Efling íþróttaiðkunar kvenna

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 10:37:40 (7599)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Ég þakka ráðherra svörin en ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með að ekki skuli vera búið að gera meira. Kannski er ekki mjög langur tími frá því að þessi þáltill. var samþykkt, þ.e. eitt ár, ég hafði þó vonað að tíminn hefði verið notaður. Ég er sammála ráðherranum í því að mjög mikilvægt sé að hafa samstarf við ÍSÍ og þá þessa nefnd sem er sérstaklega starfandi þar um íþróttir kvenna og ég held að það sé líka mjög mikilvægt að setja á stofn einhver þróunarverkefni um íþróttaiðkun í skólum eins og ráðherra reyndar talaði aðeins um. Ég hefði talið eðlilegt að leggja meiri áherslu þar á íþróttaiðkun stúlkna. Því miður er það nú svo þar sem ég þekki til að meiri áhersla er lögð á strákana. En það er kannski annar handleggur.
    Ég hefði talið eðlilegt er að taka strax upp þráðinn við þessa nefnd innan ÍSÍ af hálfu ráðuneytisins. Mér datt í hug að einhver innan ráðuneytisins, kannski í hlutastarfi, hálfu starfi eða kannski fullu starfi, þyrfti að sinna þessum málum sérstaklega, þ.e. að kona verði ráðin til þess að sinna þessu séstaklega. Það er gott og gilt að halda þær ráðstefnur sem ráðherrann talaði um, en þessi þáltill. gengur sérstaklega út á að efla íþróttaiðkun kvenna.
    Ég vil benda á að fyrir um það bil viku héldu konur innan íþróttahreyfingarinnar ráðstefnu eða málþing um íþróttaiðkun kvenna. Ég komst því miður ekki á þann fund en afrakstur þess fundar held ég að væri gott veganesti fyrir þá sem vinna að þessum málum innan ráðuneytisins að skoða. Ég vil einnig benda á að innan Evrópuráðsins hefur sérstakt átak verið gert til þess að efla íþróttaiðkun kvenna og þetta bendi ég á til þess að leggja áherslu á að þetta er ekki neitt sérstakt fyrirbæri hér á Íslandi og nefnd hefur verið sett á stofn sem hefur haldið a.m.k. tvær eða þrjár ráðstefnur um þetta mál. Það er því mjög mikið að gerast í þessum málum og ég tel að efniviðurinn sé nægjanlegur til þess að byggja á.
    Ég bendi á að ekki bara Evrópuráðið sem heild heldur einnig fjölmörg lönd hafa lagt sérstaka áherslu á þetta í stefnumótun sinni og Íslendingar eiga einn fulltrúa, Lovísu Einarsdóttur, sem er fulltrúi Íslands í þessum vinnuhópi á vegum Evrópuráðsins. Þetta vildi ég segja og ég vonast til þess að ráðuneytið taki nú þegar upp þráðinn við þennan hóp og í samvinnu við konurnar og reyndar ÍSÍ í heild taki myndarlega á þessum málum.