Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 21:56:32 (7697)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Það er ágætt að nefndin hafði árangur sem erfiði a.m.k. varðandi einn þingmann sem hér stendur. En það liggur nú við að ég verði að lýsa trausti á utanrmn. sérstaklega ef hún afgreiðir allar tillögur sem til hennar koma því að það gildir ekki um aðrar nefndir. ( SvG: Þetta er væntanlega yfirlýsing yfir línuna.) Að því leyti til verð ég að hrósa utanrmn. sérstaklega ef allar tillögur sem til hennar koma eru afgreiddar og þá væntanlega afgreiddar á jákvæðan hátt og það eru fluttar brtt. ef það er talin ástæða til.

    Hv. þm. sagði að það hefði þurft að stoppa tillöguna fyrr í þinginu. Það þótti mér einkennilegt. Það er ósköp eðlilegt að tillögum sé vísað til nefnda og þær séu meðhöndlaðar þar. Síðan kemur í ljós hvað nefndin vill gera og við ræðum það hér við 2. umr. eins og verið er að gera núna. Ég er alls ekki að tala um það að þessi tillaga sem kemur frá utanrmn. eða reyndar brtt. sé neitt skaðleg og eins og ég segi, ég ætlaði ekki að reyna að stoppa þessa tillögu, mér finnst engin ástæða til þess, ég hef ekki lýst því yfir að ég ætli að greiða atkvæði gegn þessari tillögu. Það hef ég ekki gert og mun ekki gera. En það breytir ekki því að mér finnst hún vera ótímabær og ekki vera beinlínis í takt við tímann.