Umhverfisgjald

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 14:51:42 (7657)

     Flm. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Frú forseti. Mér er ljúft að svara því. Aðalatriðið er ekki hvað það heitir sem ég er að tala um hvort það heitir umhverfisgjald eða umhverfisskattar. Ég kaus að kalla þetta umhverfisgjald vegna þess að einmitt það sem ég lagði áherslu á í lok ræðu minnar er að þetta gjald sem þarna er lagt til á eingöngu að nota í þágu umhverfismála. Þarna er ekki um neinn almennan skatt að ræða í þeim skilningi þess orðs sem oftast er notað, þ.e. að það sé til almennra nota heldur eingöngu að það er verið að nota þetta gjald í þágu umhverfismála til að draga úr mengun og bæta umhverfið. Þar af leiðandi lít ég á þetta sem tvennt aðskilið en hins vegar er það ekki aðalatriði hvað það heitir. Fyrir mér væri það ekki neitt sérstakt mál ef fólk vill kalla þetta umhverfisskatta en mér þykir það verra að mörgu leyti vegna þess að ég er ekki að tala um almenna skattheimtu, þ.e. að það fari í almenna notkun í þjóðfélaginu heldur eingöngu til þessara mála. Þess vegna kaus ég frekar að kalla þetta umhverfisgjald.