Evrópskt efnahagssvæði

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 18:14:02 (7680)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Austurl. hefur í ræðu sinni gert grein fyrir viðhorfum okkar alþýðubandalagsmanna til þess máls sem liggur fyrir og sömuleiðis í nál. 2. minni hluta utanrmn. sem lýkur með þessum orðum, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi á að hafna þessum samningi og hefja undirbúning að bættum samskiptum við umheiminn út frá íslenskum forsendum. Það verður best gert með því að landið skipi sér utan stórra efnahagsheilda þar sem hagsmunir stórvelda og fjölþjóðafyrirtækja ráða ferðinni.``
    Þá hefur formaður þingflokks Alþb. ásamt formönnum annarra þingflokka stjórnarandstöðunnar lagt fram frávtill. á þskj. 1060 þar sem lagt er til að þessum samningi og frv. verði vísað frá og jafnframt samþykki Alþingi, eins og þar stendur, með leyfi forseta,

,,að samningurinn verði ekki lagður fram á ný á Alþingi til staðfestingar nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.``
    Út af fyrir sig hefur flestum efnisatriðum málsins á þessu stigi verið haldið til skila þó að margt væri hægt að segja um málið í heild, sérstaklega á þessari stundu því að nú er verið að ljúka meðferðinni á EES-samningnum á Alþingi þannig að það má segja að við séum komin að ákveðnum kaflaskilum í málinu. Auðvitað er það þannig eins og margir hv. ræðumenn hafa sagt á undan mér í umræðunni að þetta mál mun koma aftur og aftur á næstu missirum, næstu árum ef svo fer að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði verður að veruleika. Samt sem áður er það þannig að hin formlegu lok málsins á Alþingi í bili eru núna með því frv. sem hér er til umræðu á fundinum. Þess vegna er ekkert óeðlilegt við það, virðulegi forseti, að einmitt á þessum fundi sé farið dálítið yfir málið og menn reyni að skyggnast um og skoða hvert erum við eiginlega að fara, hvert er utanrrh. að fara með því að leggja þetta ofurkapp á að málið verði að lögum. Hvert er ríkisstjórnin að fara og hvert ætlar hún með þjóðina og hvernig má gera ráð fyrir að hlutirnir þróist á næstu árum?
    Þegar samningsdrögin um Evrópskt efnahagssvæði voru fyrst rædd á sínum tíma gerðu ýmsir aðilar, og einkum og sér í lagi framsóknarmenn, mjög mikið úr því að kannski væri hægt að koma í veg fyrir helstu vandamálin sem af þessu hljótast með því að setja upp það sem kallað er girðingar. Í miðstjórnarsamþykkt Framsfl. í maí 1992 var mikið talað um girðingar og menn þyrftu að setja girðingar til þess að koma í veg fyrir það að þessi og hin plágan riði yfir landið í framhaldi af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Nú hefur girðingatalið af einhverjum ástæðum hljóðnað mjög mikið og það er auðvitað fyrst og fremst vegna þess að menn átta sig á því að ekki er hægt að koma þeim við. Ekki er hægt að setja girðingar sem gilda bara um Íslendinga. Samkvæmt þessum samningi er bannað að gera neitt sem upphefur íslenskan ríkisborgararétt á samningssviðinu. Í raun og veru er búið að ákveða það ef menn verða aðilar að þessum samningi og ef hann verður að veruleika að íslenskur ríkisborgararéttur gildir bara eins og ríkisborgararéttur Þýskalands, Danmerkur eða Portúgals á samningssviðunum fjórum. Þetta er sérstaklega alvarlegt með hliðsjón af því að ríkisstjórnin lofaði því, eins og hv. 4. þm. Austurl. tók áðan fram að ganga frá ýmsum málum í lögum áður en af þessum samningi yrði. Áður en hann yrði afgreiddur. Það á auðvitað sérstaklega við um orkumál og þær auðlindir sem hér eru í jörðu, háhita og jarðhita af ýmsu tagi.
    Ég hlýt að nota þetta tækifæri, virðulegi forseti, til að spyrja hæstv. utanrrh. hvernig hann sér þau mál fyrir sér. --- Ætli hæstv. utanrrh. sé langt í burtu, hæstv. forseti? Ég hefði viljað beina einni spurningu til hæstv. utanrrh. Er hann kannski ekki í húsinu? ( Forseti: Forseti getur upplýst að hæstv. utanrrh. er í húsinu og ráðstafanir verða gerðar til þess að hann gangi í salinn.) Það gleður mig óumræðilega, virðulegi forseti, að hann skuli vera í húsinu og sömuleiðis að hann skuli ganga í salinn.
