Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 21:59:47 (7700)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Tvíhliða viðræður. ( JGS: Stefna Alþýðubandalagsins.) Þetta er búið að ganga í gegnum umræðu í tengslum við þennan samning um Evrópskt efnahagssvæði allar götur frá því a.m.k. samningaviðræður hófust og vissulega einnig áður en Evrópskt efnahagssvæði kom á dagskrá.
    Það er rétt aðeins að fara svolítið yfir það efni hvernig þetta hugtak, tvíhliða viðræður, hefur komið inn í umræður um þennan samning og í tengslum við hann. Ég vil nefna það fyrst til sögunnar að minn flokkur, Alþb., markaði þá stefnu á landsfundi sínum í nóv. 1989 sem aðalandsvar við hugmyndunum um samning um Evrópskt efnahagssvæði að í stað þess að leita samninga á þeim grundvelli sem markaður var í Ósló í mars 1989 yrði leitað eftir gerð tvíhliða samnings við Evrópubandalagið á þeim grundvelli sem fyrir liggur í samningnum frá 1972 sem tók gildi 1976 og til frekari hagsbóta fyrir Íslendinga í þeim samskiptum. Þetta hefur Alþb. ítrekað síðar sem þann kost sem það hefur vísað til í stað samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og það er alveg skýrt um hvað verið er að tala í því samhengi. Það er ekki verið að tala um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, hvorki að hann gangi í gildi né taki gildi heldur að í stað hans væru teknar upp viðræður, leitað samninga við Evrópubandalagið um gerð tvíhliða samnings.
    Það gerðist svo hins vegar í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar hinnar síðari þar sem Sjálfstfl. og Kvennalisti voru í stjórnarandstöðu, að Sjálfstfl. hafði ekki eina

skoðun á því hvernig bregðast skyldi við þeim samningaviðræðum sem hófust um áramótin 1989--1990 eða í framhaldi af því og fram kom tillaga frá þremur þingmönnum, ef ég man rétt, hv. 4. þm. Reykv. sem 1. flm. og hv. þáv. þm. Ragnhildi Helgadóttur og hv. núv. 15. þm. Reykv. sem talaði hér áðan um að leitaði yrði samninga eða leitað yrði viðræðna, tvíhliða viðræðna við Evrópubandalagið um samskiptamál Íslands og þess og gott ef ekki var vísað sérstaklega í bókun 6 í því sambandi, a.m.k. í greinargerð. Þetta var fram sett sem kostur á móti þeim samningaviðræðum sem fram voru að fara af hálfu, a.m.k. eins og ég skildi það, hv. 4. þm. Reykv. á þeim tíma sem auðvitað var þá þegar andsnúinn þessum samningaviðræðum þó að það lægi ekki jafnskýrt fyrir eins og síðar varð og reiddi þetta fram sem andsvar við þeim samningaviðræðum. Og sama gilti um fulltrúa Kvennalistans, hv. þm. Kristínu Einarsdóttur sem stóð að þessari tillögu. Og talsmenn Sjálfstfl. spiluðu svona undir, forustumenn á lágu nótunum. Þetta væri ágætt að hafa þetta líka í farteskinu en lýstu jafnframt fullu trausti á hæstv. utanrrh., þann sama og nú gegnir því embætti, og þær viðræður sem hann stóð fyrir í nafni þáv. ríkisstjórnar, þannig að Sjálfstfl. lék auðvitað fullkomlega tveimur skjöldum á þeim tíma í þeim efnum og spilaði þessu svona aðeins út eða tók undir þetta til þess að lægja öldurnar hjá þeim sem óánægðastir voru með samningaviðræðurnar um EES innan þingflokks og á vettvangi flokksins annars staðar. Þetta leyfi ég mér að rifja hér upp, virðulegur forseti, í sambandi við þessa tillögu sem hér liggur fyrir frá utanrmn. sem flutt er í framhaldi af tillögu tveggja hv. þm. Framsfl. eins og hér hefur komið fram og menn þekkja.
