Fjárfesting Íslendinga erlendis

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 12:14:47 (7633)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Íslenskir aðilar fjárfestu erlendis á árinu 1992 fyrir 541 millj. kr. reiknað á meðalsölugengi ársins. Þessi fjárfesting fólst í fasteignakaupum, fjárfestingu í atvinnurekstri og kaupum á erlendum markaðsverðbréfum. Þessi fjárfesting sundurliðast þannig að frá atvinnufyrirtækjum komu 206 millj. kr., frá fjármálastofnunum að meðtöldum lífeyrissjóðum 146 millj. kr., en frá einstaklingum 189 millj. kr.
    Að því er varðar fjármálastofnanir er það að segja að inni í þeirri tölu eru öll verðbréfakaup verðbréfafyrirtækja þótt þau séu gerð fyrir hönd einstaklinga vegna þess að sú krafa er gerð samkvæmt gildandi reglum að innlend verðbréfafyrirtæki hafi milligöngu um öll verðbréfakaup innlendra aðila erlendis. Og að því er varðar einstaklinga, 189 millj. kr., þá má til viðbótar þessari fjárhæð rekja einhvern hluta af fjárfestingum erlendis í verðbréfum sem er innifalið í tölunni 206 millj. kr. í gegnum verðbréfafyrirtæki.
    Í fjórða lagi spurði hv. þm.: Má vænta aukinnar fjárfestingar Íslendinga erlendis? Og ef svo er, á hvaða sviðum helst?
    Svarið við því hlýtur að vera almennt já, það má vænta aukningar í erlendum fjárfestingum Íslendinga. Reynsla annarra þjóða sýnir að þegar afnumin eru höft á fjárfestingum, einkum verðbréfakaupum, þá leiðir það til aukinna fjárfestinga. Það kemur einkum tvennt til. Í fyrsta lagi sjá einstaklingar en þó einkum stórir fjárfestar eins og lífeyrissjóðir og verðbréfasjóðir aukna möguleika í að dreifa áhættu með því að eignast fjölbreyttara safn verðbréfa en þeim gefst kostur á í heimalandi sínu. Í annað stað gefst tækifæri til að fjárfesta í áhættusömum en þá að sama skapi arðbærum atvinnugreinum sem ekki eru til staðar í heimalandi. Þess er að vænta að sama gerist hér á landi og ýmsir lífeyrissjóðir hafa t.d. þegar hafið undirbúning að því að kaupa erlend verðbréf í einhverjum mæli.
    Með þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu opnast nýir möguleikar til að fullvinna sjávarafurðir hér á landi. Það kann að leiða til þess að Íslendingar telji sér hagkvæmt að kaupa hlut í erlendum flutninga-, dreifingar- eða markaðsfyrirtækjum eða standa sjálfir að stofnun slíkra fyrirtækja.
    Loks má nefna að víða um heim eru tækifæri fyrir Íslendinga til að selja þekkingu á sviði fiskveiða og fiskvinnslu og stunda atvinnurekstur í sjávarútvegi eins og fyrirspyrjandi sjálfur, hv. þm., vék að. En til að ná verulegum árangri á þessum sviðum verða Íslendingar að vera reiðubúnir að leggja fram eigið fé í fyrirtæki í þessum löndum með einum eða öðrum hætti eins og dæmi eru nú þegar um í Chile, Þýskalandi og eins og er í undirbúningi t.d. í Namibíu og Kamtsjatka, Indlandi og víðar. Reyndar er það svo að óskir um samstarf á sviði sjávarútvegs frá öðrum þjóðum nema nú þegar milli 10 og 20, þ.e. óskir hafa borist frá 10 til 20 þjóðum um að stofna til slíks samstarfs.
    Það er næsta víst að í ríkjum Austur-Evrópu, í Eystrasaltsríkjunum og í Rússlandi og víðar leynast tækifæri af ýmsum toga bæði í sjávarútvegi og öðrum atvinnugreinum.