Aðgerðir til að hefta útbreiðslu alnæmis

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 11:52:10 (7626)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Sem svar við 1. lið þessarar fsp. um árangur aðgerða til varna útbreiðslu alnæmis vil ég segja að fyrsta tilfelli af alnæmi sem greint var hér á landi greindist í október 1985. Fram til desemberloka 1992 höfðu samtals 25 einstaklingar greinst með alnæmi. Þar af höfðu 12 látist. Að auki höfðu 55 til viðbótar greinst með HIV-smit. Heildarfjöldi smitaðra frá því að skráning hófst er því 80.
    Vandasamt er að meta árangur aðgerða gegn alnæmi vegna eðlis sjúkdómsins og takmarkaðra upplýsinga um útbreiðslu hans. Árið 1988 var reynt að meta hversu margir væru smitaðir hér á landi með hliðsjón af þeim forsendum sem gefnar voru í hliðstæðu mati erlendis. Niðurstaðan varð sú að þá væru smitaðir 200--400. Um síðustu áramót höfðu eins og áður segir greinst hér á landi samtals 80 Íslendingar með HIV-smit. Erfitt er að fullyrða hvort þær aðgerðir sem gripið var til fyrir 10 árum hafa leitt til þess að færri hafi smitast, en líklegt verður að teljast að fræðsla og varnarbarátta hafi skilað verulegum árangri.
    Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin setti á laggirnar árið 1987 sérstakt verkefni og yfirstjórn í baráttunni gegn alnæmi. Komu fulltrúa frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni hingað til lands til að leggja á ráðin með hvernig best yrði hagað baráttunni gegn alnæmi. Samkvæmt ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar til allra aðildarríkja sinna var sett á laggirnar landsnefnd um alnæmisvarnir sumarið 1988 af þáv. heilbr.- og trmrh. Guðmundi Bjarnasyni. Hlutverk nefndarinnar var að samræma aðgerðir gegn alnæmi og stuðla að samvinnu heilbrigðisþjónustunnar og opinberra aðila, þar með talið sveitarstjórna, svo og kirkju, skóla, félagssamtaka og annarra þeirra sem leggja vildu baráttunni gegn alnæmi lið og stuðla þannig að markvissu starfi. Eitt af verkefnum landsnefndarinnar var að gera landsáætlun um aðgerðir gegn alnæmi. Skilaði nefndin tillögu að landsáætlun til heilbrrh. í ágúst 1990 og féllst ráðherra á tillögur nefndarinnar. Var síðan skipuð ný landsnefnd í janúar 1991 til fjögurra ára. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá menntmrn., félmrn., heilbrrn., landlæknisembætti, samtökum áhugafólks um alnæmisvarnir, samtökum heilbrigðisstétta, Samtökunum '78, Rauða krossi Íslands og Biskupsstofu auk þess sem sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum á sæti í nefndinni. Hlutverk nefndarinnar er að hrinda í framkvæmd landsáætlun um almenningsvarnir en þeirri áætlun var á sínum tíma dreift til allra þingmanna. Eitt fyrsta verkefni nefndarinnar var að undirbúa könnun um kynhegðun Íslendinga. Fór sú könnun fram árið 1992. Sendir voru spurningalistar til um 1.500 einstaklinga á aldrinum 16--59 ára sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Voru fyrstu niðurstöður kynntar í nóvember 1992, en unnið er að frekari úrvinnslu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur ekki framkvæmt sérstakt mat á því hvernig til hefur tekist með alnæmisvarnir hér á landi. Ísland sat í stjórn alnæmisverkefnis Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á árunum 1988--1990, enda þótt ekki hafi farið fram formleg úttekt á alnæmisvörnum má ráða af samtölum við forsvarsmenn stofnunarinnar að þeim þyki sem vel hafi til tekist og marka það af því hvað útbreiðsla hefur verið hæg hér

miðað við önnur Vestur-Evrópulönd. Helsta markmið aðgerða gegn alnæmi var frá upphafi skipuleg fræðsla þannig að Íslendingum væri öllum ljóst að alnæmi er lífshættulegur smitandi sjúkdómur og að hægt er að koma í veg fyrir smit þekki maður smitleiðir sjúkdómsins og geri viðeigandi ráðstafanir til að sýkjast ekki né heldur sýkja aðra.
    Sem svar við lið 2 í þessari fsp. vil ég segja að landlæknisembættið og landsnefnd um alnæmisvarnir hafa borið ábyrgð á skipulagningu þeirrar fræðslu sem fram hefur farið og samhæfingu, en fræðslan sjálf fer þó að mestu leyti fram innan skólakerfisins og þá á ábyrgð fræðsluyfirvalda. Í upphafi var leitast við að auka möguleika skóla til að auka fræðslu m.a. með gerð kennsluefnis í góðri samvinnu við fræðsluyfirvöld. Samkvæmt nýlegri könnun Sigríðar Jakobínudóttur, sem gerð var að tilhlutan landlæknisembættisins og með fjárhagslegum stuðningi landsnefndar um alnæmisvarnir, fá 83% nemenda í 9. og 10. bekk fræðslu um alnæmi. Af könnununum má þó ráða að á nokkrum stöðum þurfi að bæta fræðslu til nemenda. Þá hafa heilsugæslustöðvar mjög víða tekið þátt í fræðslustarfi um alnæmi bæði með beinum og óbeinum hætti, víða með því að fara í skóla og annars staðar á fundi hjá félagasamtökum og á vinnustaði. Landsnefnd um alnæmisvarnir hefur starfsmann, hjúkrunarfræðing með sérmenntun, sem hefur sinnt viðamiklu fræðslustarfi ásamt með einstaklingum frá Samtökum áhugafólks um alnæmisvandann. Haldnar hafa verið námstefnur í samvinnu við Rauða kross Íslands og Samtök áhugafólks um alnæmisvandann með erlendrum fyrirlesurum.
    Að lokum sem svar við 3. lið fsp. vil ég segja að vonir standa til að könnun á kynhegðun sem áður hefur verið nefnd gefi tilefni til að endurskoða landsáætlun um alnæmisvarnir bæði hvað varðar áherslur í fræðslu- og upplýsingastarfi og markhópa. Þá er í landsáætluninni gert ráð fyrir að endurmeta þurfi landsáætlunina reglulega þannig að hún nái sem best tilgangi sínum. Samtímis er ljóst að öll umræða um sjúkdóminn er nú mun minni en áður og hætt við að erfiðara reynist að fá fólk til að halda vöku sinni ef þögnin umlykur alnæmi. Það að umræðan hefur minnkað svo mjög er þó ekki séríslenskt fyrirbrigði heldur alþjóðlegt. Samtímis eykst útbreiðsla hratt í heiminum, sérstaklega í Afríku og einnig í Asíu. Þó er ljóst og eftir því tekið hve hraði útbreiðslunnar hefur orðið mun minni á Norðurlöndum en annars staðar. Er líklegt að það megi þakka félagslegum aðstæðum, góðri menntun íbúa og árangursríkum aðgerðum heilbrigðisyfirvalda.