Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 14:27:13 (7654)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Íslendingar hafa í ríkum mæli sótt menntun sína erlendis og munu í vaxandi mæli sækja menntun sína til Ameríku. Ég hygg að ekki sé um það deilt að þjóð sem sækir menntun sína til jafnmargra landa og Íslendingar þarf að hafa mikið rými í lagasetningu sinni til þess að viðurkenna menntun frá hinum ýmsu löndum. Hitt er svo annað mál að það sem er hér til umræðu fjallar um miklu stærri hluti. Það er hluti af því frelsi að útlendingar hafi atvinnuréttindi hér á landi í mjög ríkum mæli, 360 millj. samfélag, og á móti eigum við að fá atvinnuréttindi á því svæði.
    Ég var fjarverandi afgreiðslu þessa máls og því kemur ekki fram á nál. hver afstaða mín er en ekki fer á milli mála að í þessu máli er álit mitt í samræmi við það sem kemur fram hjá Kristínu Ástgeirsdóttur og Svavari Gestssyni. Ég tel að hin þrönga heimsmynd sem menn hafa verið að miða við í þessu sambandi þegar fjallað er um viðurkenningu á starfsréttindum og þó fyrst og fremst menntun sé algerlega út í hött. Auðvitað væri það skoplegt ef hingað kæmi maður frá Ameríku með sams konar menntun og Íslendingur hefði aflað sér og fengið viðurkennda hér á landi ef við ekki viðurkenndum slík réttindi. Það er heldur ekki, þegar horft er til Evrópu, hægt að binda það við menntun í löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins frekar en öðrum löndum. Viðurkenningin á menntuninni á að vera miklu miklu víðtækari. Hitt er svo allt annað mál hvort við gætum viðurkennt að viðkomandi aðilar eigi að hafa hér rétt til að starfa. Það hlýtur að verða að fara eftir atvinnuástandi í landinu. Og atvinnuástandið á Íslandi er nú ekki svo beisið að það sé mikið fyrir það gefandi að rýmka þessar heimildir. Samt er atvinnuástandið á Íslandi miklu betra en það er um alla Evrópu eða allt það svæði sem hér er verið að taka um að tengjast. Þannig að það er að fara úr öskunni í eldinn hvað atvinnuleysi snertir að sameinast þessu svæði í því tilliti sem hér er lagt til.
    Það kom einnig fram að í upphafi þegar þetta mál var rætt að þær reglugerðarheimildir sem hér eru ætlaðar eru að mínu viti mjög rúmar og ég er ekki hrifinn af því kerfi sem Evrópa er að byggja upp, þ.e. minnkandi áhrifa sem þingin hafa en vaxandi vægi framkvæmdarvaldsins með reglugerðum.