    Ég vil með þessu vekja athygli á því að það er sitt hvað hvenær og hvernig mál eru fyrir lögð hvað í þeim felst. Tillagan hér um samning við Evrópubandalagið er auðvitað allt annars eðlis en tillögur sem bornar voru fram sem andsvar við EES, er allt annars eðlis en eitthvert millispil frá einstaka þingmönnum á meðan á samningaviðræðunum stóð. Nú er verið að afgreiða þennan samning hér á Alþingi og eftir sólarmerkjum að dæma er meiri hluti fyrir þessum samningi og þá flytur utanrmn. þingsins tillögu til þál. um tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið eins og þetta á að heita. Og hv. formaður utanrmn. er óskaplega ánægður yfir því að hafa náð saman um þessa tillögu, telur það hafa gildi út á við og einnig inn á við og segir að tillagan byggist á því að það verði gengið til tvíhliða samskipta. En það sem ég tók nú sérstaklega eftir úr framsöguræðu hv. formanns utanrmn. var það að það væri hagstætt fyrir stjórnmálaástandið að víðtæk samstaða tækist um málið. Þetta eru alveg stórtíðindi. Hér er bara kominn allsherjarfriður að því er virðist, allsherjarfriður í tengslum við mál sem deilt hefur verið um og þjóðin skiptist í tvær fylkingar um, heimtar þjóðaratkvæðagreiðslu og fær hana ekki, líklega traustur meiri hluti á móti þessu máli meðal þjóðarinnar ef til atkvæða væri gengið, en svo er komið hér með tillögu af þessum toga af því að það er hagstætt fyrir stjórnmálaástandið að víðtæk samstaða takist um málið, um tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið eins og þetta barn á nú að heita.
    Virðulegur forseti. Það er ágætt svo langt sem það nær að halda svona friðarstundir inn á milli í orrustu, að lofa liðinu að hvílast um skeið á meðan menn eru að ná vopnum sínum eins og einhver hefur nú sagt á nýjan leik og takast á um ágreiningsefni. Og ég ætla helst ekki að spilla þessu rómantíska ástandi og niðurstöðu sem hefur tekist á vettvangi utanrmn. sem lýsir með tillögunni og nál. yfir sérstöku trausti á sjálfri sér til þess að gegna lykilhlutverki með því að fylgjast með viðræðum. Að vísu held ég að það hafi verið aðrar viðræður, viðræður annarra ríkja við Evrópubandalagið en ekki þessar viðræður sem hér á að efna til. Og ég mun auðvitað reyna að ganga varlega um dyrnar til að trufla ekki þessa friðarstund, þessa rómantísku friðarstund sem tekist hefur á vettvangi utanrmn. og leitast er nú við að flytja hér inn í þingið.
    Ég vil samt leyfa mér, virðulegur forseti, að bera fram fáeinar spurningar sem tengjast tillögunni ef það telst við hæfi, virðulegur forseti. Til þess að auðvelda þeim sem ég beini spurningunum til, sem eru hv. formaður utanrmn. og hæstv. utanrrh., og bið þá að svara þeim helst báðir ( JGS: Í einu?) og hverri fyrir sig, þá vil ég biðja virðulegan forseta um að miðla þessum blöðum ef hægt væri að koma þeim áleiðis til hæstv. utanrrh.

og formanns utanrmn. þeim til glöggvunar í sambandi við þessa umræðu.
    Þetta eru sjö spurningar. Þær eru nú ekki fleiri en vissulega mætti margar fleiri fram reiða. Ég held að það sé við hæfi að báðir hv. þm. og hæstv. ráðherra þeir svari þessu hverri fyrir sig og geta þá auðvitað eftir efni beitt sér misjafnlega að því. Sumum er reyndar beint beinlínis til utanrrh., þ.e. tveim spurningum af þeim sem ég mun hér að víkja.
    Það fyrsta sem ég spyr um í sambandi við þessa tillögu er:
    Hvert er fyrirhugað efni eða innihald þeirra viðræðna við Evrópubandalagið um hugsanlegan tvíhliða samning við Evrópubandalagið sem tillagan gerir ráð fyrir?
