Framtíð húss gamla Stýrimannaskólans

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 10:55:51 (7607)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessi svör. Ég er ákaflega fegin að heyra að það er komin hreyfing á þetta mál því ég geng oft fram hjá þessu húsi eða fer þar fram hjá á öðrum farartækjum og ég hef fylgst með því að þarna er ákaflega lítil hreyfing í kringum húsið og eiginlega hörmulegt að horfa upp á svona stórt og myndarlegt hús standa autt og yfirgefið þó reyndar séu íbúar í húsinu eins og hér kom fram.
    Það kom fram í svari hæstv. menntmrh. að þessar sömu hugmyndir eru til umræðu og verið hafa á undanförnum árum og ég vona svo sannarlega að eitthvað verði úr þeim. Ég vil ljúka þessari umræðu með því að skora á hæstv. menntmrh. að sjá til þess að niðurstaða fáist í þetta mál og að við megum sjá þetta hús í góðu ásigkomulagi og það nýtist, helst þannig að öllum íbúum Reykjavíkur komi til góða.