Fjárfesting Íslendinga erlendis

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 12:11:05 (7632)

     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Þótt íslenskt atvinnulíf hafi búið við afar kröpp kjör síðustu árin og alveg sérstaklega núna þá hefur það vakið athygli mína og margra fleiri hversu mikill stórhugur hefur þrátt fyrir allt verið í atvinnulífinu. Í þessu sambandi er af mjög mörgu að taka. Útflutningur á íslensku hugviti og þekkingu á sér nú þegar stað í margvíslegum mæli eins og kunnugt er en hitt er líka byrjað að íslensk fyrirtæki hafi fjárfest erlendis í fyrirtækjarekstri, sérstaklega á sviðum þar sem Íslendingar hafa öðlast sérþekkingu. Mér detta í hug af handahófi eftirtalin dæmi: Grandi hf. í Reykjavík hefur nú keypt sig inn í sjávarútvegsfyrirtæki í Chile. Útgerðarfélag Akureyringa hf. hefur eignast meiri hluta í stóru útgerðarfyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtæki í Rostock í hinu gamla Austur-Þýskalandi. Nýsir og Skagstrendingur hf. hyggja á þátttöku í sjávarútvegi í Namibíu og það nýjasta er að fyrirtækið Þormóður rammi íhugar nú afar spennandi þátttöku í sameiginlegu sjávarútvegsfyrirtæki á Indlandi ásamt þarlendum aðilum. Síðast ber auðvitað að sjálfsögðu að nefna góða för sem hæstv. sjútvrh. gerði til Mexíkó á þessu ári eða því síðasta þar sem lögð voru drögin líka að nánar samstarfi Íslendinga og Mexíkómanna á þessu sviði.
    Sannleikurinn er auðvitað sá að víða úti í hinum stóra heimi, ekki síst í löndum þriðja heimsins, þar sem annars ríkir skortur, hafa menn gnótt þess sem okkur skortir hér í hinum vestræna heimi. Þar á ég við hlut eins og auðlindir til lands og sjávar sem ekki er hægt að nýta vegna þess að tækniþekkinguna og verkfærin skortir. Þar geta þjóðir eins og okkar komið til skjalanna. Þetta sjá líka aðrar þjóðir sem nú eru í óða önn að taka upp tvíhliða samstarf við ríki þessi á margvíslegu sviði. Dæmi um þetta get ég nefnt frá Indlandi þar sem hugsanlega getur tekist samstarf með Íslendingum og Indverjum. Þar hefur það gerst á einungis einu ári að 20 aðilar hafa sett á fót sameiginlegt fyrirtæki með Indverjum til þess að nýta hin gjöfulu mið við strendur landsins en það er talið allt að 1,9 millj. smálesta af fiski, sem nú er vannýttur, megi nýta við strendur landsins.
    Það sem okkur er auðvitað fjötur um fót í þessu sambandi er tvennt: Smæð fyrirtækjanna og það hversu þau eru almennt fjárhagslega veikburða. Þess vegna kann það að virðast fjarlægt að hyggja nú að þessum efnum og mér er það að sjálfsögðu ljóst að fjárfesting af þessu tagi getur aldrei orðið annað en skynsamleg en lítilleg viðbót við okkar almenna innlenda efnahagslíf. Þá letur það að sjálfsögðu íslenska stjórnendur sem hafa fangið svo fullt af daglegum vandamálum að vita af því að tíminn sem þeir verja til undirbúnings og þátttöku í atvinnulífi erlendis tekur athyglina frá því sem þeir eru að gera hér heima og það eru því miður ekki margir framkvæmdastjórarnir eða athafnamennirnir sem í dag geta leyft sér slíkt.
    Einmitt um þessar mundir eru að aukast möguleikar í þessum efnum með meiri opnun, bæði hér í okkar innlendu löggjöf eins og ég rakti raunar áðan fyrr í umræðu, en einnig með því að aðrar þjóðir eru

á sömu braut hvað þetta snertir. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Seðlabanki Íslands gefur var heildarfjárfesting innlendra aðila erlendis á árinu 1991 237 millj. kr. en þar af voru 142 millj. vegna fasteignakaupa. Ég hef því talið ástæðu til að spyrja hæstv. viðskrh. á þskj. 885 eftirtalinna spurninga:
  ,,1. Hversu mikil var fjárfesting innlendra aðila erlendis á árinu 1992?
    2. Í hverju fólst sú fjárfesting?
    3. Hversu mikill hluti fjárfestingarinnar kom frá
    a. atvinnufyrirtækjum,
    b. fjármálastofnunum, þar með töldum lífeyrissjóðum,
    c. einstaklingum?
    4. Má vænta aukinnar fjárfestingar Íslendinga erlendis? Og ef svo er, á hvaða sviðum helst?``