Efling heimilisiðnaðar

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 11:11:54 (7612)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Nefnd um eflingu heimilisiðnaðar var skipuð í aprílmánuði 1991 en í febr. sama ár samþykkti Alþingi þál. þar sem forsrh. var falið að kanna í samvinnu við fræðsluyfirvöld, samtök listamanna og Heimilisiðnaðarfélag Íslands hvernig efla mætti heimilisiðnað hér á landi. Helstu markmið skyldu vera eftirfarandi:
    a. Að kanna stöðu heimilisiðnaðar og minjagripagerðar á landsbyggðinni.
    b. Að leita uppi gamlan fróðleik um gerð ýmissa þjóðlegra muna með það að markmiði að þjóðleg handíð varðveitist og þróist áfram.
    c. Að kanna hvernig veita megi faglega ráðgjöf með því að efna til námskeiða þar sem kunnáttufólk leiðbeinir um rétt vinnubrögð og handtök við gamla heimilisiðnaðinn og mikilvægi þess að nota hráefni sem er sérstakt fyrir Ísland.
    d. Að leggja sérstaka áherslu á vinnslu íslensku ullarinnar, t.d. með því að standa fyrir tónvinnunámskeiðum.
    e. Að sækja stoð til hönnuða og hugmyndasmiða í leit að nýsköpun í heimilisiðnaði.
    f. Að aðstoða fólk við fjármögnun og markaðssetningu.
    g. Að hafa samstarf við atvinnumálaráðgjafa þar sem þeir eru starfandi.
    Í nefndina voru skipaðir Ásrún Kristjánsdóttir formaður, Ásta R. Jóhannesdóttir, fulltrúi forsrn., Sigrún Guðmundsdóttir, fulltrúi menntmrn., Jakobína Guðmundsdóttir, fulltrúi Heimilisiðnaðarfélags Íslands, og Hildur Hákonardóttir, fulltrúi Sambands ísl. listamanna.
    Byggðastofnun lagði nefndinni til starfsaðstöðu og starfsmann, Lilju Karlsdóttur.
    Nefndin hélt hátt á þriðja tug funda og skilaði skýrslu sinni í lok nóvembermánaðar sl. Í henni er m.a. fjallað um hvernig varðveita megi þá handverksmenningu sem við höfum tekið í arf og hvort og þá hvernig nýta megi þessa þekkingu og það hráefni sem til staðar er til nýsköpunar í atvinnumálum. Benda nefndarmenn á í skýrslu sinni að heimilisiðnaður og handverk skipi ekki þann sess sem þeim ber í skólakerfinu og að vinna beri að uppbyggingu handverksfræðslu allt frá fyrstu bekkjum grunnskóla til háskólastigs. Auk þess að gera tillögur er lúta að úrbótum í kennslu- og skólamálum gerir nefndin margvíslegar tillögur um hvernig aðstoða megi handverksmenn og smáfyrirtæki sem fást við handlistverk og minjagripagerð. Er í því sambandi lagt til að stuðlað verði að því að meðferð hráefnis svo sem ullar verði bætt, fagleg ráðgjöf við einstaklinga og smáfyrirtæki verði efld, sérstaklega sú er lýtur að hönnun og vöruþróun. Athugað verði hvort hægt sé að koma á nettengingu smáfyrirtækja og samstarfi í sölumálum, auk þess sem kannað verði hvort bæta megi rekstrargrundvöll handverksfólks og fyrirtækja, t.d. með skattalegum ívilnunum.
    Þá er lagt til að sett verði á stofn sérstök hönnunarmiðstöð er hafi það hlutverk að hafa yfirsýn yfir og aðstoða við uppbyggingu smáiðnaðar, listiðnaðar og minjagripagerðar. Samkvæmt tillögunni skal um miðstöðin m.a. annast verkmenntarannsóknir, námskeiðahald, hönnun og gæðamat, safna upplýsingum, gögnum og hugmyndum um verkmenntir og listhandiðnað og aðstoða einstaklinga og smáfyrirtæki við sölu og markaðssetningu handverksmuna. Skýrsla nefndarinnar hefur verið send Byggðastofnun til kynningar og hefur innihald hennar verið rætt óformlega. Endanleg afstaða ríkisstjórnarinnar til einstakra tillagna liggur ekki fyrir en ýmsar þær hugmyndir, sem settar eru fram í skýrslunni, eiga sér samhljóm í stefnu ríkisstjórnarinnar sem m.a. er ítrekuð í stefnu- og starfsáætlun hennar, hvítbókinni, en líkt og þar kemur fram vill ríkisstjórnin styðja við viðleitni smáfyrirtækja til nýsköpunar. Þessari stefnu hefur m.a. verið fylgt eftir með styrkveitingum á vegum iðnrn., félmrn. og Byggðastofnunar. Auk þess hefur Framleiðnisjóður landbúnaðarins veitt fé til heimilisiðnaðarverkefna, aðallega í gegnum Stéttarsamband bænda.
    Til Byggðastofnunar leitar vaxandi fjöldi fólks með hugmyndir um ýmiss konar framleiðslu í tengslum við handverk, list- og heimilisiðnað og hefur stofnunin sinnt beiðnum um aðstoð og fyrirgreiðslu eftir megni. Ég mun fara þess á leit við Byggðastofnun að lagt verði mat á þarfir þessara hópa og hvernig megi koma til móts við þær.
    Þessi skýrsla hefur verið send fleiri aðilum til kynningar og verður send enn fleiri aðilum til fróðleiks á næstunni og framhald málsins mun ráðast m.a. af þeim viðtökum sem skýrslan fær. Ég tel fyrir mitt leyti að þessi nefnd hafi starfað afskaplega vel og unnið vandað og gott verk og það sé full ástæða til þess að taka störf nefndarinnar mjög alvarlega og fylgja þeim eftir og ég mun fyrir mitt leyti stuðla að því.