Efling íþróttaiðkunar kvenna

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 10:34:21 (7598)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :

    Hæstv. forseti. Ég svara þessari spurningu að því er veit að ráðuneytinu sjálfu. Í námi íþróttakennara og á endurmenntunarnámskeiðum kennara hefur verið lögð á það áhersla að í skólum landsins sé jöfn aðstaða fyrir pilta og stúlkur og mikilvægi íþrótta í þroskaferli og uppeldi hvers og eins. Á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á samkennslu pilta og stúlkna í grunnskólum og framhaldsskólum í skólaíþróttum. Í aðalnámsskrá grunnskóla segir m.a.:
    ,,Námsskráin gerir ráð fyrir að stúlkur og piltar skuli nema það sama. Það fyrirkomulag í íþróttakennslu að kenna stúlkun og piltum sér felur í sér hættu á að kennslan verði mismunandi eftir kynjum. Samkennsla pilta og stúlkna er því æskilegri að þessu leyti auk þess sem hún er líkleg til þess að hafa örvandi áhrif á nám og efla gagnkvæma virðingu, tillitssemi og skilning milli kynjanna.``
    Hið sama er uppi á teningnum í nýju fyrirkomulagi almennrar íþróttakennslu framhaldsskóla þar sem tilgangur kennslunnar er að efla líkamsþroska, bæta heilsufar nemenda og vekja hjá þeim áhuga á reglubundinni íþróttaiðkun og líkamsrækt. Námsmarkmið fyrir stúlkur og pilta eru hin sömu og heyrir það nú frekar til undantekninga að kenna stúlkum sér og piltum sér.``
    Ráðuneytið hefur lýst sig fúst til samstarfs við íþróttahreyfinguna um að efla íþróttaiðkun kvenna. Íþróttasamband Íslands hefur einnig lýst því yfir að nefnd á vegum ÍSÍ, sem falið var að vinna að umbótum í kvennaíþróttum, sé reiðubúin til samstarfs við ráðuneytið vegna samþykktar Alþingis. Að öðru leyti fylgir menntmrn. eftir ályktuninni frá 18. maí sl. með starfi íþrótta- og æskulýðsdeildar ráðuneytisins.
    Á vegum Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála hefur farið fram yfirgripsmikil rannsókn meðal þúsunda ungmenna, pilta og stúlkna, þar sem m.a. var könnuð þátttaka þeirra í íþróttum og samspil íþróttaiðkunar og margra annarra þátta í lífi þeirra. Þannig voru tengsl íþróttaiðkunar við ýmsa þætti í skólagöngu þeirra, reykingar, áfengis- og fíkniefnaneyslu könnuð, svo og ýmislegt sem tengist líðan þeirra, bæði andlegri og líkamlegri. Þær niðurstöður verða ræddar á sérstöku málþingi um gildi íþrótta, málþingi sem haldið verður 15. maí nk. á vegum íþróttanefndar ríkisins og menntmrn.
    Ætla má að niðurstöður ofangreindrar rannsóknar varpi ljósi á mismunandi viðhorf, áhuga og þátttöku pilta og stúlkna í íþróttum þannig að nýta megi þær niðurstöður til þess að efla íþróttaiðkun kvenna í samvinnu við þá aðila sem vinna að þessum málum.