Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 23:20:28 (7712)


     Frsm. utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Það var eitt atriði sem ég vildi nefna að hv. þm. í athugasemdum sínum virtist ekki átta sig á því sem var þó komið fram áður að ætlunin er að tilkynna nú þegar um þessa ályktun Alþingis. Og það er þarna verið að fjalla um að undirbúa stöðu Íslands í ljósi þess að Evrópska efnahagssvæðið verði að veruleika og að það verði tilkynnt um þessa pólitísku ákvörðun sem hér er tekin en að sjálfsögðu er það ljóst að á meðan Evrópska efnahagssvæðið er við lýði og við erum aðilar að því og höfum gert þann samning við það sem fyrir liggur þá er ástæðulaust fyrir okkur að fara að ræða við Evrópubandalagið um einhvern sérstakan tvíhliða samning. En aðalatriðið er á þessu óvissustigi sem kann að skapast og vera vegna aðildarumsóknar þessarra ríkja þá liggur alveg ljós fyrir sú stefnumótun sem felst í þessari tillögu. Og eins og hér segir að Alþingi feli ríkisstjórninni að tilkynna Evrópubandalaginu um þessa pólitísku stefnumótun sem er eins og fram hefur komið spurningin um það að það ríki enginn vafi um afstöðu Íslands.