    Hvert er það efni og um hvað á að ræða? Það finnst mér nú skipta dálitlu máli að verði upplýst hér á þinginu áður en menn fara að blessa þetta afkvæmi. ( JGS: Lestu þetta úr bók Alþýðubandalagsins?) Er það virkilega svo að hér mitt í helgistundinni séu menn farnir að ókyrrast í röðum þingflokks Framsfl., nú þegar bara. Þetta finnst mér raunalegt ef svo er og fullkomlega tilefnislaust.
    Í öðru lagi: Eru þeir sem standa að tillögunni frá utanrmn. að lýsa því yfir að aðild Íslands að Evrópubandalaginu komi ekki til greina?
    Eru þeir að lýsa því yfir? Það er látið að því liggja í greinargerð með tillögunni að eitthvað sé verið að tala í þá áttina og þá er nú eðlilegt að gera bragarbót og færa það upp í aðaltillögutextann ef það er stefnan sem hér er verið að boða. Það skal ekkert standa á því að sá sem hér talar taki undir það sjónarmið að aðild Íslands að Evrópubandalaginu komi ekki til greina og Alþingi Íslendinga lýsi því yfir. Ég les hér í nál. um tillöguna, svo ég leyfi mér að tengja það við þessa spurningu: ,,Að mati nefndarinnar er ákaflega mikilvægt að enginn vafi sé um afstöðu Íslands til Evrópubandalagsins (EB).`` Það stendur að vísu ekki hvort það er núverandi EB eða Maastricht-EB, hvort það er ,,unionin`` eða samveldið. Það er ekki tekið skýrt fram en skiptir þó nokkru. En auðvitað, þeir sem mundu lýsa yfir stuðningi í dag þeir væru að lýsa yfir stuðningi við Maastricht því er það sem koma skal á þeim vettvangi. Ákaflega mikilvægt að enginn vafi sé á afstöðu Íslands til Evrópubandalagsins. Ég skora á utanrmn. að gera hér bragarbót og færa ótvíræða afstöðu um þetta efni inn í tillögutextann þannig að það fylgi skilaboðum. Annars liggur hér ekkert fyrir ótvírætt.
    Í þriðja lagi vildi ég spyrja hæstv. ráðherra og hv. formann utanrmn., og þegar ég nefni ráðherrann til sögunnar þá geri ég að sjálfsögðu ráð fyrir að þessi tillaga sé fram borin í fullu samráði við hæstv. ráðherra --- ég vil ekki segja fyrir tilstuðlan því tilefnið mun vera tillögur frá tveimur hv. þm. Framsfl. Þetta hlýtur að vera í nánu samráði við hæstv. utanrrh. að þessi tillaga liggur hér fyrir þinginu því það er auðvitað hæstv. ráðherra sem er ætlað að framfylgja málinu.
    Hvaða samhengi sjá tillögumenn milli umsókna fjögurra EFTA-ríkja að Evrópubandalaginu og þeirra viðræðna við Evrópubandalagið um tvíhliða samskipti sem tillagan gerir ráð fyrir? Þetta er hér inni í tillögutextanum að það sé einkum með hliðsjón af því að Austurríki, Finnland, Noregur og Svíþjóð hafa sótt um aðild að bandalaginu. Hvað er það sem hér er verið að tengja saman? Eru menn að lýsa þarna alveg sérstökum áhuga á því að fylgjast með þessum viðræðum? Það gefur undir fótinn með eitthvað annað, að það gæti legið einhver annar fiskur undir steini í sambandi við það hver eigi að vera framtíðarstefnan gagnvart Evrópubandalaginu. Það kynni að vera að sumir af þeim sem hafa verið að boða það á Alþingi sem stefnu sína að æskilegt sé að tengjast Evrópubandalaginu, að ganga í Evrópubandalagið, hefðu nú áhuga að vitað hvernig þetta gengur og meta það út