Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 21:58:02 (7698)

     Frsm. utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég get ekki annað en endurtekið það sem ég sagði. Ástæðan fyrir því að þessi tillaga er hér, ef það fer fyrir brjóstið á hv. þm., er sú að hún var lögð fram í þinginu og nefndin tók hana til afgreiðslu og hefur afgreitt hana með þessum hætti þannig að mér finnst það einkennilegt að það skuli vera ámælisvert að nefndir taki afstöðu til þeirra mála sem lögð eru fram í nefndunum og komi síðan með sína niðurstöðu. En ef hv. þm. er á móti efni tillögunnar sem hann virðist ekki vera, þá veit ég ekki til hvers allar þessar ræður eru og hvers vegna er verið að agnúast út í nefndina fyrir að hafa afgreitt málið samhljóða frá sínum dyrum. ( Utanrrh: Það var verið að spyrja um hvað samkomulagið væri.)