum varðandi þetta ,,samkomulag`` er gert var á síðasta ári, þá veit ég ekki betur en ráðherra hafi staðið við þetta óformlega samkomulag og skipað ökukennara í Umferðarráð. En það er svo á valdi ráðherra en ekki þingnefndar hvaða fulltrúar eru skipaðir í Umferðarráð og hvort sá fulltrúi er þóknanlegur Félagi ísl. ökukennara eða ekki. Það er ekki mál allshn. þó að mér finnist að sjálfsögðu að menn eigi að reyna að vinna að þessu máli í samkomulagi því að auðvitað eru ökukennarar sérfróðir um þessi mál og virða ber þeirra samtök.
    Varðandi ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um frv. hans og fleiri þingmanna sem barst til allshn., þá var það frv. sent til umsagnar til sömu umsagnaraðila og það frv. sem hér er rætt um. Það komu fram mismunandi álit hér í þeim umsögnum eins og ég var reyndar búin að skýra hv. þm. frá en ég vil taka það fram að það eru mörg mál eftir í allshn. sem nefndin hefur hreinlega ekki haft ráðrúm til þess að vinna með og enn þá er tími þannig að við eigum eftir að skoða þetta mál betur.
    Varðandi atriði um andstöðu ökukennara, þá held ég að þetta sé nú ekki alveg rétt fullyrðing vegna þess að ég hef upplýsingar um það og hef sjálf fengið persónulegar upphringingar út af því að það eru margir ökukennarar sem eru mjög sammála og fylgjandi þessum breytingum. En ég get hins vegar alveg tekið undir það að þetta eru engin töfrabrögð sem við erum að koma með hér til þess bara að lagfæra ástandið í okkar umferðarmenningu eða ómenningu heldur erum við að leita leiða til úrbóta. Vonandi megi það bera góðan ávöxt.
    Varðandi þau atriði sem var spurt hér um um nánari útfærslu á þessu máli, þá kemur það skýrt fram í brtt. frá allshn. á þskj. nr. 979 við 11. gr. þar sem segir:
    ,,C-liður orðist svo: Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Dómsmrh. getur sett reglur um æfingaakstur án löggilts ökukennara, þar á meðal um lágmarksþjálfun nemenda, enda hafi leiðbeinandi náð 24 ára aldri.`` Þarna gerði nefndin tillögu til breytinga vegna þess að það var lægri aldur í frv. Okkur var nú reyndar sagt að það væru mistök. Þessi leiðbeinandi skuli hafa gild réttindi til þess að stjórna þeim flokki ökutækja og hafi a.m.k. fimm ára reynslu af því að aka þannig ökutæki. Nefndin jók þarna árafjöldann líka í sínum brtt. og fleiri skilyrði eru talin hér upp.
    Það er auðvitað alveg satt og rétt að það þarf að vanda mjög til þessarar reglugerðar. Það þarf að huga að mörgum þáttum. Varðandi það atriði t.d. sem rætt hefur verið um og menn hafa e.t.v. áhyggjur af að það sé spurning hver teljist stjórnandi ökutækisins, þá er það nú reglugerðarákvæði í dag að ökukennari telst stjórnandi ökutækis og væntanlega yrði það á sama hátt núna að leiðbeinandinn teldist stjórnandi ökutækisins en ég tel að það þyrfti að leita einnig álits tryggingafélaganna um þetta mál.
    Varðandi það atriði að ökukennarar hafi aukahemla sem þeir geta notað í sinni kennslu, þá skilst mér að það sé hægt að fá slíkan búnað leigðan fyrir einkabifreiðar. Það er líka hægt að hugsa sér það að þessi akstur eigi sér stað utan vega á sérstökum æfingarakstursbrautum. Það er heldur ekki verið að tala um neina brotalöm í ökukennslunni í þessari tillögu. Það er bara verið að tala um það að ungir ökumenn þurfi lengri reynslu í akstrinum og einnig að það þurfi að endurbæta ökuprófin. Ég ætla því svo sannarlega að vona og ég held að það sé álit nefndarmanna í allshn. líka að þessi atriði sem vel verður vandað til væntanlega um setningu reglugerðar muni verða okkur til góðs og ég held líka að hv. þm. sem hér töluðu síðast séu mér sammála um það og það sé okkar markmið að reyna að efla umferðaröryggi sem best.