Evrópskt efnahagssvæði

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 16:35:16 (7675)

     Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Ég tek undir með hv. formanni utanrmn. frsm. meiri hlutans, að það er ekki ástæða til að hafa langt mál um það frv. sem hér liggur fyrir út af fyrir sig. Það er rétt að hér er um tæknilegar breytingar á þeim lögum sem samþykkt voru í janúar um þátttöku Íslendinga í hinu Evrópska efnahagssvæði að ræða. Þó eru það líka efnisbreytingar og þó einkum aukið framlag okkar í þróunarsjóð hins Evrópska efnahagssvæðis. Þetta er þó mikilvægt frv. að sjálfsögðu því að það markar lok afskipta Alþingis af þessu máli má segja um sinn. Þó að vitanlega eftir að komi fyrir mörg mál sem tengjast hinu Evrópska efnahagssvæði, þá gera menn ráð fyrir því að samningurinn sé með þessu kominn í endanlegt form. Út af fyrir sig get ég tekið undir að það er öllu skárra að hafa samninginn réttan heldur en rangan eins og hann er nú eða lögin.
    Afstaða okkar í 1. minni hlutanum er sú sama sem var við afgreiðslu málsins í janúar. Við teljum að þessi samningur standist ekki hina íslensku stjórnarskrá og reyndar sýnist mér að stöðugt fleiri rök hnígi að því að það framsal á valdi sem gert er ráð fyrir fái ekki staðist og athyglisvert er að kynnast þeirri umræðu sem varð í Noregi um það mál þar sem mjög greinilega kom fram svipuð afstaða og talið var óhjákvæmilegt að afgreiða samninginn með tilvísun til þess ákvæðis í norsku stjórnarskránni sem heimilar afsal valds. Einnig hefur komið mjög athyglisverð grein í tímariti lögfræðinema þar sem þetta er ítarlega rakið og komist að sömu niðurstöðu.
    En það er líka fleira sem komið hefur fram sem vissulega vekur menn til umhugsunar um þetta mál allt og þá vil ég ekki síst nefna þau mistök, ótrúlegu mistök sem hafa orðið að því er virðist í meðferð landbúnaðarmála sem tengjast þessum samningi, þ.e. um framkvæmd á bókun 3. Ég vek athygli á því að í áliti meiri hluta utanrmn. með frv. í janúar sl. var skýrt tekið fram að nefndin hefði verið fullvissuð um það af viðkomandi ráðuneytum að sú framkvæmd væri fullkomlega í lagi og okkur Íslendingum væri heimilt að leggja á jöfnunargjald. Það má einnig vísa til þess sem hæstv. utanrrh. sagði þegar þetta mál bar á góma fyrr í umræðunni um hið Evrópska efnahagssvæði. Þá sagðist hann líta svo á að eins og undanþága Íslands er orðuð, þá væri okkur í raun heimilt að leggja á óendanlega hátt jöfnunargjald á þann innflutning sem hafði verið bannaður áður hingað til lands og hann líkti saman banni við óendanlega háa tolla. Og ég er út af fyrir sig að ýmsu leyti sammála hæstv. utanrrh. um það en nú virðist þetta ekki hafa staðist og því miður hafa vinir hæstv. ráðherra í Brussel ekki tekið þetta gott og gilt og hafa hafnað þessu. Komið hefur fram að það er alls ekki enn þá frá því gengið að við Íslendingar fáum eins og aðrar þjóðir að leggja á það jöfnunargjald sem okkur er nauðsynlegt ef hér á ekki að verða um meiri háttar slys að ræða. Á fundi utanrmn. komu fram hugmyndir um lagfæringar á þessu, en þær hafa ekki fengist samþykktar og næsti fundur um landbúnaðarmálin í Brussel er ef ég man rétt 4. maí. Af þeirri ástæðu einni saman í raun væri ástæða til að bíða með þetta mál og ég hef lýst þeirri skoðun í hv. utanrmn. að það kunni að vera mistök að afgreiða þetta mál nú. Þetta gæti verið einhvers konar --- hvað eigum við að segja --- kefli sem við hefðum á Evrópubandalagið að við vildum fá landbúnaðarmálin í höfn áður en við gengjum endanlega frá samningi um hið Evrópska efnahagssvæði. En meiri hlutinn féllst ekki á það og vill afgreiða málið nú.
    Auk þess má vekja athygli á því að það er afar mikil óvissa um atriði EES-samningsins hjá Evrópubandalaginu sjálfu og hæstv. utanrrh. hefur sagt ýmislegt um það, ekki síst í 1. umr. um tillögu um tvíhliða samning. Þar lýsti hann jafnvel því að samningurinn yrði aldrei að veruleika, yrði aldrei staðfestur og vísar þá til þess að ef Maastricht-samkomulagið yrði ekki staðfest í Danmörku og Englandi, þá mundi verða veruleg andstaða gegn þessum samningi. Enn er þar ástæða til þess fyrir okkur Íslendinga að bíða með frekari aðgerðir í þessu máli og sjá til hvort Maastricht-samkomulagið verður staðfest. Það verður lagt fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu í Danmörku nú mjög innan skamms og þá kæmi það í ljós.
    Það mætti jafnvel benda á það að sjávarútvegssamningurinn, sem lá svo óskaplega mikið á að staðfesta, hefur ekki verið staðfestur enn af hálfu Evrópubandalagsins og ég hlýt að lýsa þeirri von að það dragist því að það er náttúrlega augljóst að við hefðum engan hag haft af þeim samningi á þeirri loðnuvertíð sem er lokið því að það náðist ekki að ná þeim afla öllum sem til boða var ( GAK: Kannski ekki á næstu heldur.) og kannski ekki á næstu heldur. Nei, það er ekki ólíklegt. Þá hljótum við allir að sameinast um það að það væri afar óeðlilegt að togarar Evrópubandalagsins færu að veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu nú á þessu ári.
    Ég held að það sé líka óhætt að vekja athygli á því að efnahagslegur bati eða ávinningur af þessum samningi fer í raun stöðugt minnkandi. Sannarlega viðurkenni ég að hann er nokkur í sjávarútvegi en a.m.k. á þessu ári verður hann lítill sem enginn þar og óvissa er svo mikil í efnahagsmálum Evrópubandalagsins að ástæða væri til að bíða.
    Af þessari ástæðu höfum við gert ráð fyrir því að það kæmi fram tillaga um það að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar og það biði þar þar til slík mál hafi verið upplýst. Ég

sé nú að vísu að henni hefur ekki verið dreift. Það er tilvísun í þá tillögu í nál. okkar og ég hef verið fullvissaður um það að tillaga um frávísun til ríkisstjórnarinnar er á næsta leiti. Við lýsum því hér yfir, flm. þessa minnihlutaálits að við munum styðja þá frávísunartillögu eða tillögu um vísun til ríkisstjórnarinnar.