Samstarf við Sambandslýðveldið Rússland

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 12:33:02 (7639)

     Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason) :
    Virðulegi forseti. Í efnahagslífi okkar eða atvinnulífi sem ég a.m.k. lít á sem eitt og það sama, gætir þess mjög að okkur skortir verkefni. Það er augljóst í sjávarútvegi og það er einnig augljóst að í öðrum greinum skortir okkur verkefni í útflutningi. Sumar útflutningsvörur okkar sæta harðnandi samkeppni. Við eigum jafnvel von á harðnandi samkeppni hér á heimamarkaði við okkar innlendu vörur frá innflutningi annarra þjóða. Á þessum tíma tel ég mjög mikilvægt fyrir okkur að við tökum þátt í því sem sumir kalla heimsverslun af meiri þrótti en áður. Sterkasta atvinnugrein okkar er sjávarútvegur. Þar hafa okkar menn vakið athygli fyrir þekkingu tækni og árangur í starfseminni þó að þeir eigi í erfiðleikum hér heima fyrir en þó einkum vegna minnkandi afla á heimamiðum.
    Á það hefur oft verið bent að við eins og aðrar þjóðir þurfum að beina hug okkar og þrótti að verkefnum í öðrum löndum á mörkuðum annarra landa. Einn sá stærsti á þessu sviði er innan Rússlands, hvort sem við köllum það sambandslýðveldi eða einfaldlega Rússland. Þar býr þjóð sem á miklar auðlindir, á mikla möguleika og við Íslendingar erum á meðal þeirra sem getum náð í veruleg verkefni, veruleg viðskipti, með samstarfi við þá um nýtingu þeirra auðlinda um þróun varnings og markaðssetningu afurða. Því spyr ég sjútvrh.:
    ,,Hyggst ráðherrann beita sér fyrir því að koma á samstarfi við Sambandslýðveldið Rússland í sjávarútvegi er leitt geti til langtímaviðskipta milli landanna um
    a. hráefni til fiskvinnslu og matvælaiðnaðar, markaðssetningu og sölu afurða,
    b. sölu þekkingar og tækni sem nýtist við stjórn fiskveiða, vinnslu og vöruþróun,
    c. sölu tækjabúnaðar, veiðarfæra og fiskiskipa,
    d. skipasmíðar, endurbætur og viðgerðir og
    e. greiðslu fyrir vörur og þjónustu með hráefnum?``