    Ég held að nauðsynlegt sé að fá upplýsingar um hvernig hæstv. utanrrh. hefur hugsað sér að verja þessar íslensku orkulindir á landi með lagasetningu. En eins og kunnugt er hefur legið fyrir Alþingi í um 10 ár frv. um hvernig á að fara að því að tryggja eignarrétt þjóðarinnar á þessum orkulindum, háhitasvæðunum og fleiru. Frv. hefur aftur og aftur verið lagt fyrir Alþingi og aftur og aftur verið lagt fyrir iðnn. Aftur og aftur hefur það komið fram að ýmsir fulltrúar á Alþingi, aðallega úr Sjálfstfl. og einn og einn maður úr Framsfl. hafa verið á móti því að reglur eða lög væru sett um það að þjóðin ætti þessar auðlindir. Sl. haust, þegar hv. 4. þm. Austurl. mælti fyrir þessu frv., lofaði hæstv. iðnrh. því að fljótlega kæmi frv. frá ríkisstjórninni til þess að tryggja eignarrétt þjóðarinnar á þessum auðlindum. Fyrirspurn mín til hæstv. utanrrh. er þessi: Hvar er þetta frv.? Hvar er málið? Er það rétt að það sé strand í stjórnarflokkunum og ef það er strand í stjórnarflokkunum hvernig ætlar utanrrh. þá að tryggja eignarrétt þjóðarinnar á þessum auðlindum andspænis þeim veruleika sem við stæðum frammi fyrir ef Íslendingar verða aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði?
    Þetta er fyrirspurnin: Hvar er þetta frv., hvenær kemur það og hvaða ráðstafanir ætlar ráðherrann að gera í þessum efnum?
    Hv. 4. þm. Austurl. og fleiri , t.d. hv. 15. þm. Reykv. hafa rakið mjög rækilega hvernig verður þrengt að öllu lýðræði og þingræði með því að við verðum aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði. Þegar þingræðið varð fyrst til á Íslandi og menn ræddu um það fyrst þá hafði orðið þingræði alveg sérstakan bjartan hljóm. Ég man eftir að Jón Ólafsson, sem var framarlega í sjálfstæðisbaráttu okkar á 19. öldinni og orti margt sem ekki þótti fallegt um Danakonung, kallaði þetta sigurhróp sem fælist í orðinu þingræðið.
    Spurningin er hvaða hljómur verður í sigurhrópinu þingræðið eftir að við erum búin að breyta okkur í færiband eða kannski frekar flæðilínu svo ég miði við nútímatækni í sjávarútvegi. Breyta Alþingi Íslendinga í flæðilínu fyrir Evrópubandalagið. Frv. verður rúllað inn dag eftir dag og menn samþykkja eitt í dag og vita svo sem ekki mjög mikið hvað þeir eru að samþykkja. Það sérkennilega er að við höfum þegar í í þessum sal og það í gær, staðið frammi fyrir mjög sérkennilegri lífsreynslu sem við munum oft kynnast á næstu árum ef við verðum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þannig var að hér var til meðferðar frv. um samgöngumál á EES-sviðinu, held ég það heiti, eða eitthvað þess háttar, og á sama tíma var hér til meðferðar frv. til laga um eftirlit með skipum. Svo var líka til meðferðar frv. til laga um leiðsögu skipa ef ég man rétt. Í báðum þessum frv., EES-frv. og skipafrv., var verið að breyta sömu lögunum á sama þingfundinum. Þingmenn úr stjórnarandstöðunni, hv. 6. þm. Vestf. og fleiri, spurðu hvernig bæri að skoða þessi mál. Ef við erum búin að breyta lögunum um eftirlit með skipum en erum svo að breyta lögum sem við vorum að afnema með öðru frv. sem var 12. eða 13. dagskrármálið þar sem hið fyrra var 6. eða 7. dagskrármálið. Minn ágæti vin, Pálmi Jónsson, er formaður samgn. og forseti þingsins, og það vafðist nokkuð fyrir mönnum að taka á þessu máli. Hver varð niðurstaðan af þessari flækju? Niðurstaðan varð sú að þessu máli um samgöngur á EES-svæðinu eða hvað það nú heitir var frestað í dag. Af hverju var því frestað í dag? Það var til þess að það væri hægt að gefa út að nýju lögin um eftirlit með skipum og lögin um leiðsögu skipa með nýjum númerum, með Stjórnartíðindum prentuðum í dag þannig að þegar samgöngumál á EES-svæðinu verða tekin fyrir á morgun breyti þau hinum nýju lögum sem voru samþykkt í gær. Okkar prýðilega lið í þinginu sem á auðvitað að halda utan um alla þessa speki ræður náttúrlega ekki við öll þessi ósköp vegna þess að hlutirnir eru í meira og minna rugli. Ég óttast það, virðulegi forseti, tæknilega séð að oft verði ákaflega erfitt fyrir stofnunina að fóta sig við þessa flæðilínu Evrópubandalagsins sem utanrrh. hefur ákveðið að setja í gang.
