Endurskoðun á útreikningi þjóðhagsstærða

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 11:00:45 (7609)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Í tilefni af þeirri ályktun Alþingis sem hv. 15. þm. Reykv. vitnaði til, eða með vísan til hennar, þá skipaði umhvrh. í febrúar 1992 nefnd þriggja manna til að gera tillögur um hvernig staðið skuli að því verkefni sem þál. kveður á um. Í skipunarbréfi nefndarinnar er henni falið að kanna aðferðir við útreikninga þjóðhagsstærða þar sem tekið sé tillit til áhrifa og framleiðslustarfsemi á umhverfi og náttúrulegar auðlindir. Þá er nefndinni falið að gera tillögur um skipulega hagsýslugerð um umhverfismál og nýtingu auðlinda til samræmis við samþykktir og aðgerðir Sameinuðu þjóðanna, norrænu ráðherranefndarinnar og OECD á þessu sviði.
    Í nefndinni eiga sæti deildarsérfræðingur í umhvrn., forstöðumaður þjóðhagsreikninga í Þjóðhagsstofnun og hagstofustjóri sem er formaður nefndarinnar.
    Það sem af er starfstíma nefndarinnar hefur hún kynnt sér stöðu rannsókna í nágrannaríkjunum varðandi gerð svokallaðra grænna þjóðhagsreikninga og kröfur og óskir um gerð hagskýrslna varðandi þetta efni á alþjóðvettvangi. Jafnframt hefur nefndin farið yfir stöðu þessara mála hér á landi og rætt um skipulag umhverfisskýrslugerðar og verkaskiptingu milli stofnana.
    Í bréfi til umhvrh. 9. febr. sl. kynnti nefndin fyrstu niðurstöður sínar en þær lúta að skipulagi og verkaskiptingu við gerð almennra hagskýrslna um umhverfismál. Álit nefndarinnar er að í meginatriðum ber að haga þessu með eftirfarandi hætti:
    1. Nefndin álítur eðlilegt og í samræmi við skipulag þessara mála í nálægum löndum að framsetning og útgáfa töluyfirlita um umhverfismál verði hluti almennrar hagsýslugerðar Hagstofu Íslands. Er þá gert ráð fyrir því að Hagstofan leiti til fagstofnana og óski eftir samstarfi og ráðgjöf um reglubundna skýrslugjöf, þar á meðal til hvaða sviða, þátta og landsvæða skýrslugjöfin skuli taka, um tíðni athugana, skilgreiningar og fleira þess háttar. Jafnframt verði samið við fagstofnanir um að þær láti Hagstofunni gögn í té með reglubundnum hætti. Tekið er fram að í þessu felist engin takmörk á skýrslustarfi fagstofnana sem auðvitað mundi eftir sem áður haga nánari skýrslugerð um eigið verkefnissvið og verksvið eftir því sem þykir best henta á hverri stundu.
    2. Hér á landi er gerð þjóðhagsreikninga hlutverk Þjóðhagsstofnunar. Sá þáttur þessa máls sem varðar útreikning þjóðhagsstærða og mat á áhrifum umhverfis og náttúruauðlindar tengist þjóðhagsreikningagerð og felst m.a. í gerð sértækra hliðarreikninga við þjóðhagsreikninga. Nefndin telur því eðlilegt að Þjóðhagsstofnun annist þetta verkefni.
    3. Nefndin telur skynsamlegt að skipulag hagsýslugerðar um umhverfismál verði í fyrstu miðuð við

að draga saman og nýta tiltæk efni. Jafnframt verði leitast við að fylla upp í eyður á viðkomandi sviðum og fá því komið til leiðar að athuganir verði gerðar með reglubundnum hætti sem þáttur í skipulegri og samfelldri upplýsingagjöf. Áhersla verður lögð á þau svið sem brýnust eru talin af stjórnvöldum en um leið verið tekið svo sem unnt er tillit til alþjóðlegrar gagnasöfnunar á þessu sviði.
    Í bréfi nefndarinnar segir enn fremur að nauðsynlegt sé að nú þegar verði farið að móta það skipulag og hafa það samráð við fagstofnanir sem áður greinir.
    Nefndin leggur því til að ráðinn verði starfsmaður í þessu skyni. Verkefni hans verða að hefjast handa við upplýsingasöfnun og töflugerð á nokkrum völdum sviðum umhverfismála, leitað verði fyrirmyndar í skýrslum nágrannaþjóða og reynsla þeirra hagnýtt svo sem kostur er. Starfsmaðurinn starfi á Hagstofunni undir stjórn hennar og nefndarinnar. Lagt er til að á þessu ári verði launakostnaður borinn saman af Hagstofu Íslands og umhvrn. Jafnframt verði leitað eftir fjárveitingu á fjárlögum 1994 til að kosta fasta stöðu við Hagstofuna við gerð umhverfisskýrslna.
    Umhvrn. féllst á þessa tillögu og er afráðið að þetta starf hefjist nú á næstunni.
    Mikilvægt er að hafist verði handa við almenna hagsýslugerð um umhverfismál með skipulagðari og reglubundnari hætti en verið hefur. Það er jafnframt forsenda þess að unnt sé að takast á við mat á umhverfisáhrifum við gerð þjóðhagsreikninga. Í þessu sambandi skal á það bent að rannsóknir á þessu sviði eru yfirleitt ekki langt á veg komnar á alþjóðavettvangi. Þá hefur ekkert ríki hafið gerð þjóðhagsreikninga með því sniði sem hér er gert ráð fyrir en nokkur ríki hafa unnið að færslu sérstakra hliðarreikninga til að nálgast þau áhrif sem hér er um að ræða. Þess má enn fremur geta að hagskýrslustofnun Sameinuðu þjóðanna samþykkti í marsmánuði sl. tillögur um heildarendurskoðun þjóðhagsreikningakerfis Sameinuðu þjóðanna. Það er ekki gert ráð fyrir að áhrif framleiðslustarfsemi á umhverfi og auðlindir verði metin við þjóðhagsreikninga sem slíkra, heldur komi fram í sérstökum hliðarreikningum að vali og eftir getu hvers og eins ríkis.
    Á hinn bóginn má minna á að frá því sl. haust hefur á vegum hagstofum hinna Norðurlandanna og fyrir styrk frá norræna ráðherraráðinu verið unnið að undirbúningsathugun og aðferð við mat á umhverfisáhrifum á þjóðarstærðir. Þetta verkefni byggist á áliti Norðurlandaráðs 1991. Þessu undirbúningsverkefni er að ljúka og hefur verið sótt um fjárveitingu til framhaldsverkefnis á þessu sviði. Verði fé veitt til þessa og framhald á verkefnum er ætlunin að Íslendingar tengist því og fylgist með því eins og frekast er unnt. Það væri ákjósanlegt þar sem Norðurlandaþjóðirnar þykja skara fram úr á þessu sviði. Við ættum því að geta notið góðs af þessu norræna samstarfsverkefni og norrænum rannsóknum í þessum efnum.