Evrópskt efnahagssvæði

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 21:20:05 (7684)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umræðu frekar en ég get ekki annað en komið hér fram og rætt þessa frávtill. sem flutt hefur verið. Hún var ekki komin fram þegar ég flutti mál mitt hér í uppphafi umræðunnar. Ég verð að lýsa undrun minni yfir því að þessi tillaga skuli komin fram núna. Aldrei var minnst á hana einu orði eða að hún væri væntanleg í umræðum okkar í utanrmn. Ég er því svolítið undrandi að hún skuli koma fram um þetta mál. Ég leit þannig á að menn væru þeirrar skoðunar að hér væri um hreint tæknilegt atriði að ræða. Frv. væri tæknilegt en snerti ekki efnishlið málsins þannig að ég vil láta þessa skoðun mína koma hér fram.
    Auk þess tel ég að það sé mjög hæpið svo ekki sé meira sagt að unnt sé að koma aftur með tillögu á þinginu um það að vísa þessu máli undir þjóðaratkvæði. Tillaga um það efni hefur þegar verið afgreidd á þinginu og henni hefur verið hafnað. Mér finnst því mjög hæpið eins og ég segi að það sé hægt að endurflytja slíka tillögu um þetta sama efni. Ég vildi aðeins láta þessi sjónarmið mín koma fram. Ég hafði ekki tök á því að gera það þegar ég flutti ræðu mína í upphafi af því að tillagan hafði ekki komið fram þegar sú ræða var flutt.