Efling heimilisiðnaðar

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 11:15:30 (7613)


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég tel að það hafi verið ástæða til þess að hreyfa þessu máli sem kannski hefur nú ekki gerst mikið í en ég er mjög ánægður með að forsrh. tekur jákvætt á málinu þó að nokkur bið hafi orðið á. Ég tel að hér sé um merkilega skýrslu að ræða og það sé full ástæða til þess að hlynna að þessari starfsemi. Ekki síst vegna þess að í þessu getur verið talsverð atvinnusköpun. Þó að það megi kannski ekki ofmeta það, þá er þetta verkefni sem sjálfsagt er að sinna og sérstök ástæða til að sinna þar sem atvinnuástand er með þeim hætti í landinu sem raun ber vitni. Hér er um að ræða góðan þátt í menningu okkar sem við megum ekki vanmeta og tækifæri til listsköpunar og þróunar. Ég vil sem sagt hvetja til að málið verði tekið fastari tökum og vonast eftir því að þeim góðu hugmyndum sem hreyft er í þessari skýrslu verði sem flestum hrint í framkvæmd.