    Þessi mál, virðulegi forseti, voru rædd ítarlega í kosningunum 1991. Ég man að ég komst þannig að orði á vinnustaðarfundi í kaffistofu Áburðarverksmiðjunnar að þetta væru kannski síðustu kosningarnar þar sem við værum að takast á um það hvort við værum að leggja af stað inn í Evrópubandalagsferlið. Stórvinir mínir í Alþfl. eins og hæstv. utanrrh. töldu að þetta væri til marks um það að þarna væru menn að snúa öllum hlutum á hvolf. Auðvitað færum við ekkert í Evrópubandalagið á því kjörtímabili sem þá fór í hönd, þ.e. á því kjörtímabili sem nú er. Staðreyndin er auðvitað sú að við erum á þessari leið. Það er meginástæðan til þess að mjög mörg okkar hafa snúist öndverð gegn samningnum um Evrópskt efnahagssvæði að við teljum að með því sé verið að leggja af stað inn í Evrópubandalagið þó ég sé jafnviss um það að fjöldinn allur af þingmönnum sem studdu aðild að EES vilja ekki fara inn í Evrópubandalagið. En þá er það þannig eins og segir í kvæðinu að ,,enginn stöðvar tímans þunga nið``. Það er hætt við því að menn muni eiga erfitt með að fóta sig í þessum þunga straumi þegar þar að kemur og menn segi sem svo: Við skulum ekki vera að stríða á móti tímanum. Tíminn og samtíðin dregur okkur inn í þetta ferli.
    Við höfum líka upplifað nú þegar mjög áþreifanlegar sannanir fyrir því að við erum á þessari braut. Það gerðist líka í gær. Samþykkt var að Ísland yrði aukaaðili að Vestur-Evrópubandalaginu. Hvað er Vestur-Evrópubandalagið? Það er hernaðarhliðin á Evrópubandalaginu og ekkert annað. Það er ekkert annað. Einu rökin sem hæstv. ríkisstjórn hefur flutt fyrir aukaaðild að Vestur-Evrópubandalaginu eru þau að við þurfum að geta hlustað á það samráð sem fer fram milli Evrópuríkjanna um hernaðarmálefni þannig að við einangrumst ekki frá þeim í hugsanlegum átökum sem gætu orðið á milli þeirra annars vegar og Bandaríkjanna hins vegar um skipan þessara hernaðarmálefna á rústum kalda stríðsins á næstu árum þegar Atlantshafsbandalagið verður lagt niður.
    Engin önnur rök höfum við heyrt í þessu efni og það liggur við að þessi rök séu rökin af-því-bara vegna þess að engin önnur rök hafa komið fram fyrir því að Íslendingar eigi að verða aukaaðilar að hernaðarbandalagi Evrópubandalagsins.
    Ég vil þess vegna segja það, virðulegi forseti, að því miður er það svo að við erum núna einmitt um þessar mundir að stíga skref hvert á fætur öðru sem leiða til þess að við förum þarna inn. Ég spyr: Voru stórar fyrirsagnirnar í blöðunum í morgun um að Íslandi væri að verða aukaaðili að Vestur-Evrópubandalaginu? Voru fréttirnar á ljósvakamiðlunum um þetta mál stórar í gærkvöldi eða í morgun eða í hádeginu --- eða hvað? Nei. Ég efast um að það sé nema örlítið brot af þjóðinni sem átti sig á því að þeir hv. 3. þm. Reykv., sem er yfirhershöfðingi íhaldsins, og hæstv. utanrrh. hafa lagt af stað með Íslendinga inn í Vestur-Evrópubandalagið. Þetta sýnir okkur auðvitað, virðulegi forseti, líka það hvað við erum vanmegna í þessari stofnun, ekki aðeins að vekja athygli á málum heldur sporna við. Við erum þegar farin að finna lyktina af stimpilpúðunum sem við verðum látin nota þegar og ef Íslendingar verða aðilar að Evrópsku efnahagssvæði.