frá því sjónarhorni. Ég er ekki að ætla tillögumönnum það hér, ég tek það fram. En þetta samhengi þarf auðvitað að skýra. Það er ekkert að þessu frekar vikið að því er mér sýnist. Ef menn eru að vísa til þess að Evrópskt efnahagssvæði sé eitthvað sem muni geispa golunni fyrr eða seinna ef það kemst á á annað borð þá geta menn auðvitað haft misjafnar skoðanir á því en eins og ég hef sagt hér nokkrum sinnum úr þessum ræðustóli síðustu mánuði þá sýnist mér að það séu ekki sólarmerki á því að það verði tjaldað til einnar nætur í þessu EES. Því miður út frá því sjónarhorni að það hefði aldrei átt að komast á en sem betur fer að það er ekki útlit fyrir að það verði svo auðvelt að kippa hinum Norðurlöndunum inn í Evrópubandalagið. Og í Noregi eru dyr harðlæstar. Þið þurfið ekki annað en virða fyrir ykkur, hv. þm., Gallup-kannanir síðustu tíu mánaða sem allar ber að sama brunni, yfirgnæfandi meiri hluti á móti umsókninni, á móti aðild Noregs að Evrópubandalaginu. 45% sem svör gáfu núna 21. apríl í Gallup-könnun, 45% aðspurðra segja nei, 28% segja já og 25% vissu ekki hvaða skoðanir þeir hefðu. Þetta var staðan í síðustu Gallup-könnun og í könnunum undanfarna mánuði hefur iðulega verið 50% hreinn meiri hluti þar á móti. Og það stefnir í ósköp svipað í Svíþjóð. Þar er andstaðan mjög að herðast að vonum þegar menn sjá framan í það hvaða kostir eru búnir tengdir við aðild. Svoleiðis að ef það er það sem verið er að vísa til hér þá getur nú orðið þess langt að bíða að upp verði teknar tvíhliða viðræður eða að efni standi til þess með tilliti til þess að EES sé fyrirbæri sem sé horfið af sjónarsviðinu eftir eitt til tvö ár. En það væri svo sem staðan ef óskir stjórnvalda, sem hafa lagt inn aðildarumsókn, á Norðurlöndunum þremur og það gengi eftir, sem ekki eru miklar horfur á að verði. Það er reyndar komin upp sú sérkennilega staða í Finnlandi, virðulegur forseti, að þar var settur til verka af Esko Aho í utanríkisráðherraembætti til að taka við af Väyrynen sem ætlar að fara að keppa að forsetatign í Finnlandi, settur til verka af miðflokknum finnska, finnska framsóknarflokknum, andstæðingur EB-aðildar, ( Utanrrh.: Formaður stéttarsambands bænda.) formaður stéttarsambands bænda, segir hæstv. utanrrh., settur til að verka sem utanríkisráðherra og á að taka við 5. maí. Þótti auðvitað mörgum merkilegt en er væntanlega til að halda ballans í flokknum. Kannski að formaður Framsfl. gæti eitthvað af lært ef hann hefði tök á því að skipa ráðherraembættum. ( BBj: Er hann ekki skoðanabróðir Ahos?) En svo vildi hins vegar svo illa til að það var upplýst nú á dögunum að þessi ágæti maður sem þarna var settur til verka --- það er tvísýnt um hvort hann í rauninni sest í þennan stól vegna óhapps sem hann varð fyrir fyrir tveimur árum eða svo í sambandi við umferðaróhapp ef ég hef skilið fréttir rétt af þeim vettvangi og er það mjög til umræðu í Finnlandi. En það er annað mál. Hér er sem sagt spurt um samhengið milli þessarar tillögu og umsóknar þessara fjögurra EFTA-ríkja að Evrópubandalaginu og þessara viðræðna um tvíhliða samskipti.
