Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 21:46:18 (7695)

     Kristín Einarsdóttir :
    Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. talaði um að náðst hefði víðtækt samkomulag um efni þessarar tillögu. Þetta er væntanlega rétt miðað við það sem fram kemur í nál., að allir hafi skrifað undir. Mér er hins vegar ekki alveg ljóst um hvað náðist samkomulag vegna þess að mér finnst þetta dálítið merkileg tillaga að mörgu leyti og vil ég skýra það nánar.
    Hér segir að Alþingi álykti að í framhaldi af gerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið skuli teknar upp viðræður við Evrópubandalagið um tvíhliða samskipti þess og Íslands. Á þessari stundu er ekki vitað hvort og þá e.t.v. hvenær EES tekur gildi og eru margir sem efast um að það verði nokkurn tíma, þar á meðal hefur hæstv. utanrrh. komið fram með það úr þessum ræðustól að ekkert sé vitað um framhaldið þannig að mér finnst það einkennilegt að leggja fram tillögu núna um tvíhliða viðræður. Það hefði átt að gera það áður en þessi samningur var gerður. Það hefði ég stutt heils hugar. Mér finnst þetta mjög sérkennilegt. Hvenær eiga þessar tvíhliða viðræður að fara fram? ,,Í framhaldi af gerð samningsins`` stendur en ekkert er talað um hvort það á að vera eftir að hann taki hugsanlega gildi þannig að mér þykir þetta dálítið sérkennilegt.
    Ég ítreka það sem ég hef reyndar sagt oft áður að ég hefði viljað fara þá leið að gera tvíhliða samning vð Evrópubandalagið. Það var eitt af því sem Kvennalistinn lagði til á sínum tíma, en mér finnst mjög sérkennilegt að leggja til að taka upp tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið á þessum tímapunkti, þ.e. hér og nú. Þess vegna er mér hulin ráðgáta hvernig þetta á eiginlega að ganga upp.
    Síðar í tillögunni kemur fram að þetta skuli gert einkum með hliðsjón af því að Austurríki, Finnland, Noregur og Svíþjóð hafa sótt um aðild að bandalaginu. Það er alveg rétt að þessi EFTA-ríki hafa sótt um aðild en ekkert liggur fyrir um niðurstöðuna. Það bendir ýmislegt til þess að aðild verði hafnað af almenningi. Sérstaklega gildir þetta um Noreg en það er ýmislegt sem bendir til að sama muni gilda bæði um Finnland og Svíþjóð, en þar hefur andstaðan við EB aukist jafnt og þétt. Síðustu fregnir herma að í Austurríki beri einnig meira á andstöðu þannig að enginn veit hvernig þessu lyktar. Ég er með fyrir framan mig skoðanakönnun frá Svíþjóð sem birtist 14. mars sl.. Þar kemur fram veruleg andstaða við aðild Svíþjóðar að EB, sérstaklega mikil andstaða hjá konum og ungu fólki.
    Þó að umsóknirnar frá þessum ríkjum liggi fyrir, þá er allsendis óvíst að þær verði nokkurn tíma aðilar að EB þannig að því leyti til finnst mér þessi tillaga líka dálítið sérkennileg svo ekki sé meira sagt. Ég tel hins vegar að hún sé ekkert skaðleg, það sakar ekkert að þessi tillaga skuli sett hér fram og ef einhverjum finnst gott að samþykkja hana þá felst ekkert í henni. Það hefur verið talað um að það sé mikilvægt að Íslendingar sameinist um það að sækja ekki um aðild að Evrópubandalaginu og ég yrði mjög fegin ef það væri niðurstaðan, en mér finnst það ekki beinlínis felast í þessari tillögu. En eins og ég sagði áðan er hún auðvitað ekki til neins skaða í sjálfu sér, en það er ákaflega lítið gagn af henni að mínu mati og ég átta mig ekki alveg á af hverju hún er tímabær einmitt á þessum tímapunkti og vildi ég spyrja hv. 3. þm. Reykv. að því sérstaklega.
    Mig langar einnig að gera að umræðuefni niðurlagsgrein eða niðurlagsorð, reyndar 4--5 línur í nál. utanrmn. en þar er talað um mál sem ég tel ekkert koma þessu máli neitt sérstaklega við, en nefndin hefur greinilega talið svo vera, en þar segir að nefndarmenn séu sammála um að utanrmn. gegni lykilhlutverki af hálfu Alþingis um framvindu mála á vettvangi EES. ( SvG: Þeir eru bara að lýsa trausti á sjálfa sig.) Það er einmitt það sem ég var að hugsa eins og frammíkallari segir, að þarna er nefndin raunverulega að lýsa víðtæku trausti á sjálfa sig og er nokkuð merkilegt að setja þetta fram í þessu nál. án þess

að það hafi verið rætt neitt á vettvangi Alþingis. Það er kannski út af fyrir sig ekkert óeðlilegt að utanríkismálanefndarmenn komist að því að þeir eigi að gegna lykilhlutverki í sem flestum málum. Ég vil benda á að til þeirra er vísað öllum mögulegum málum, t.d. á sviði umhverfismála sem ég hefði talið eðlilegt að umhvn. tæki til umfjöllunar, þ.e. alþjóðasamninga á sviði umhverfismála, og sakna ég þess á vettvangi þeirrar nefndar að við fengjum ekki að fjalla meira um það mál en utanrmn. taldi að við ættum að gera, en það er nú kannski annar handleggur. Ég er ekkert alveg viss um það að ég telji að utanríkismál eigi að gegna lykilhlutverki á þessu sviði. Ég vil minna á að í Danmörku er sérstök Evrópunefnd starfandi sem kallast marketsudvalget sem sér um þessi mál af hálfu þess þings, Folketinget, og ég hefði talið koma til greina að það sama yrði gert af hálfu Alþingis. Það hefur hins vegar ekkert verið rætt að því er ég held neitt sérstaklega nema þá greinilega á vettvangi utanrmn. En ég vildi nú gera athugasemd við þetta. Það getur svo sem vel verið að niðurstaðan verði sú sem þarna er lagt til en ég hefði talið eðlilegra að einhverjir aðrir en einmitt þeir sem sitja í utanrmn. fjölluðu um þetta mál. Ég vil kannski sérstaklega geta þess vegna þess að þetta er sett fram þarna í þessu nál. að ég lít ekki svo á að þó að Alþingi samþykki hugsanlega þessa tillögu að það eigi að samþykkja þetta atriði. Þetta kemur einungis fram í nál.
    Vegna þessarar tillögu vil ég taka það fram að ég hef ekki hugsað mér að greiða atkvæði gegn þessari tillögu þó að mér finnist hún dálítið skrýtin. Það er ekki þess vegna sem ég er að gera athugasemdir við hana því að ég held að hún sé ákaflega saklaus og skipti í raun ekki neinu máli. En ég endurtek það að mér er hulin ráðgáta hvers vegna hún er flutt á þessum tímapunkti.