Umhverfisgjald

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 15:21:05 (7668)

     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Ég vil þakka þeim tveim þingmönnum, sem hafa tekið þátt í þessari umræðu, fyrir góðar undirtektir og kom mér það raunar ekkert á óvart að þeir tækju vel undir þetta mál. Hér hefur verið minnst á umhverfisskatta og hafði ég hugsað mér að gera það í minni fyrri ræðu en komst ekki að með allt sem ég hefði gjarnan viljað sagt hafa. Hér hefur verið minnst á tillögu til þál. um umhverfisskatta sem flutt er af fjórum hv. þm. Sjálfstfl. og er 1. flm. hv. þm. Árni M. Mathiesen sem hér hefur tekið þátt í þessari umræðu. Meginmunurinn á þessari tillögu sem hér er til umræðu og þeirri tillögu er að það er talað um að umhverfisskattar geti komið í stað núverandi skatta, svo sem tekjuskatta, eignarskatta, útsvars og aðstöðugjalds, þannig að það er raunverulega önnur hugsun á bak við. Það er kannski þar sem er aðalmunurinn. Ég var ekki sátt við þá framsetningu af því að ég tel ekki að umhverfisskattar geti komið í stað núgildandi skatta. Það er einmitt miklu betra fyrir ríkissjóð að hafa þetta þannig gjald að því sé eingöngu varið til umhverfismála því þá er það algjörlega fyrir utan þann pott sem þar er og þarf ekkert að taka tillit til þess sérstaklega þegar verið er að tala um tekjuöflun ríkissjóðs eins og var raunverulega það sem hv. þm. hafði áhyggjur af áðan. Það er kannski atriði sem ekki þarf að vera að velta allt of mikið fyrir sér á þessari stundu en það er það sem ég vildi helst setja út á þá tillögu sem hér var flutt en ég var ekki til staðar á þinginu þegar talað var fyrir henni þannig að ég gat ekki tekið þátt í þeirri umræðu á þeim tíma.
    Hv. 4. þm. Austurl. talaði um að það þyrfti gjörbreytta efnahagsstefnu til þess að forða heiminum frá því sem stefnir í, þ.e. gjöreyðingu, ef áfram heldur sem horfir að því er varðar umhverfismálin og ég er honum algjörlega sammála. Vil ég í því sambandi minna á að á 112. löggjafarþingi samþykkti Alþingi tillögu til þál. um að taka á þessum málum, þ.e. að taka útreikninga að því er varðar hagstærðir, þ.e. aðferðir við útreikninga á þjóðhagsstærðum, til endurskoðunar, þar sem tekið sé tillit til áhrifa á umhverfi og náttúrulegar auðlindir. Í því sambandi birtist hjá Þjóðhagsstofnun í heftinu ,,Þjóðarbúskapurinn`` í apríl 1991 greinargerð um umhverfið og efnahagslífið sem er ágætis greinargerð sem er fyrsta kynning á því hvernig taka mætti á slíkum málum og það kom fram á fyrri fundi þessa dags að ríkisstjórnin er að vinna að þessum málum enn frekar og er það auðvitað mjög gott. En það er ekki nóg að vera með nefndir og hugmyndir um hvernig væri hægt að gera hlutina, það verður auðvitað að framkvæma. Ég bendi aðeins á þessa greinargerð en þar kemur fram hvernig hægt er að beita þessum hagrænu aðferðum, eins og það er kallað, í umhverfismálum. Þar bendir Þjóðhagsstofnun á að hægt er að setja ýmiss konar gjald á, það er hægt að setja á útstreymisgjald sem ég hef gert mest að umtalsefni, síðan er hægt að setja gjald á sorp og mengun vatns og allt mögulegt. Meira að segja hefur í einhverjum mæli verið, að því er þeir fullyrða, sett gjald á hávaðamengun hvernig svo sem það er gert. Síðan er auðvitað hægt að taka upp skilagjald eins og hefur verið notað aðeins hér á landi og síðan benda þeir á hugmynd sem ég hafði aldrei heyrt áður og það er að gefa út svokölluð mengunarleyfi. Mér datt í hug að minnast þess sérstaklega vegna þess að hv. 3. þm. Reykn. talaði um að beita hinum frjálsa markaði í þessum málum. Ég átta mig ekki alveg á hvernig hann hugsaði það því hinn frjálsi markaður hefur yfirleitt ekki verið ginnkeyptur fyrir því að taka umhverfismálin inn í hinar hagrænu stærðir, eins og hv. þm. var að tala um og ég er sammála honum um það. En mig langar að fá að lesa þennan kafla úr þessari skýrslu Þjóðhagsstofnunar en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Á síðustu árum hafa verið búnir til markaðir fyrir nokkurs konar mengunarleyfi. Í upphafi ákveða stjórnvöld hve mikil mengun má vera á ákveðnu svæði, síðan úthluta þau mengunarleyfum. Úthlutun getur farið fram á ýmsan hátt, t.d. með sölu. Eftir að úthlutun hefur farið fram þá mega fyrirtækin versla með

