Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 19:46:15 (7590)

     Frsm. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 954 um frv. til laga um réttarstöðu starfsmanna um aðilaskipti að fyrirtækjum frá félmn.
    Nefndin hefur fjallað um málið og á fund hennar komu frá félmrn. Berglind Ásgeirsdóttir ráðuneytisstjóri og Gylfi Kristinsson deildarstjóri. Frá Alþýðusambandi Íslands Lára V. Júlíusdóttir og Ari Skúlason, Hrafnhildur Stefánsdóttir frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Jónas Haralds frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og Björn Arnórsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Stéttarsambandi bænda, Sambandi ísl. kaupskipaútgerða, Alþýðusambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Sambandi almennra lífeyrissjóða, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Vélstjórafélagi Íslands, Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Sambandi byggingarmanna, Málm- og skipasmiðasambandi Íslands, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Vinnuveitendasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Kennarasambandi Íslands, félmrn., Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga.
    Með frv. þessu er lagt til að lögfestar verði reglur sem settar eru fram í tilskipun EBE nr. 77/187 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launþega við eigendaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta atvinnurekstrar, en þessar reglur er ekki að finna í íslenskri löggjöf. Samkvæmt 8. gr. hennar og í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið skulu aðildarríkin setja nauðsynleg lög og stjórnvaldsfyrirmæli til að hrinda markmiðum tilskipunarinnar í framkvæmd.
    Við nánari yfirferð á frv. kom fram ábending frá nefnd þeirri er samdi frv. um að efnisreglur er felast í 2. og 3. tölul. 3. gr. tilskipunarinnar og varða gildistíma kjarasamninga annars vegar og viðbótarlífeyrissjóði hins vegar hafi ekki komist nægilega vel til skila og leggur nefndin því til að 2. gr. frv. verði umskrifuð með þeim hætti að reglur tilskipunarinnar verði skýrari. Því mælir nefndin með því að frv. verði samþykkt með slíkri breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj.
    Eggert Haukdal tekur fram að stuðningur hans við frv. sé óháður afstöðu hans við afgreiðslu frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið.
    Undir þetta rita 6. apríl 1993 Rannveig Guðmundsdóttir, Guðjón Guðmundsson, Gunnlaugur Stefánsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir með fyrirvara, Ingibjörg Pálmadóttir með fyrirvara, Jón Kristjánsson með fyrirvara, Eggert Haukdal, Lilja Rafney Magnúsdóttir með fyrirvara og Einar K. Guðfinnsson.
    Virðulegi forseti. Ég óska eftir að fá að lesa hér upp þá brtt. sem nefndin flytur við þetta frv. og hún hljóðar svo:
    ,,Við 2. gr. Greinin orðist svo:
    Frá og með þeim degi sem aðilaskipti verða í skilningi 1. mgr. 1. gr. skal nýr eigandi takast á hendur réttindi og skyldur fyrri eiganda samkvæmt ráðningarsamningi og virða þau launakjör og starfsskilyrði sem samþykkt hafa verið í almennum kjarasamningi með sömu skilmálum og giltu fyrir fyrri eiganda þar til samningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.
    Ákvæði 1. mgr. gildir ekki um rétt launþega til elli- og örorkulífeyris eða eftirlifendabóta þegar um er að ræða lífeyrissjóði fyrir eina eða fleiri starfsstéttir sem starfa samkvæmt sérstökum lögum eða reglugerð sem staðfest hefur verið af fjmrn.
    Ákvæði 2. mgr. getur þó aldrei leitt til skerðingar á áunnum réttindum úr þeim sjóðum sem þar um ræðir. Skiptir þá engu máli hvort starfsmaður starfar áfram við reksturinn eftir aðilaskipti eða ekki.``