Heimahlynning

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 11:46:55 (7624)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með fyrirspyrjanda að hér er um mjög mikilvæga þjónustu að ræða sem ber að efla og ég hygg, eins og fram kom í máli mínu áðan, að það sé erfitt að bera saman tölur varðandi þessa þjónustu og spítalaþjónustu, þá sé hér um ódýrari þjónustu að ræða. Legurdagurinn kostar um 20.000 kr. á hátæknisjúkrahúsum og 6.000--7.000 kr. eru daggjöld á hjúkrunarheimilum en við erum að tala um á milli 4.000 og 5.000 kr. þannig að hér er augljóslega um mjög álitlegan kost að ræða. Eins og kom fram í máli mínu áðan hefur þetta verkefni verið í þróun og eins og ég nefndi líka þá hefur nefnd sem er að skoða endurskipulagningu á heimahjúkrun sérstaklega verið falið að skoða þennan þátt málsins. Það er auðvitað brotalöm í þessu að þessi þjónusta skuli ekki með skipulegri hætti ná til landsbyggðarinnar, álíka og hún gerir í Reykjavík. Ég held það hljóti að koma til sérstakrar skoðunar í þessu nefndastarfi að víkka þessa þjónustu þannig að hún nái með betri og skipulegri hætti út til landsbyggðarinnar.