Efling íþróttaiðkunar kvenna

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 10:42:25 (7601)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Eflaust má alltaf gera betur en gert er. Ég nefndi nokkur atriði sem unnið er að á vegum ráðuneytisins, að vísu ekki allt vegna ályktunarinnar, námsskráin er eldri en ályktunin og rannsóknin, sem ég vitnaði til, var heldur ekki gerð vegna þessarar ályktunar Alþingis frá því í maí í fyrra. Ég nefndi sérstaklega málþingið sem verður haldið í næsta mánuði og ég vonast til að út úr því málþingi komi eitthvað það sem megi nýta til þess að efla íþróttaiðkun kvenna.
    Ég nefndi líka samstarfið við íþróttahreyfinguna og auðvitað er alveg sjálfsagt mál að taka upp þráðinn við þessa nefnd sem starfar á vegum Íþróttasambands Íslands. Það munum við áreiðanlega gera.
    Mismunandi áherslur eru hjá íþróttafélögunum. Það er eflaust rétt sem hefur komið fram að meiri áhersla er lögð á keppnisíþróttir karla en kvenna en ráðuneytið gerir að minnsta kosti það sem í þess valdi stendur og snýr fyrst og fremst af skólunum til þess að sem mest jafnræði verði.