Umhverfisgjald

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 15:18:37 (7667)


     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Frú forseti. Ég held ég hafi alls ekki misskilið tillöguna, ég held hins vegar að hv. 4. þm. Austurl. hafi misskilið mig þar sem ég var að hafa áhyggjur af því að ekki væri nægjanlegur sveigjanleiki þegar um markaðan tekjustofn væri að ræða. Þá er ég kannski ekki fyrst og fremst að tala um ríkissjóð heldur ekki síður um þá aðila sem ættu að greiða gjöldin og geta orðið fyrir skakkaföllum vegna mismunandi aðstæðna bæði í náttúrunni, samanber okkar eigin fiskveiðar og aðra utanaðkomandi þætti er varða efnahagslífið.
    Hv. þm. nefndi einnig að skýrsla ríkisstjórnarinnar um stefnu í umhverfismálum hefði verið unnin í kyrrþey eða felum. Ég held að þetta sé allsendis rangt hjá honum. Það var alls enginn feluleikur í sambandi við vinnuna að þessari skýrslu. Það var leitað til allra ráðuneytanna í sambandi við þessa vinnslu og alls ekki ætlunin að vera með neinn feluleik þótt hugsanlega geti verið að hún hafi farið fram hjá einhverjum. En það er ekki við þá að sakast sem að starfinu stóðu heldur frekar þá hina sem ekki fylgdust nægjanlega vel með. Ég vil hins vegar geta þess að þessi skýrsla er einungis fyrsta skrefið í mun viðameira starfi sem mun halda áfram á vegum umhvrn. og ríkisstjórnarinnar.