Evrópskt efnahagssvæði

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 21:27:27 (7686)

     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Út af fyrir sig var fróðlegt að heyra svör hæstv. utanrrh. um þetta efni. Mér datt í hug yfirklór í sambandi við svarið. Þegar vísað er til þess að kannski hafi þurft að athuga betur stjórnarskrárbundin ákvæði og eignarréttarákvæði og það standi í Sjálfstfl. í þessu máli er það mjög ljúfmannlega gert af hæstv. utanrrh. að bera það fram, mjög ljúfmannlega. Sannleikurinn er sá að þessi mál hafa verið til umræðu á undanförnum þingum og þar hafa verið kvaddir til aðilar einmitt til þess að fara nákvæmlega yfir þessi efni og það með samkomlagi við núv. hæstv. iðnrh. vegna frv. sem lá í iðnn. fyrir tveimur árum og fyrir einu ári. En síðan urðu þau stórmerki að hæstv. iðnrh. réði annan af tveimur sérfræðingum sem iðnn. hafði fengið til að líta á þessi mál yfir til sín og hefur vafalaust borgað betur en það hefur ekki borið meiri árangur en þetta.

    Hitt efnið er það sem hæstv. ráðherra nefnir sér eða ríkisstjórninni til málsbóta og er það að hér sé tímabundinn frestur í sambandi við málið og að ekki reyni á þetta. Það sé svo sem allt í lagi þó þetta hafi dregist. Málið tengist ekki spurningunni um rekstrarform á orkuveitum sem slíkum. Málið snýst um eignarrétt á náttúruauðlind alveg óháð því hvert rekstrarformið yrði ef viðkomandi fær að hagnýta sér hann. Þetta snýst um það hvort samhliða kaup á jarðeign á fasteign og landi eru keypt réttindi, eru keypt þau auðæfi sem í jörðu eru í formi jarðhita eða orka fallvatna. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það þannig í sambandi við fasteignakaupin að þar sé tímabundin undanþága og þess vegna sé einnig allt í lagi að því er snertir þessi atriði? ( SvG: Hver á Ísland?)