    1. apríl 1873 var efnt til mótmælastöðu í miðbænum í Reykjavík og það var fyrsta mótmælastaðan sem var efnt til í miðbænum í Reykjavík. Það var haft svo mikið við að það var búið til sérstakt spjald og þótti alveg undur og menn drógu fram ritblý og skrifuðu á spjaldið. Hvað skrifuðu menn á spjaldið, þessum fyrstu mótmælum Íslendinga og fyrsta sinn sem menn voru með spjald í mótmælum? Það var ,,Niður með landshöfðingjann``. Í tengslum við þetta og stofnun landshöfðingjaembættisins og aðdragandi þess voru stöðulögin sem voru sett í febrúar 1870. Ég geri ráð fyrir því að flestir þingmenn kannist eitthvað við stöðulögin og muni t.d. fyrstu málsgrein stöðulaganna. (Gripið fram í.) Nei, ég heyri það að það þarf að rifja það upp, en þar stendur, með leyfi forseta: ,,Ísland er óaðskiljanlegur hluti Danaveldis með sérstökum landsréttindum.``
    Getur verið að við, með þessum EES-lögum sem hér á að samþykkja og hugsanlega því að menn kalli okkur inn í Evrópubandalagið með einhverjum hætti, séum að setja löggjöf sem er einhvern veginn þannig að Ísland er óaðskiljanlegur hluti Evrópuveldisins með sérstökum landsréttindum. Það er útilokað að neita því að við munum hafa nokkur sérstök landsréttindi þó við verðum aðilar jafnvel að Evrópubandalaginu og Evrópsku efnahagssvæði. T.d. er nokkuð gefið mál að við munum hafa þau sérstöku forréttindi í þessu landi að hafa Alþfl. og ég tala nú ekki um Framsfl. sem er alveg einstakt ,,fenomen`` eins og menn þekkja í flóru flokkanna í heiminum.
    Við erum með öðrum orðum að ganga inn í kerfi, inn í samfélag sem við höfum ekki miklar spurnir af og vitum ekki hvernig mun þróast. Þó vitum við dálítið um þetta samfélag. ( Forseti: Forseti vill leyfa sér að trufla hv. þm. í ræðunni en það hafði verið gert um það samkomulag að gera hlé á þingfundi klukkan hálfsjö til klukkan hálfníu í kvöld og þingfundur hefst þá aftur. Þess vegna vill forseti kanna hvort hv. þm. er að ljúka ræðu sinni eða hvort hann er tilbúinn til þess að gera hlé á ræðunni.) Þingmaðurinn er tilbúinn til að gera hlé á ræðunni. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegi forseti. Ég held að ástæða sé til þess í lok umræðunnar um Evrópskt efnahagssvæði að velta því aðeins fyrir sér inn í hvers konar þjóðfélag við erum að ganga og hvort það er endilega það þjóðfélag sem við viljum sjá þróast í okkar landi. Hvernig er Evrópuþjóðfélag sem menn eru sem óðast að sameinast? Þar eru 17 millj. manna á atvinnuleysisskrá í Evrópu um þessar mundir, í löndum Evrópubandalagsins. Þá eru þar fyrir utan atvinnulausir í EFTA-löndunum, þ.e. í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Austurríki, Sviss og Íslandi, en það eru 17 millj. bara í Evrópubandalagslöndunum. Það er langt til svipaður fjöldi og býr á öllum Norðurlöndunum. Það er sennilega ámóta fjöldi og nemur vinnufæru fólki á öllum Norðurlöndunum. Þetta fólk hefur ekkert að gera, eins og það heitir, það fær ekki vinnu. Þannig er ástandið að þjóðfélögin hafa komið sér upp svofelldu hagkerfi

að þetta fólk getur ekki selt vinnuafl sitt. Enginn er tilbúinn að kaupa vinnuafl þessa fólks og vinnuaflið er það eina sem þetta fólk á eins og kunnugt er og vinnuaflið verður aldrei tekið frá hraustum manni, ekki einu sinni með gjaldþrotaúrskurðum. En þessi þjóðfélög eru þannig vaxin að þetta fólk, 17 millj. manna, fær enga vinnu. --- Er ráðherra að koma? ( Forseti: Forseti hefur upplýsingar um það að ráðherra sé rétt ókominn.) 17 millj. manna í þessum þjóðfélögum hafa enga vinnu og spurningin er hvort við eigum endilega að sameinast þessum þjóðfélögum, hvort þetta er það kerfi sem við viljum í landi okkar.
