Erlendar fjárfestingar á Íslandi

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 12:00:44 (7628)

     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Árið 1992, árið í fyrra, var fyrsta heila árið á Íslandi eftir að við höfðum sett heildstæð lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi. Lögin sem við höfðum þar til stuðst við voru margvísleg en með hinni nýju lagasetningu á árinu 1991 má segja að þau hafi verið felld í einn ramma jafnframt því sem lögin voru gerð skýrari og felld úr gildi ýmis hamlandi ákvæði gagnvart erlendri fjárfestingu. Það er óhætt að segja að þau lög hafi með ýmsum hætti endurspeglað þann almenna vilja sem fer vaxandi að auka erlent áhættufjármagn í íslenskum atvinnurekstri í því skyni að efla íslenskt atvinnulíf með sem margvíslegustum hætti.
    Um leið og ég segi þetta hlýt ég þó að vekja athygli á því að með þessum lögum var um leið þrengt að möguleikum útlendinga til þess að eiga hlut í íslenskum sjávarútvegi, enda er það svo að jafnvel óbein og mjög fjarlæg eignaraðild útlendinga að íslenskum sjávarútvegi er nú bönnuð eftir gildistöku

þessara laga frá árinu 1991. Í dag eru takmarkanir á fjárfestingu útlendinga hér á landi þessar helstar:
    Í lögunum um fjárfesetingu erlendra aðila eru taldar upp þær takmarkanir sem núna gilda og þær eru: Bann við fjárfestingu í félögum sem stunda útgerð fiskiskipa, fiskvinnslu, orkuvinnslu og orkudreifingu. 49% hámark á eignarhlut erlendra aðila í félagi sem stundar flugrekstur, 25% hámark á eigarhlut erlendra aðila í hlutafélagsbanka, bann við fjárfestingu erlends ríkis eða fyrirtækis í eigu erlends ríkis, 200 millj. kr. hámark á árlegri fjárfestingu í eigu erlends aðila eða fjárhagslega tengdra erlendra aðila og 25% hámark á heildarfjárfestingu erlendra aðila af áætlaðri fjárfestingu í tilteknum atvinnugreinum.
    Hinn 23. febr. sl. mælti hæstv. viðskrh. fyrir breytingu á þessum lögum og það frv. er nú til meðferðar í hv. efh.- og viðskn. Mér er ekki kunnugt um það hvort fyrirhugað er að afgreiða þetta mál á þessu þingi, en vissulega kalla allar aðstæður á nokkrar breytingar nú. Það er löngu ljóst að ýmsar aðrar þjóðir hafa löngum séð sér mikinn hag í því að laða til sín erlendt fjármagn. Auk þess að nýta það fé til þess að styrkja eiginfjárstöðu eigin atvinnulífs, þá hafa þessar þjóðir talið það eftirsóknarvert af ýmsum öðrum ástæðum. Í því sambandi vil ég aðeins nefna aðgang að þekkingu, nýjum hugmyndum og markaðsaðgang sem oft fylgir því að taka upp samstarf við erlend fyrirtæki sem hafa haslað sér völl úti á hinum alþjóðlega markaði. Hér á landi hefur það jafnan verið deilumál og jafnvel feimnismál hversu mikinn hlut útlendingar ættu að eiga í íslensku atvinnulífi. Sem betur fer hefur þetta verið að breytast. Hugarfar hins gamla dalakofasósíalisma hefur smám saman verið að hverfa. Vandi okkar hér innan lands hefur því ekki undanfarin ár stafað af því að andstaðan væri svo mikil hér við þátttöku útlendinga í ýmissi atvinnustarfsemi. Þvert á móti er það svo að vandinn hefur verið sá að útlendingar hafa lítið kært sig um að fjárfesta í íslensku atvinnulífi, því miður, sjálfsagt einkanlega vegna þess að arðsemin er almennt minni en í atvinnulífi erlendis. Engu að síður skiptir það máli fyrir okkur hvernig til hefur tekist í þessum efnum og hvernig okkur mun ganga á þessum sviðum. Því hef ég leyft mér á þskj. 884 að inna hæstv. viðskrh. eftir þessu máli með þremur spurningum:
    1. Hversu mikil var fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi árið 1992?
    2. Hversu mikil var sú fjárfesting í einstökum atvinnugreinum?
    3. Má vænta aukins áhuga útlendinga á því að fjárfesta í íslensku atvinnulífi?