    Þá vil ég spyrja í fjórða lagi og því er sérstaklega beint til utanrrh.: Mun utanrrh. tilkynna framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins um slíka samþykkt Alþingis strax að henni gerðri? Það ganga væntanlega atkvæði hér og það er nú þannig að þessu staðið að vart þarf að efa að blessun hljóti hér á þinginu. Mun ráðherrann þá strax að samþykktinni gerðri koma henni á framfæri við Alþingi? Þarfnast þá samþykktin skýringar við í ljósi orða formanns utanrmn., sem kom með þá einkennilegu textaskýringu hér áðan að með tillögunni eins og hún liggur fyrir og í upphafi hennar þar sem segir: ,,Alþingi ályktar að í framhaldi af gerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið skuli teknar upp viðræður``, að það beri að skilja svo eftir að samningurinn hefur verið staðfestur af öllum og genginn í gildi? En það stendur ekki í tillögunni. Þannig að ég tel nú að ef fylgja á tillögunni eftir þá hljóti utanrrh. að koma þessu á framfæri þegar að tillögunni samþykktri því ég veit ekki betur en að hæstv. utanrrh. hafi staðið að gerð þessa samnings með undirritun hans og hefur haldið því fram að hann sé þjóðréttarlega gildur strax og ráðherrar hafi skuldbundið sig með undirskrift.
    Þá jafnframt sem framhald af þessari fyrirspurn: Hyggst utanrrh. óska eftir þessum viðræðum áður en ljóst er hvort samningurinn um EES verður staðfestur? Hyggst ráðherrann óska eftir viðræðunum áður? Það getur jú skipt nokkru því að margir mundu hafa kosið að slíkar viðræður hefðu farið fram fyrir lifandis löngu og hefði verið kostur á móti þessum samningi en það er auðvitað ekki það sem hér er verið að leggja til.
    Þessu tengist einnig: Mun ríkisstjórnin leita eftir viðræðum um tvíhliða samning við Evrópubandalagið ef EES-samningurinn gengur ekki í gildi og útiloka þannig og þá um leið að sótt verði um aðild Íslands að Evrópubandalaginu? Er þetta allt svo leiðin sem verið er að marka sem stefnu Alþingis, sem stefnu fyrir framkvæmdarvaldið að fari svo að EES-samningurinn gangi nú ekki í gildi þá er þetta leiðin, það er tvíhliða samningur en það er alls ekki aðild að Evrópubandalaginu? Þetta þarf auðvitað að vera alveg skýrt að það sé þetta. Og þó ég ætli ekki að fara að gefa út neinar prósentur um líkurnar á því hvort

eða hvernig muni fara, hver muni verða örlög EES hvort EES-samningurinn verði staðfestur, hljóti staðfestingu en óvissa er þarna og þá er þetta auðvitað spurning sem skiptir máli. Síðan að lokum, virðulegur forseti, varðandi þessar fyrirspurnir af minni hálfu varðandi þennan texta. Hver yrði hlutur utanrmn. Alþingis? Það er auðvitað eðlilegt að formaður nefndarinnar svari því. Hver yrði hlutur utanrmn. Alþingis við undirbúning þeirra viðræðna sem tillagan gerir ráð fyrir? Ekki að fylgjast með viðræðunum við þá sem eru að sækja um aðild að Evrópubandalaginu sem vikið er að í niðurlagi greinargerðar heldur varðandi þær viðræður um tvíhliða samskipti, hugsanlegan tvíhliða samning sem tillagan gerir ráð fyrir?
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég tel að hér hafi komið fram þær spurningar sem ég hef varðandi þennan texta og ég treysti hæstv. utanrrh. til að greina frá sínu áliti á þessu máli. Ég er viss um að ráðherrann gerir það enda skiptir það mjög verulegu máli hvernig á svona er haldið. Hvað felst í þessum texta sem hér liggur fyrir? Hverju eru menn að ná fram? Hver er þessi vilji Alþingis sem verið er að lýsa hér með þessari tillögu?
    Það mátti heyra á framsögumanni tillögunnar að það væri nú hægt að lesa með ýmsum hætti í þennan texta. Hann lauk í rauninni sinni framsögu þannig. Það er nú ekki mjög vænlegt í sambandi við stór alþjóðamál að hafa hlutina þannig að hver geti sungið með sínu nefi, þeir sem ætla að halda málum öðrum megin og þess vegna jafngott að það fylgi nokkuð skýrt af hálfu utanrmn. hvað er hér á ferðinni, hvað felst í þessu og af hálfu hæstv. utanrrh. hvernig honum líst á þetta nýja erindisbréf sem hann var að fá hér í hendurnar til þess að framfylgja fyrir hönd Alþingis.