Umhverfisgjald

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 14:54:40 (7659)

     Flm. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég er ekki alveg sammála hv. þm. um að það megi líta á þetta eins og hvern annan markaðan tekjustofn. Það má vel vera að það sé flokkað í einhverjum reikningum þannig en það verður þá bara að hafa það. Það verður þá bara að hafa það ef þetta verður samþykkt og það kemur tillaga fyrir Alþingi í þessa veru þá verð ég auðvitað að sætta mig við það ef það heitir þá skattur. En ég vil líta á að þetta geti ekki flokkast undir það á þann hefðbundna hátt og ég vil enn þá frekar leggja áherslu á að það verði kallað umhverfisgjald eftir að hv. þm. minnir mig á að bensíngjald og fleira sem hefur verið notað í annað heldur en því var ætlað upphaflega og þá held ég að við ættum einmitt að sameinast um að líta á þetta sem sérstakt mál sem eðli málsins samkvæmt á helst að vera þannig og það er okkar keppikefli að við fáum ekkert inn að lokum af þessum gjöldum sem þarna eru. Þess vegna vil ég ekki líta á þetta sem skatt heldur sem gjald sem væri lagt á og vonandi tímabundið.