mengunarleyfi eftir fyrirframsettum reglum. Með þessu næst að markaðurinn er látinn mynda verð á mengun og mengunarmarki er náð á sem hagkvæmastan hátt. Þau fyrirtæki sem menga lítið geta selt öðrum hluta af sínum leyfum og þannig er hvati fyrir þau að þróa nýjar framleiðsluaðferðir til að minnka mengun. Nauðsynlegt er að fyrirtæki séu nægilega mörg til að heilbrigður markaður geti myndast enda hefur þessi aðferð einkum verið reynd í Bandaríkjunum.``
    Kemur ekki einhverjum í hug sala fiskveiðikvóta þegar þetta er lesið, að þetta sé samsvarandi, af því að hér er annað höfuðið á tvíhöfða nefndinni mætt og þá datt mér í hug að þetta gæti kannski á einhvern hátt verið sams konar útfærsla og þar er verið að leggja til og reyndar er notuð núna sem einmitt hlýtur mikla gagnrýni.
    Mér datt þetta eingöngu í hug vegna þess sem hv. 3. þm. Reykn. sagði áðan og velti fyrir mér hvort það væri þetta sem hann væri að meina af því að ég skildi það ekki sjálf hvernig markaðurinn átti að stjórna þessu.
    Ég veit að ég er alls ekki sú fyrsta enda hefur það komið fram mörgum sinnum áður og það er ekki fyrst í vetur heldur fyrir mörgum árum síðan sem hefur verið talað um umhverfisskatta og umhverfisgjald. Það eru mörg mörg ár síðan þetta kom fyrst fram. Það er búið að vera á stefnuskrá Kvennalistans lengi og það var minnst á þetta í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar, ef ég man rétt, þannig að ég er alls ekki að halda því fram að ég sé að koma með eitthvað sem enginn hefur talað um áður. Aðalatriðið er að eitthvað sé gert í málinu og það er það sem verið er að gera með því að ýta á þetta mál. Þess vegna er ég ánægð með það að hv. þm., og ég reikna með báðir þingmenn sem hér töluðu, en hv. 3. þm. Reykn. tók sérstaklega fram að hann hlakkaði til að vinna að þessu máli í nefnd og það geri ég auðvitað líka. En því miður er lítill tími eftir af þessu þingi þannig að ekki vitum við hversu mikinn tíma við getum notað núna. Aðalatriðið er að umhvrn. vinni að þessum málum eins og mér heyrist að sé verið að gera að einhverju leyti.
    Hér fóru aðeins fram orðaskipti áðan milli manna um það hvort EES væri e.t.v. einhver hindrun í vegi að leggja á svona skatt. Ég veit að það eru einhverjir erfiðleikar því samfara og ég veit að Svíar hafa lent í vandræðum út af þessu. Í Sænska dagblaðinu frá því í febrúar 1993 er rætt um útstreymi koldíoxíðs og kröfur EB í því sambandi. Það eru miklu lægri mörk um CO 2 -útstreymi í Svíþjóð og mörgum EFTA-löndum en t.d. í EB. Þau mega eingöngu hafa þessa kröfu til 1995, þá eru þau skyldug að flytja inn bíla frá Evrópubandalagslöndum þó að þeir séu ekki með þær kröfur sem þau hafa sett varðandi þessi mál. Þetta er það sem ég veit að er vandamál, en hvort það gildir um gjöld eða skatta á þetta er mér ekki alveg kunnugt en eins og þingmaðurinn veit eru skattar, alla vega ekki enn sem komið er, samræmdir í Evrópubandalagslöndunum þó að það séu margir sem stefna að því að svo verði og það gildir væntanlega ekki á hinu Evrópska efnahagssvæði. Vandamálið er að ef sett eru há gjöld á t.d. vörur frá þessum löndum, ef þau fullnægja ekki t.d. útstreymisgildum sem gilda í Svíþjóð, þá er hætta á því að það verði túlkað sem viðskiptahindrun. Það er það sem er málið þó að það sé auðvitað ekki ljóst enn þá hvernig það mundi fara t.d. fyrir Evrópudómstólnum.
    Eins og ég minntist aðeins á áðan, þá er mikil óánægja með þessi mál, sérstaklega í Danmörku. Danir hafa strangar kröfur varðandi t.d. CO 2 -útstreymi. Þeir hafa verið mjög óánægðir með undirtektir annarra EB-landa um þeirra kröfur varðandi þessi mál. En Danir hafa samt verulegar áhyggjur af því og það lítur út fyrir það t.d. að þó að þeir hafi, getum við sagt, þetta metnaðarfullt mark að árið 2000 verði útstreymið ekki meira en árið 1990, þá lítur út fyrir núna að aukningin innan EB-landanna verði eftir sem áður 4% á CO 2 útstreymi þrátt fyrir það að þeir hafi haft vonir til þess að minnka það aftur. Það er þess vegna sem vert er að hafa áhyggjur af þessum málum því að það er ekki nóg að setja sér markmið og koma með falleg orð á blaði. Það verður að gera eitthvað. Við Íslendingar höfum auðvitað skyldur í þessum efnum, ekki bara gagnvart okkur hér á Íslandi því að mengun virðir engin landamæri og við verðum að taka okkar skerf af því að reyna að minnka mengun í heiminum í heild.