Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 14:05:03 (7649)

     Frsm. meiri hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er vegna þeirra athugasemda sem hv. 5. þm. Vestf. kom með hér út af frv. um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks. Það er rétt sem fram kom hjá honum að þetta frv. er fyrst og fremst lögfesting á reglugerð 1612 og félmn. fór í það að aðlaga reglugerðina og breyta ákvæðum hennar þannig að við værum ekki að lögfesta ákvæði í reglugerð sem ekki ættu við hér og var frekar vel að því máli staðið vona ég og ánægjuleg samvinna sem var í félmn. um vinnuna í þessu máli. Hann spyr um það hvort breyta eigi 16. gr. reglugerðar og 20. gr. út frá þeim ákvæðum sem hann benti á. Ég get því miður ekki svarað því máli hér og nú, ég mun kanna það og ef það reynist rétt sem hann bendir hér á þá mun ég að sjálfsögðu taka málið fyrir á milli 2. og 3. umr.
    Það er nú svo að þegar við vorum að fá þessi mál og það er rétt sem hann segir, það er mjög erfitt þegar verður svona hlé í umræðunni, það er nokkuð um liðið síðan við vorum með málið eftir að það var afgreitt úr nefnd og ef breytingar hafa orðið á í millitíðinni þá er alveg sjálfsagt að við skoðum það. En það var reglugerð sem átti að lögfesta og við fórum í það að aðlaga hana sem best við gátum og ég mun að sjálfsögðu skoða það ef þessu þarf á einhvern hátt að breyta.
    Aðeins varðandi forgangsréttarákvæði sem þingmaðurinn nefndi. Það er alveg rétt það er erfitt að segja til um það en það verður þó að áréttast hér að aðilar vinnumarkaðarins sem komu á fund nefndarinnar töldu að þessi atriði mundu halda.