Evrópskt efnahagssvæði

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 17:42:54 (7677)

     Frsm. 3. minni hluta utanrmn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 1055 er að finna nál. frá 3. minni hluta utanrmn. um frv. til laga. um breytingar á lögum um Evrópskt efnahagssvæði. 3. minni hluta utanrmn. myndar sú sem hér stendur og skrifar hún undir nál. Nál. er svohljóðandi:
    ,,Þegar frumvarp til laga um staðfestingu á EES-samningnum var afgreitt á Alþingi

í janúar sl. lá fyrir að Sviss yrði ekki aðili að samningnum. Það var því fyrirséð að málinu væri ekki lokið og að á yfirstandandi þingi þyrfti að breyta lögunum til samræmis við veruleikann. Sú breyting er nú gerð með þessu frumvarpi og þó að fyrst og fremst sé um tæknilegar breytingar á samningnum að ræða má segja að frumvarpið marki engu að síður lokaafgreiðslu EES-málsins af hálfu Alþingis.
    Þau rök og þær forsendur, sem lágu til grundvallar umræðunni í janúar sl., eiga því enn við og sú afstaða, sem þingmenn tóku, stendur óhögguð. Á sömu forsendum og þá telur 3. minni hluti að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir verði að bera hina pólitísku ábyrgð á þeirri samningsniðurstöðu sem fyrir liggur og meðferð málsins gagnvart þingi og þjóð á undangengnum mánuðum.
    Þriðji minni hluti bendir á að mikil óvissa ríkir nú um afdrif EES-samningsins þar sem einstök aðildarríki EB, svo sem Spánn, hafa látið þá skoðun í ljós að örlög EES-samningsins ráðist m.a. af niðurstöðum í atkvæðagreiðslu um Maastricht-samninginn í Danmörku og Bretlandi. Mikilvægt er að þessari óvissu verði eytt hið fyrsta og tryggt að hún komi ekki niður á aðgangi íslenskra sjávarafurða að mörkuðum EB.
    Um afstöðu til samningsins að öðru leyti vísar 3. minni hluti í nefndarálit sitt frá því í janúar sl. sem birt var á þskj. 411.
    Með tilvísun til þess sem að ofan greinir mun 3. minni hluti sitja hjá við afgreiðslu þessa frumvarps á Alþingi.``
    Virðulegi forseti. Ég lít raunar svo á að hinni pólitísku umræðu um sjálfan samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði sé lokið á Alþingi, að lokaþáttur umræðunnar hafi í raun farið fram í janúar sl. þegar atkvæði voru greidd um aðildina að hinu Evrópska efnahagssvæði. Þá voru helstu rök og mótrök leidd fram og þau hafa í sjálfu sér ekkert breyst á þeim tíma sem liðinn er og ég reikna fastlega með að afstaða einstakra þingmanna til málsins hafi ekkert breyst frá þeim tíma. Þegar þetta var var mikil óvissa ríkjandi um framtíð samningsins í kjölfar þess að Sviss hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu aðild að samningum og eins og segir í nál. mínu var ljóst að samningstextinn eins og hann lá fyrir var ekki í samræmi við þann veruleika sem við blasti. Síðan hefur verið samið um þennan þátt málsins og aðild alls staðar þar sem getið er um Sviss í samningnum hefur það verið tekið út. Þá hefur þetta þýtt að Íslendingar verði vissulega að taka á sig auknar fjárhagsskuldbindingar vegna sjóðsins sem stofnað var til og framlag Sviss datt út þegar samningnum var hafnað í þjóðaratkvæði.
    Þrátt fyrir að samið hafi verið um málið á nýjan leik með Sviss fyrir utan er ekki þar með sagt að óvissan í málinu sé eitthvað minni nú en hún var þá. Það er því ekki alveg ljóst hvernig þetta mál mun fara á næstu mánuðum. Bæði hefur þess orðið vart að það er takmarkaður áhugi á sjálfu EB-þinginu á samningnum og svo er að heyra sem það sé spurning um það hvort það takist að fá nægilega marga þingmenn til þess að mæta til atkvæðagreiðslu þegar þessi viðbót verður afgreidd.
    Þá er líka ljóst að Spánverjar hafa haft lítinn áhuga á samningnum, bæði vegna þess að þeir líta svo á að samningurinn eins og hann liggur fyrir gefi EFTA-ríkjunum vissa viðspyrnu, þ.e. geri aðild að Evrópubandalaginu ekki eins fýsilega í augum margra í þessum ríkjum. Þá óttast þeir líka að EES-samningurinn geti leitt til þess að Efnahagsbandalagið þróist í átt til fríverslunarsamnings, það þróist til norðurs og EFTA-ríkin ásamt með Þýskalandi og jafnvel Bretlandi nái saman og geti leitt til þess að EB þróist í átt til fríverslunarsvæðis. Spánverjar og Suður-Evrópuríkin leggja mikla áherslu á það að hinn pólitíski samruni verði aukinn í Evrópu.
    Þá vilja Spánverjar líka tengja EES-samninginn Maastricht-samningnum og segja í rauninni að þetta sé kaup kaups. Ef Danir samþykkja ekki Maastricht í þjóðaratkvæðagreiðslu og Bretar samþykkja ekki samninginn á breska þinginu þá sé málið upp í loft og engin ástæða til þess að samþykkja samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði og allt ferlið þurfi í rauninni að byrja upp á nýtt. Þetta er sú afstaða sem hefur komið fram frá Spánverjum til málsins.
    Í ljósi þessa liggur náttúrlega fyrir að það getur brugðið til beggja átta í þessu máli

og mikil óvissa er ríkjandi og þessi óvissa hefur m.a. verið staðfest af utanrrh. í umræðum um málið. Ég held að öllum hljóti að vera talsvert kappsmál að þessari óvissu fari að linna og það þurfi að taka á málunum ef afstaða EB skýrist ekki nú hið fyrsta og í síðasta lagi í sumar. Skýrist afstaða EB í sumar verða íslensk stjórnvöld að snúa sér að því að tryggja hagsmuni Íslendinga á mörkuðum EB, ekki síst með tilliti til sjávarfangsins og það mætti þá hugsanlega gerast með einhvers konar endurbótum á bókun 6 við fríverslunarsamninginn frá 1972. Ég er að tala um sumarið í sumar ef mál fara á þann veg að óvissa verði enn ríkjandi um framtíð samningsins. Eins og ég segi held ég að öllum hljóti að vera ljóst að þessi óvissa er mjög skaðleg vegna þess að það er erfitt fyrir fyrirtæki og einstaklinga að búa sig undir eitthvað sem ekki liggur fyrir hvort verði að veruleika og búa sig undir einhverja framtíð sem að vissu leyti er óljós.