Evrópskt efnahagssvæði

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 20:59:20 (7682)


     Jón Helgason :
    Herra forseti. Það hefur verið bent á það í þessum umræðum að hin pólitíska ákvörðun í þessu máli hafi verið tekin í vetur þegar afgreidd voru lögin um heimild til að staðfesta samninginn sem þá var búið að gera en lá fyrir að yrði aldrei fullgiltur. Það má því kannski segja að umræðan sem þá fór fram eigi við um það frv. sem er hér til umræðu.
    Þó hefur einnig verið bent á það hér að í ljós hafa komið ýmis ný atriði sem vissulega eru athugunarverð og vekja nokkurn ugg í brjósti og enn fremur að ýmsar fullyrðingar stjórnarliða í þessum málum hafa ekki staðist. Þar hefur verið bent á að ekki eru fyrir hendi heimildir, sem fullyrt var að við hefðum, um töku aðflutningsgjalda af landbúnaðarvörum sem fluttar yrðu inn. Það hefur einnig verið bent á þá hættu sem okkur stafar af dýrasjúkdómum eða að losað væri á hömlum vegna varna gegn þeim. Í samningnum eru að vísu ákvæði um það að við getum beitt strangari skilyrðum heldur en aðrar þjóðir fram til ársins 1995 en þá á að taka það til endurskoðunar. Miðað við þá reynslu sem við höfum því miður af því hvernig haldið er á málum á sviði landbúnaðarins, hlýtur það auðvitað að vekja ugg í brjósti að slíkt ákvæði skuli ekki vera tryggt lengur ef þannig yrði þá haldið á málstað okkar.
    Einnig hefur verið bent á hvernig utanrrh. hélt á málum í sambandi við bréfaskipti sem sagt er að hann hafi átt við Evrópubandalagið um sérstakt fyrirkomulag í landbúnaði, sem heimilaði frjálsan innflutning á ákveðnum blómategundum og grænmeti, frá 15. apríl. Kappið var svo mikið að koma því á eins og kom fram á fundi landbn. að ekkert hafði verið talað við kóng eða prest um það, þ.e. ekkert var rætt við landbrn. eða neina aðra aðila. Utanrrh. taldi sér heimilt að gera slík bréfaskipti án þess að leita neitt til annarra þótt hann vissi að það stangaðist á við íslensk lög eins og þau eru enn í dag, þó nú liggi fyrir frv. á Alþingi um að breyta því og heimila þennan gjörning afturvirkt. Alþingi er stillt upp við vegg að taka við því sem utanrrh. er búinn að skrifa undir.
    En síðan í vetur má segja að það sé enn þá meiri óvissa í öllum þessum málum í Evrópu eins og einnig hefur verið bent á hér í umræðum. Óvissa um það hvenær eða hvort þessi samningur verður fullgiltur. Ég býst við að flestir viðurkenni a.m.k. að slíkt muni ekki gerast áður en Alþingi kemur saman til fundar aftur að hausti og því augljóst að ekki liggi á að afgreiða þetta mál fyrr en þá og væntanlega yrðu þá málin orðin skýrari á ýmsum sviðum. En þetta kapp stjórnarflokkanna að koma þessu málum fram á sama tíma og þeir halda að sér höndum í efnahagsmálum sem nú brenna á þjóðinni, virðist vera táknrænt fyrir stefnu og hugsjónir ríkisstjórnarinnar. Því miður virðist ríkisstjórnin þannig vera að dansa sinn hrunadans, þ.e. ríkisstjórnin telur það sitt sáluhjálparatriði að koma Íslandi inn í skrifræðisfrumskóg Evrópska efnahagssvæðisins í Brussel. Ákafi ríkisstjórnarinnar í þeim dansi er svo mikill að hún skeytir engu þótt hún sé á meðan að sökkva þjóðinni dýpra og dýpra í efnahagsöngþveiti sem flestum er nú ljóst en biður sífellt um nýjan og nýjan dans, nýja og nýja samþykkt um Evrópska efnahagssvæðið, en það virðist vera að ekki eigi að leggja neinar tillögur um aðgerðir í efnahagsmálunum fyrir þetta þing áður en það lýkur störfum nú í vor.
    Spurningin er því sú, hversu djúpt ætla stjórnarflokkarnir að sökkva þjóðinni með þeirri trú sinni að bjargráð hennar komi frá Brussel og því megi atvinnuvegir hennar reka á reiðanum?
    Spurningin er líka sú hversu lengi ætla kjósendur stjórnarflokkanna að una því að þannig sé haldið á málum? Það er áreiðanlegt að það er annað fremur sem þjóðin þarf nú á að halda heldur en samþykkt þessa frv. Þjóðin þarf á því að halda að stjórnarfarið mótist af nýrri stefnu, nýjum vinnubrögðum og nýrri trú, trú á landið og á íslenska þjóð.