Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 23:17:52 (7711)


     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Reykv. fyrir skýr svör við þessum fyrirspurnum af minni hálfu á sama hátt og hæstv. utanrrh. veitti þar úrlausn af sinni hálfu. Ég vænti þess að þessi umræða og viðbrögð þeirra m.a. við þessum spurningum mínum hafi orðið til þess að skýra fyrir mönnum hvernig hv. þm. og hæstv. ráðherra líta á efni þessarar tillögu. Hitt kann auðvitað að vera og verður ekki úr skorið hér hvort aðrir sem að tillögunni standa líta hana eitthvað öðrum augum. Eins og oft vill verða um texta þá gefur hann svigrúm til misjafnra túlkana. En mér sýnist að þessi tillaga boði í rauninni engin sérstök tíðindi miðað við nútíðina. Það sé alveg óráðið hvenær á það reyni að slíkar viðræður fari fram miðað við þær forsendur sem hv. þm. Björn Bjarnason og hæstv. utanrrh. eru hér að boða. Það er að það sé fyrst ef EES fer á hliðina eða gufar upp eða að því væri komið eftir þeirra túlkun að á það reyndi að taka upp viðræður og þá á grundvelli þess samnings sem hér liggur til afgreiðslu í þinginu. Þetta finnst mér nú vera kjarninn í þessum yfirlýsingum jafnhliða því sem báðir hv. þm. sem ég hér nefndi hafa tekið það skýrt fram að með þessu væru þeir ekki að útiloka að aðild að Evrópubandalaginu gæti komið á dagskrá síðar eftir því sem mál þróast. Það fannst mér einnig koma fram. Ég mun íhuga í ljósi þessa sem hér hefur komið fram mína afstöðu til þessa máls hér og tel ekki ástæðu til að kveða upp úr um það. En mér sýnist þó að það sé ekki ástæða fyrir mig að ganga gegn tillögunni eða greiða atkvæði gegn henni því að hún sé í rauninni sárameinlaus þannig, segi ekki mikið og boði engin ný tíðindi.