Evrópskt efnahagssvæði

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 18:09:41 (7679)

     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Á þskj. 1060 er frávísunartillaga frá þingflokksformönnum stjórnarandstöðunnar sem eru auk mín Ragnar Arnalds og Kristín Ástgeirsdóttir. Tillgr. hljóðar svo:
    ,,Mikil óvissa ríkir nú um afdrif samningsins um Evrópska efnahagsvæðið og hefur utanríkisráðherra m.a. viðurkennt að ólíklegt sé að hann taki gildi á þessu ári. Samningurinn hefur enn ekki verið tekinn til afgreiðslu nema á fáum þingum EB-landa. Jafnframt er talið að verði Maastricht-samningurinn ekki staðfestur af Dönum eða Englendingum muni EES-samningurinn ekki ná fram að ganga á öllum þjóðþingum EB-ríkjanna. Í sumar kann því að vera komin upp allt önnur staða en nú er uppi í þessu máli.
    Þegar af þeirri ástæðu telur Alþingi ekki rétt að afgreiða þetta frumvarp og samþykkir að vísa því til ríkisstjórnarinnar. Jafnframt samþykkir Alþingi að samningurinn verði ekki lagður fram á ný á Alþingi til staðfestingar nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.``
    Við teljum að ekki sé tímabært að staðfesta samninginn og að ekkert liggi heldur á vegna þess að samningurinn verður fyrirsjáanlega ekki staðfestur af hálfu allra Evrópubandalagsríkjanna á næstunni. Þar fyrir utan er fjöldamargt sem er enn þá óklárt. T.d. er ekki ljóst eins og komið hefur fram í umræðunum hvernig landbúnaðarþátturinn kemur til með að líta út. Að vísu eru mjög slæmar horfur eins og stendur og á því máli hefur verið einstaklega illa haldið af hálfu ríkisstjórnarinnar en við verðum að vona það besta og vona að útkoman verði eitthvað skárri en horfir í dag. Þar fyrir utan má bæta því við að íslensk löggjöf er ekki undirbúin undir gildistöku samningsins. Land og auðlindir liggja opnar fyrir útlendingum og ekki hafa verið settar upp þær girðingar sem búið var að gefa fyrirheit um.
    Þá er þess að geta að íslenskt atvinnu- og efnahagslíf er alls ekki viðbúið að standast þá óheftu samkeppni sem aðild að Evrópsku efnahagssvæði felur í sér. Þetta er afdrifaríkasti gerningur sem gerður hefur verið fyrir hönd þjóðarinnar síðan 1262 og er mjög æskilegt að þjóðin fái að gefa ráð við þá ákvörðun. Svigrúm skapast til þess að láta fara fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að gildistakan frestast og láta þá þjóðaratkvæðagreiðslu fara fram áður en endanlega verður gengið frá málinu á Alþingi.
    Herra forseti. Ég stend að nál. á þskj. 1053 og vísa til þess sem þar stendur og jafnframt vísa ég til framsögu með því nál. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um EES-samninginn. Ég er búinn að tala ítarlega um samninginn fyrr í vetur og ætla ekki að endurtaka það. Ég vil láta þess aðeins getið að skoðun mín er ekki breytt en ég ætla ekki að endurtaka neitt af því hér og nú.