    Nú er það þannig að forustumenn Evrópubandalagsins hafa áhyggjur af þessari þróun. Því er ekki að neita og ástæðulaust að draga fjöður yfir það að þar eru haldnir margir fundir um ráðstafanir til þess að draga úr atvinnuleysi. Fundir eru haldnir um það að efna til sérstaks átaks til þess að draga úr atvinnuleysi og nýlega var greint frá því að í löndum Evrópubandalagsins hefði verið ákveðið að verja um 42 milljörðum dollara til þess að hressa við atvinnulífið í löndum Evrópubandalagsins og talið er að þessar ráðstafanir geti aukið þjóðarframleiðslu í þessum löndum samanlagt upp á 0,6% og það séu u.þ.b. 450 þús. ný störf sem geta komið út úr þessum aðgerðum. Það er ekki lítið. Þessi ríki standa hins vegar frammi fyrir því að á sama tíma er það að gerast sem betur fer í heiminum að ríkin eru að afvopnast og verið er að fækka mjög verulega bæði í hergagnaiðnaði og í herjum Evrópubandalagslandanna þannig að þessi 450 þús. nýju störf sem er verið að tala um að skapa í Evrópubandalaginu með sérstöku átaki eru nokkurn veginn alveg jafnmörg og mun fækka í hergagnaiðnaði og herjum Vestur-Evrópu núna á allra næstu árum. Þannig að þetta sérstaka atvinnuátak upp á 450 þús. manna er nokkurn veginn bara til að taka við því fólki sem hættir vinnu í hergagnaiðnaði víðs vegar í Evrópubandalaginu núna á allra næstu árum. Úttekt hefur verið gerð á því hvernig hægt er að samræma þessa hluti og þróa þá saman þar sem hefur verið farið yfir hverja einustu borg þar sem um verulega vopnaframleiðslu hefur verið að ræða, m.a. Flensborg, og allt suður eftir Spáni og Ítalíu. Þetta er þjóðfélagið sem við erum að fara inn í þar sem allt þetta atvinnuleysi er og við höfum fengið smjörþefinn af þessu á Íslandi. Hér er atvinnuleysi meira en það hefur nokkurn tímann áður verið, við þekkjum ekki hliðstætt atvinnuleysi því sem nú er hér á landi. Talað er um að atvinnuleysið telji hér 7--8 þús. manna.
    Virðulegi forseti. Mér finnst þá ástæða til þess að spyrja að minnsta kosti sjálfan sig: Erum við örugglega á réttri leið? Er það örugglega rétt fyrir okkur að fara inn í þetta þjóðfélag sem er þannig að það gengur út frá því og byggist upp á því að tíundi hver maður sé atvinnulaus? Er alveg öruggt mál að það sé þetta þjóðfélag sem við kærum okkur um?
    Hér hefur verið sagt, m.a. af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, aftur og aftur í þessum umræðum um EES-málið að sósíaldemókrataflokkarnir og annað alþjóðasambandið eigi mikinn þátt í þróun þessa Evrópusamruna. Út af fyrir sig er það rétt að mjög margir áberandi forustumenn eru í Evrópubandalaginu og m.a. í þessum Evrópuumræðum sem eru úr sósíaldemókrataflokkunum. Það er mjög sérkennilegt að virða það fyrir sér hvernig stendur á því. Þetta eru jafnaðarmannaflokkar og jafnaðarmannaflokkur er flokkur sem vill jafna lífskjör. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki misskilningur. Jafnaðarmannaflokkur er flokkur sem vill jafna lífskjör. Það er rétt. Jafnaðarmannaflokkur sem ekki vill jafna lífskjör er ekki jafnaðarmannaflokkur. Jafnaðarmannaflokkur vill ekki auka launamismun en launamismunur hefur aukist, t.d. á Íslandi hefur launamismunur aukist talsvert mikið. Ég er nokkurn veginn sannfærður um það að kjaramismunur á Íslandi vex mjög hröðum skrefum einmitt um þessar mundir vegna þess að atvinnuleysið eitt út af fyrir sig hefur það í för með sér að framleiðslukostnaður vöru og þjónustu lækkar sem kemur okkur til góða sem höfum miklar tekjur. Það þýðir að þeir sem eru með góð kjör og hátt kaup eru að bæta sín lífskjör á kostnað hinna atvinnulausu. Ekki er það að skapi jafnaðarmannaflokks að auka launamun. Ef við lítum yfir Evrópu að öðru leyti þá sjáum við að þar eru jafnaðarmannaflokkar við forustu. Það er jafnaðarmannaflokkur við forustu á Spáni. Þar er verið að tala um atvinnuleysi upp á 15--20%. Það hefur verið jafnaðarmannaflokkur við forustu í Frakklandi. Jafnaðarmannaflokkur kom við sögu í hinni sælu stjórn Ítalíu sem nú er gengin á vit

sögunnar, guði sé lof.
