Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 19:56:36 (7593)


     Frsm. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Mér er ljúft að verða við þeim beiðnum sem komu fram um útskýringar hjá hv. 15. þm. Reykv. Ég held að þarna sé e.t.v. um að ræða nokkurn misskilning.
    Í fyrsta lagi þá er það svo að með sum af þeim málum sem flutt eru í tengslum við Evrópska efnahagssvæðið hefur náðst nokkuð víðtæk samstaða milli aðila vinnumarkaðarins. Það eru mál sem kannski fram að þessu hafa ekki verið sett lög um og hefur kannski verið ágreiningur um að setja. Það voru fulltrúar aðila vinnumarkaðarins sem voru í þeirri nefnd sem sömdu þetta frv. og gerðu samkomulag um það sem þar er að finna. Ef við lítum þar á 2. gr. frv. þá stendur þar: ,,Frá og með þeim degi sem aðilaskipti verða, sbr. 1. gr., tekur nýr atvinnurekandi við öllum réttindum og skyldum, sem fyrri atvinnurekandi bar gagnvart starfsmönnum í fyrirtækinu eða atvinnurekstrinum, að því er snertir ráðningarkjör, þar með talið áunnin réttindi svo og önnur starfsskilyrði.`` Eins og þessi grein er lesin þá er hún mjög opin og víðtæk og má lesa hana þannig að hún eigi við um öll hugsanleg réttindi. Við sendum þetta frv. til umsagnar og fengum fulltrúa sem óskað var eftir á fund nefndarinnar og meðan við vorum að vinna þetta mál þá komu til okkar, til félmn., ábendingar um að nefndin sem samdi frv. í hendurnar á okkur hefði áttað sig á því að 2. gr. væri miklu víðtækari en þeir höfðu hugsað hana og mátti skilja hana á þann veg að hún rúmaði enn þá meira en nefndin hafði hugsað sér. Þar með kemur þessi tillaga til félmn. um breytingu á 2. gr. þar sem lögð er áhersla á að aldrei geti verið um að ræða skerðingu á áunnum réttindum úr sjóðum sem um ræðir varðandi lífeyrissjóði og skiptir þá engu máli hvort starfsmaður starfi áfram við viðkomandi rekstur eftir að aðilaskipti verða hjá fyrirtæki eða ekki en það er hins vegar verið að þrengja málsgreinina um að þessi ákvæði gildi ekki um rétt launþega til elli- og örorkulífeyris eða eftirlifendabóta ,,þegar um er að ræða lífeyrissjóð fyrir eina eða fleiri starfsstéttir`` eins og þar stendur.
    Þannig að auðvitað er það rétt að í öllum þeim málum sem tilskipanir hafa verið um varðandi EES þá getur hvert þjóðþing gengið lengra heldur en tilskipunin þar kveður á um. Í þessu tilfelli er um samkomulagsmál að ræða og verið að setja í lög ákvæði sem ekki hafa verið hjá okkur og það var ekki ákvörðun að ganga lengra að þessu sinni hvort sem það gerður gert síðar. Við fjölluðum um málið og sendum það aftur til umsagnar viðkomandi aðila sem við höfðum rætt við og fengum til baka þau svör að þessi brtt. breytti ekki afstöðu manna svo sem frá ASÍ. Við höfum orðið við því að fara að beiðni þeirrar nefndar sem samdi frv. þar sem var alger samstaða aðila beggja megin borðs um að setja fram brtt. Það varð niðurstaða nefndarinnar að taka það ekki upp hjá sér að ganga lengra heldur en þeir sem sömdu frv. höfðu ætlað sér. Þannig liggur í því að við flytjum þessa brtt.