Erlendar fjárfestingar á Íslandi

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 12:08:36 (7631)

     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svör hans sem fyrst og fremst leiða það í ljós að allt það tal, allar þær upphrópanir, allt það gaspur sem hefur verið sett á upp á síðkastið um það að verið sé að gleypa Ísland með einhverjum hætti vegna þess að hér væri verið að opna eitthvað örlítið á erlendar fjárfestingar hér á Íslandi, þær eru sýnilega gersamlega út í loftið. Ég rakti það í upphafi máls míns hér áðan að árið 1992 væri einmitt fyrsta árið þar sem við hefðum í senn heildstæða löggjöf um fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi og í öðru lagi hefði það líka verið fyrsta árið sem við hefðum haft meiri opnun á þessu sviði.
    Hvað segir svar hæstv. viðskrh. okkur? Jú, það segir okkur það að ef við tökum frá framlag Alusuisse til síns fyrirtækis hér á Íslandi og tölum bara almennt um atvinnulífið, þ.e. iðnaðinn og verslunina, þá eru það um 100 millj. ef ég tók rétt eftir í almennum iðnaði og 200 millj. í verslun og hluti af því var hlutafjárframlag sem óvíst var með greiðsluna á. Nú geta menn velt því fyrir sér, stafar Íslendingum hætta af þessu? Stafar Íslendingum einhver efnahagsleg hætta af þessu? Nei, ég held alveg hið gagnstæða. Ég held að niðurstaðan af þessu sé sú að okkur Íslendingum stafar fyrst og fremst efnahagsleg hætta af því ef sú staða er uppi að okkar atvinnulíf sé svo veikburða, okkar atvinnulíf sé þannig að afraksturinn sé svo lítill að útlendingar hafi ekki áhuga á því að fjárfesta hér. Það eru auðvitað mjög þýðingarmikil rök sem hníga að því fyrir íslenskt atvinnulíf að fá hingað erlent fjármagn, bæði til þess að styrkja atvinnustarfsemina efnahagslega og einnig hitt að hingað komi nýjar hugmyndir, hingað komi aðgangur að erlendum mörkuðum í gegnum þetta eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson var auðvitað að víkja að í máli sínu áðan og hann var einmitt á árum áður frumkvöðull í því að vekja athygli á nauðsyn þess að við tengdum okkur erlendum aðilum með þessum hætti og hafi hann þökk fyrir það.