    Spurningin er þá sú: Er hérna um að ræða ástand, allt þetta atvinnuleysi, sem ekkert verður við ráðið? Ég trúi ekki öðru en að þeir sem eru í forustu fyrir jafnaðarmannaflokkum, hvort sem það er á Íslandi, Ítalíu eða á Spáni, í Frakklandi, Danmörku eða Þýskalandi, hafi áhyggjur af þessari þróun Þeir hafi áhyggjur af því að þeir eru með þjóðfélög í höndunum, þeir eru að stjórna þjóðfélögum þar sem tíundi hver maður hefur enga vinnu. Auðvitað hefur maður heyrt í mörgum teknókrötum úr forustu þessara jafnaðarmannaflokka, sósíaldemókrataflokka og stjórnarflokka, vinstri flokka af ýmsu tagi sem stjórna þessum löndum Evrópu sem mæla árangur sinn í þessum venjulegum tölum. Þeir segja viðskiptahallinn, þeir segja hallinn á ríkissjóði, þeir segja verðbólgan og alla þessa hluti. Þetta kunna menn utan að. En þessir menn bæta aldrei við: Já, en það er atvinnuleysi. Staðreyndin er sú að atvinnuleysi hlýtur að vera og á að vera alveg óþolandi fyrir jafnaðarmannaflokk, að það sé þannig að fjöldi manns, 10% þjóðanna, séu á hraklegum kjörum eða eins og er hjá okkur, þar sem hópur fólks er kannski með 40 þús. kr. á mánuði í atvinnuleysisbætur og auk þess nokkur þúsund manns sem hafa ekki neitt samkvæmt þeim lögum sem enn eru í gildi í landinu.
    Launamunurinn hefur aukist, lífskjaramunurinn hefur aukist. Munurinn eftir landshlutum hefur líka aukist, t.d. hér á landi. Öryggisleysið á landsbyggðinni fer vaxandi. Spurningin er þá sú: Viljum við þetta þjóðfélag eða viljum við eitthvert annað þjóðfélag?
    Fyrir 60 eða 70 árum hefðu t.d. forustumenn jafnaðarmannaflokka, t.d. Alþfl. á Íslandi, kunnað alveg skýrt svar við þessu. Í stefnuskrám, sem voru gefnar út af Alþfl. á árunum 1930--1940, höfðu menn alveg skýrt svar við þessu. Það var þjóðnýting og það voru bæjarútgerðir. Nú er það svo, verð ég að segja fyrir mitt leyti, virðulegi forseti, að ég fagna því út af fyrir sig að menn eru lausir út úr þessum þjóðnýtingarflækjum vegna þess að það er fullljóst að sú allsherjaráhersla sem menn í áratugi lögðu á þjóðnýtingu af einhverju tagi gengur ekki. Hún kemur í hausinn á mönnum aftur þó menn kunni að hafa lagt af stað með góðar hugsjónir þá endar það yfirleitt með ósköpum. Við þekkjum mörg dæmi þess. Sem betur fer er staðreyndin auðvitað sú að með hruni Sovétríkjanna eru þær hugmyndir allar í raun og veru meira og minna dauðar og það er gott að þær eru farnar. En það breytir ekki hinu að hitt kerfið, þ.e. hið alfrjálsa, ofstækisfulla, einkavædda markaðskerfi, er að skila þessari félagslegu neyð og þessari ofboðslegu misskiptingu. Þeir flokkar, sem sitja við völd einungis valdanna vegna og láta sér nægja hina teknokratísku mælikvarða hagvaxtarins, viðskiptahallans, hallans á ríkissjóði og allt þetta, hafa auðvitað í staðinn fyrir hugsjónirnar í seinni tíð hver á fætur öðrum lent í spillingarfeni eða í stjórnarandstöðu í hugmyndalausri stjórnarandstöðuútlegð. Spillingarfenin eru Ítalía og Frakkland. Hrun sósíalista í Frakklandi stafaði ekki af því að Fransmenn yrðu allt í einu svo hægri sinnaðir og borgaralegir í viðhorfum. Það stafaði auðvitað fyrst og fremst af því að menn voru þeirrar skoðunar að stjórn sósíalista í Frakklandi væri spillt og þess vegna þyrfti hún að víkja og auk þess voru menn hræddir við atvinnuleysið. Svipað má auðvitað segja um Ítalíu þó þar séu hlutirnir nokkuð öðruvísi. Dæmi um hugmyndalausa stjórnarandstöðuútlegð er svo þýski sósíaldemókrataflokkurinn.
    Með öðrum orðum hefur vinstri flokkum í Vestur-Evrópu eða í okkar heimshluta á þeim tímum sem við lifum ekki tekist að reisa hugmyndafræði, svör, flögg, fána, merki, sem sýna fram á það hvernig er hægt að breyta þessum þjóðfélögum þannig að þau skapi forsendur fyrir upprétta tilveru fyrir hvern einasta mann án þess að lenda inni í ofstjórnarfari þjóðnýtingarinnar. Þeim hefur ekki tekist sem skyldi að bera fram svör í þessum efnum. Af hverju er það? Ég held að það sé að einhverju leyti vegna þess að það sé endurkast frá ofstjórnartilhneigingunum sem menn voru haldnir um langt árabil. Það sé endurkast vegna þess að menn hurfu frá þessum ofstjórnarkröfum og töldu að samkeppnisþjóðfélagið væri lausn á öllum vanda. Að jafnaðarmannaflokkum eða vinstri flokkum væri fyrst og fremst skylt að tryggja það að fólk fengi sem ódýrastar vörur þá og þá og sem ódýrasta þjónustu þá og þá sem næðist best fram á forsendum samkeppninnar þó það þýði oft og tíðum að fyrirtæki fari á hausinn í stórum stíl og landshlutar leggjast í eyði. Með öðrum

orðum, menn hafa að mínu mati verið hræddir við að trufla markaðinn. Menn hafa verið hræddir við að trufla markaðinn og ekki fengist til þess að beita félagslegum úrræðum til að trufla yfirgang markaðsaflanna. Ég er alveg sannfærður um að áður en langur tími líður mun renna upp fyrir fleirum en örfáum hrópendum í eyðimörkinni að það er útilokað að reka markaðsþjóðfélagið á þeim forsendum sem við rekum það á í dag af því að það leiðir til ómannúðlegrar niðurstöðu.
