Evrópskt efnahagssvæði

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 20:57:08 (7681)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Það er kannski helst þegar maður ætlar að taka undir eða skýra eitthvað í máli annarra að manni finnst orðið andsvar sérkennilegt af því að ekki ætla ég að fara að andmæla því sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Ég ætla hins vegar að benda á eitt atriði, sérstaklega með tilliti til þess sem hann sagði um færibandavinnuna sem yrði hér á Alþingi ef af þessu Evrópska efnahagssvæði verður, þ.e. að Alþingi muni afgreiða lög á færibandi. Hann talaði reyndar um flæðilínu í því sambandi og tók dæmi um frv. til laga um eftirlit með skipum og ræddi það sérstaklega. Af því að hann tók einmitt það dæmi vildi ég benda honum á að það verður kannski ekki svo mikið um að frv. komi vegna þessa. Það sem stendur til að samþykkja hér, að því er þetta atriði varðar, er heimild til samgrh. til að setja reglugerðir á grundvelli þessa samnings þannig að það fer fram hjá færibandinu. Þetta dettur allt saman niður, Alþingi fær ekki einu sinni að sjá það sem verið er að gera, heldur er það eingöngu gert hjá framkvæmdarvaldinu. Það kemur ekki einu sinni hérna inn þannig að þess flæðilína verður kannski fljótlega tóm ef meiningin er að fara svona að í fleiri málum. Sem betur fer hafa nefndir víða fellt þessa reglugerðarheimild til ráðherrans niður, sem þó kom frá framkvæmdarvaldinu, þ.e. hér komu inn mörg frv. með tillögu um mjög víðtækar heimildir til handa ráðherrum, en víða hefur tekist að afnema það. Í því tilviki sem þingmaðurinn nefndi er það ekki gert, því miður.