Lagaákvæði er varða samgöngumál

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 19:22:13 (7579)

     Frsm. minni hluta samgn. (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér er kominn til 2. umr. svokallaður bandormur um breytingu á lagaákvæðum er varða samgöngumál vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Það er vissulega rétt sem hv. frsm. meiri hlutans og formaður nefndarinnar sagði að þetta var allmikið rætt í samgn. og raunverulega kom fram hjá öllum nefndarmönnum að þessi lagasetning væri hálfgert lagasukk þar sem hér væri svo að segja eingöngu verið að leggja til að veita ráðherra reglugerðarheimildir eins og sjá má á frv.
    Ég mæli hér fyrir nál. um þetta frv. frá minni hluta samgn. sem er á þskj. 1034 og er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Frumvarpið, sem hér um ræðir, er fyrst og fremst flutt í þeim tilgangi að heimila ráðherra að setja reglugerðir á ýmsum sviðum samgöngumála í tengslum við samþykkt EES-samningsins. Ekki kemur fram í frumvarpinu nema í mjög takmörkuðum mæli í hverju þær reglugerðir eru fólgnar. Hér er því um að ræða mjög verulegt valdaframsal til ráðherra frá löggjafanum. Það skal tekið fram að samgöngunefnd óskaði skýringa og greinargerðar frá samgönguráðuneyti þegar frumvarpið kom fram snemma á þessu þingi. Minni hluti nefndarinnar hafði vænst breytinga á frumvarpinu í framhaldi af því. Svo varð þó ekki og kom það lítið breytt til baka.
    Löggjöf af þessu tagi er að mati undirritaðra nefndarmanna óviðunandi með öllu. Það hlýtur að vera hlutverk Alþingis að sjá til þess að lög séu skýr og hægt sé að sjá efnisinnihald þeirra. Svo er ekki í þessu lagafrumvarpi og í nefndarstörfum náðust ekki fram þær breytingar á því sem skýrðu innihald þess. Þessi málsmeðferð er öndverð við það sem gerst hefur við umfjöllun skyldra mála. Hefur almennt verið lögð áhersla á að hreinsa burt eftir föngum galopnar reglugerðarheimildir til ráðherra í málum tengdum EES-samningnum sem hafa verið til meðferðar á þessu þingi.
    Minni hlutinn er andvígur vinnubrögðum af þessu tagi og leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Undir þetta rita nefndarmenn í minni hluta samgn., Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Stefán Guðmundsson, Guðni Ágústsson og Jóhann Ársælsson.
    Það má geta þess í framhaldi af þessu nál. okkar að í tveimur greinum í þessu frv., 4. gr. og 5. gr., er verið að breyta lögum um eftirlit með skipum, nr. 51/1987, en í dag, fyrir líklega klukkustund síðan þá vorum við að breyta þeim lögum þannig að þau eru ekki lengur í gildi. Við vorum rétt áðan að setja ný lög um eftirlit með skipum. Í 5. gr. er verið að bæta við lög um leiðsögu skipa, nr. 48/1933, það er einnig búið að breyta þeim lögum fyrir nokkrum dögum, þá voru þau samþykkt hér. Þannig að lög nr. 48/1933 eru ekki lengur í gildi heldur. Það er því fleira en það að hér sé eingöngu um að ræða að bæta við reglugerðarheimildum til ráðherra sem gerir það að verkum að ég tel að þetta frv. sem hér er til 2. umr. sé mjög ófullkomið svo ekki sé meira sagt.
    Þá má einnig minnast á þá brtt. sem hv. formaður kynnti hér áðan og sagði að nefndarmenn hefðu verið nokkuð sammála um að þyrfti að koma inn. Það er að vísu rétt að það var rætt um að heimildir samgrh. til að setja reglugerðir samkvæmt þessum lögum yrðu teknar til endurskoðunar ef það yrðu verulegar breytingar á gerðum samningsins. En hins er líka rétt að geta að þetta ákvæði til bráðabirgða sem hér er sett inn er mjög veikt. Það er orðað svo að heimildir samgrn. skuli teknar til endurskoðunar ,,verði verulegar breytingar á gerðum samningsins``. Það er mjög óljóst orðað hver á að meta það hverjar eru ,,verulegar breytingar`` og hvenær á að skoða það hvort hafi orðið verulegar breytingar. Það segir ekkert um það í þessu ákvæði. Og að treysta á árvekni löggjafans í þessu máli eins og hv. formaður sagði hér áðan ég hef nú ekki mikla trú á að það sé nægilegt að treysta á það, svo mörg lagafrv. sem hér fara í gegn og mörg lög sem í gildi eru. Ég held að þetta verði ákaflega máttlaust ákvæði þó ég virði tilraunir formanns til þess að setja einhverjar hömlur á heimildir ráðherra til reglugerðarsetningar.
    Það er í sjálfu sér ekki ástæða til þess að fara neitt nánar í þetta frv. sem hér liggur fyrir. Ég hef tekið þrjú atriði sem ég tel bæði óljós og í raun og veru komin úr takt við tímann þar sem eru lög um leiðsögu skipa og lög um eftirlit með skipum. Það mætti sjálfsagt fara betur í þetta og rekja það hversu furðulega lagasetningu hér er um að ræða. En það var allmikið rætt við 1. umr. og voru mjög margir þingmenn sem tóku þá til máls og lýstu þeirri skoðun að eins og þetta frv. lítur út, væri það dæmigert fyrir það hvernig frv. ættu ekki að vera.
    Ég vil því leyfa mér að leggja til að eftir að umræðu lýkur hér verði þessu frv. vísað til ríkisstjórnarinnar.