    Mín skoðun er þess vegna sú að ekki sé eftirsóknarvert að ganga inn í hina atvinnulausu Evrópu um þessar mundir fyrir okkur. Við eigum að leita leiða í landinu til þess að skapa mannúðlegt þjóðfélag þar sem allir hafa atvinnu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að í þessu landi séu forsendur til þess að skapa þjóðfélag betra en í nokkru öðru landi af því að við erum í fyrsta lagi tiltölulega rík, í öðru lagi erum við fá og þar af leiðandi eru möguleikar á því hér á landi að vera með tiltölulega gagnsæja þjóðfélagsgerð þar sem menn vita vel hver af öðrum og þar sem misrétti er ekki liðið, þar sem menn krefjast jafnaðar í lífskjörum og aðbúnaði frá degi til dags.
    Ef menn rífa sig upp úr vælinu og minnimáttarkenndinni sem er uppivaðandi hér held ég að hér á landi sé hægt að búa til fyrirmyndarþjóðfélag að mörgu leyti. Önnur þjóðfélög og aðrar þjóðfélagsgerðir gætu lært mjög margt af því þjóðfélagi ef menn hefðu metnað til þess að reisa hér einhver önnur merki en þau að flýja í fangið á þessari atvinnulausu Evrópu eins og hún er á sig komin.
    Virðulegi forseti. Vandinn er svo líka sá, sem við hljótum að velta fyrir okkur á þessari stundu, hvort það er þannig að það þjóni þeirri almennu þróun í heiminum sem við viljum sjá, að við göngum inn í þetta Evrópukerfi. Auðvitað er alveg hárrétt sem hv. 15. þm. Reykv. sagði áðan. Það sem er að gerast er að nokkru leyti það að ríku þjóðirnar eru að mynda um sig múr og búa hér til, ekki bara fyrsta heldur fyrsta lúxusfarrými í heiminum. Það er auðvitað líka augljóst, virðulegi forseti, að ekki heldur það að setjast á fyrsta lúxusfarrýmið samræmist þeim almennu jafnaðarhugsjónum sem jafnaðarmannaflokkar eiga að hafa, hver svo sem reynslan kann að vera af þeim einhvers staðar. Þannig að hvort sem við lítum á málin út frá okkur sjálfum eða við lítum á þau í alþjóðlegu samhengi og mælum þau á kvarða mannúðarstefnu, þá er alveg ljóst að við höfum ekkert að gera í þetta Evrópufélag eins og sakir standa. Þess vegna er það, virðulegi forseti, að við höfum tekið þá afstöðu sem menn þekkja og liggur fyrir.
    Nú er það hins vegar svo að talsmenn EES-aðildarinnar hafa talið að þetta mundi lyfta aðeins efnahagslífinu á Íslandi um tíma. Og hæstv. utanrrh. fór með í frægum útvarpsumræðum tölur um það að þetta mundi nú laga hér allt í efnahagslífinu. Þá rifjuðust upp fyrir mér ræður sem fluttar voru af forvera hans, formanni Alþfl., fyrir allmörgum árum þegar ég sat uppi á þessum palli sem blaðamaður og fylgdist með umræðum um annað mál fyrir 20 árum eða svo sem ungur drengur. Þá var fram undan gullöld og gleðitíð. Það hét 100 milljóna markaðurinn. Skrifaðir voru leiðarar í Alþýðublaðið og þverar opnurnar, ( Utanrrh.: Hve ungur var drengurinn fyrir 20 árum?) fyrir 20 árum var hann 28 vetra, nokkru yngri en sá sem kallaði fram í, og það var uppmálað sem gullöld og gleðitíð sem væri fram undan, 100 milljóna markaðurinn. Ég man að við héldum ágætan fund úti í Sigtúni á þeim tíma þar sem ég ræddi við þáv. ritstjóra Morgunblaðsins einmitt um þetta og hann talaði um þennan 100 milljóna markað. Það væri allt hér í fínu lagi þegar við værum komnir í hann. Og það eru sömu ræðurnar sem hæstv. utanrrh. heldur núna.
