Efling íþróttaiðkunar kvenna

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 10:31:00 (7597)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. 18. maí 1992 samþykkti Alþingi ályktun sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því að gert verði átak til að efla íþróttaiðkun kvenna. Áhersla verði lögð á mikilvægi íþrótta í líkamlegu og félagslegu uppeldi og sem fyrirbyggjandi aðgerð til að bæta heilsu og vinnuþrek. Fjárframlög ríkisins til íþrótta skulu veitt með það að markmiði að gera íþróttaiðkun kvenna og karla jafnhátt undir höfði.``
    Þessi till. var á margan hátt nokkuð merkileg, kannski aðallega fyrir það að allar konur, sem áttu sæti á Alþingi, fluttu till. og var hún samþykkt á Alþingi eins og ég sagði áðan.
    Varla efast nokkur lengur um gildi íþrótta, bæði fyrir félagslegt og líkamlegt uppeldi fólks. Áherslur þeirra sem ráða ferðinni í þessum málum hafa hins vegar verið ágreiningsefni þeirra sem fjalla um íþróttir. Að þeirra mati og reyndar mínu mati líka er allt of mikil áhersla lögð á þjálfun meistaraflokks karla og landsliða karla í boltaíþróttum og þessi lið fá langmest fjármagn. Það gildir ekki bara um meistaraflokka. Þetta gildir einnig um yngri flokkana og allir sem eiga börn vita að miklu meiri áhersla er lögð á þær íþróttagreinar sem strákar stunda, svo sem fótbolta og handbolta, en minni áhersla lögð á þær greinar sem stelpur stunda.
    Á Íslandi stunda um 100 þús. manns íþróttir innan íþróttahreyfingarinnar og er áætlað að um þriðjungur þeirra séu konur. Orsakir fyrir því að svo fáar konur stunda íþróttir innan íþróttahreyfingarinnar eru margar en fjölmargar konur stunda íþróttir utan íþróttahreyfingarinnar bæði á heilsuræktarstöðum og eins sjálfar. Konur innan íþróttahreyfingarinnar vilja leggja aukna áherslu á kvennaíþróttir og hafa í því sambandi bent á fjölmargar ástæður þess að svo lítil áhersla er lögð á kvennaíþróttir og hafa bent á ýmsar leiðir til úrbóta. En það er ekki bara á Íslandi sem þetta er svona heldur er það víða annars staðar. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. menntmrh. á þskj. 627 til hvaða ráðstafana ríkisstjórnin hafi gripið í framhaldi af þeirri ályktun Alþingis sem ég las áðan upp.