    Hvað hefur gerst í þeim málum? Hvað hefur gerst í okkar iðnaði á þessum tíma, þessum 20 árum? Ég held að óhætt sé að skoða það vegna þess að það er líka til sannindamerkis um að þessar hugmyndir um EES munu ekki leysa neinn vanda.
    Ef við skoðum t.d. ársverk í iðnaði og þróun þeirra frá 1970 þá hefur þeim ekki fjölgað, þeim hefur fækkað. Ársverkum í vefjariðnaði, skógerð, fatagerð hefur fækkað frá 1970. Ársverkum í trjávöruiðnaði hefur fækkað. Ársverkum í ýmsum öðrum iðngreinum hefur fækkað eins og t.d. í málm- og skipasmíðaiðnaði og menn munu segja sem svo: Já, þetta er eitthvað sem var alveg óhjákvæmilegt af því að við urðum að taka þátt í samkeppninni til að fá sem ódýrastar vörur hingað inn þannig að framfærsluvísitalan hækkaði ekki allt of mikið og fólkið hefði sæmilega kaupgetu. Markaðshlutdeild nokkurra innlendra iðnaðarvara sýnir líka að íslenskum iðnaði hefur farið stöðugt aftur síðan þá. Þessi samkeppni, þessi hundrað milljóna markaður, hefur því ekki aukið getu okkar í iðnaðinum. Það hefur versnað og þrengt að.
    Það er líka alveg ljóst, virðulegi forseti, að sú leið sem við erum að halda inn á núna er sú sama. Samkeppnistrúin, ofsatrúin á samkeppnina, á einkavæðinguna, mun ekki leysa allan okkar vanda. Það er alveg augljóst mál að ef við höldum áfram á þessari braut, þá mun enn þá myljast úr okkar íslenska iðnaði. Og það er ekki síst alvarlegt, virðulegi forseti, vegna þess að núv. hæstv. iðnrh. hefur engar hugmyndir og engar tillögur um það hvað mætti gera samhliða til þess að styrkja íslenskan iðnað sem þó voru uppi þegar menn gengu í EFTA á sinni tíð. Þá voru uppi tillögur um nýja stefnu að því er varðaði eflingu íslensks iðnaðar. Þegar upp er staðið, virðulegi forseti, þá leysir þetta ekki neitt, ekki okkar atvinnumál að neinu leyti. Það mun ekki stuðla að því að fleira fólk fái vinnu á Íslandi. Þvert á móti eru líkur á því að ef við verðum enn frekari partur af þessu kerfi, þá verði fleiri atvinnulausir á Íslandi. Það mun í raun og veru ekki setja okkur í þá stöðu sem er eðlilegt að krefjast í hinu alþjóðlega umhverfi. Og hvað er þá eftir? Ég velti því oft fyrir mér.
    Hvernig stendur á því, jafngott fólk og margir þingmenn eru í hópi stjórnarliðsins sem að þessu standa, að hlutirnir eru að þróast svona, að menn eru samt sem áður að tefla okkur inn í þetta kerfi? Þegar ég segi að margir þingmenn stjórnarliðsins standi örugglega að þessu með jákvæðum hætti, þá tala ég af reynslu. Ég hef hlustað á margar ræður þeirra hér. Ég hef t.d. hlustað á ræður hv. 11. þm. Reykn. sem skýrði þetta fyrst og fremst af því, sína afstöðu, að menn væru annars vegar að verjast EB-aðildinni, ef ég skildi hana rétt, og hins vegar væri verið að efla atvinnulífið í landinu til þess að efnahagslífið stæði betur með tilliti til atvinnuþróunar. Ég held að það sé alveg augljóst mál að hvorugt gerist og ég spyr mig, hvað er það sem rekur menn áfram með þessa hluti? Ég verð að játa það að ég hef ekki fengið nein nægilega skýr svör við því. Ég tel ekki að af hálfu hæstv. utanrrh. eða þeirra manna sem eru með honum í verkum geti verið neinar hugmyndir á bak við þetta af því tagi sem þeim eru stundum gerðar upp varðandi neikvæða afstöðu til almennrar, íslenskrar þjóðfélagsþróunar. Ég tel það ekki vera.
    Niðurstaðan er í raun og veru sú að þegar allt þetta er skoðað, þá hljóta menn, þ.e. ef þeir aðhyllast vinstri stefnu, jafnaðarstefnu eða mannúðarstefnu í stjórnmálum, að komast að því að hér erum við á villigötum. Við höfum ekkert í þetta kompaní að gera, virðulegi forseti.