Húsnæðisstofnun ríkisins

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 10:34:57 (7722)

     Frsm. meiri hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1011 um frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins frá meiri hluta félmn.
    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem greina má í þrjá meginþætti, breytingu á stjórnsýslulegri stöðu Húsnæðisstofnunar ríkisins, brottfall skyldusparnaðar og að tækni- og þjónustudeild stofnunarinnar verði lögð niður. Á fund nefndarinnar komu frá fjármálaráðuneytinu Halldór Árnason skrifstofustjóri og Magnús Pétursson ráðuneytisstjóri, Ingi Valur Jóhannsson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, frá Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna Birgir Björn Sigurjónsson og Páll Halldórsson, frá Alþýðusambandi Íslands Hervar Gunnarsson, Guðmundur Gylfi Guðmundsson og Grétar Þorsteinsson, Rannveig Sigurðardóttir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Hrafnhildur Stefánsdóttur frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Hjörtur Eiríksson frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og frá Húsnæðisstofnun ríkisins Yngvi Örn Kristinsson, Sigurður Guðmundsson og Hilmar Þórisson. Þá komu á fund nefndarinnar, sérstaklega vegna þess þáttar frumvarpsins er snertir stjórnsýslulega stöðu Húsnæðisstofnunar, Jón L. Arnalds héraðsdómari, Páll Hreinsson lögfræðingur, Ragnar Aðalsteinsson hrl. og frá Ríkisendurskoðun Sigurður Þórðarson og Jón L. Björnsson. Enn fremur bárust nefndinni umsagnir frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Alþýðusambandi Íslands, stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneytinu.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Breytingar þær, sem lagðar eru til, eru flestar þess eðlis að ekki þarfnast skýringa.
    Við umræður um frv. áður en það var afgreitt til nefndar kom fram gagnrýni á að með frv. væri verið að færa Húsnæðistofnun ríkisins inn í félmrn. Ráðherra skýrði þær greinar sem gagnrýndar voru og í máli ráðherra kom fram að gagnrýnin væri tilhæfulaus. Þeim brtt. sem meiri hluti félmn. setur fram er m.a. ætlað að leiðrétta þann misskilning og orðalagsbreytingar árétta stöðu stofnunarinnar gagnvart ráðuneytinu.
    Lagt er til að í nýrri málsgrein, er bætist við 2. gr., verði sérstaklega kveðið á um hvernig fara eigi með kostnað af rekstri Húsnæðisstofnunar ríkisins. Með frumvarpinu er lögð til sú breyting frá gildandi lögum að fjallað verði um innra skipulag stofnunarinnar í reglugerð en ekki í lögum svo sem nú er. Talið er eðlilegt að kveðið verði á um skiptingu rekstrarkostnaðar Húsnæðisstofnunar í lögum. Þannig verði kostnaðinum skipt á milli þeirra sjóða sem stofnunin rekur, að teknu tilliti til umfangs í rekstri þeirra og útistandandi eigna.
    Lagt er til að í stað 1.--2. efnismgr. 1. gr. komi ný málsgrein er orðist svo:
    ,,Húsnæðisstofnun ríkisins er ríkisstofnun er lýtur sérstakri stjórn og heyrir undir félmrh. sem fer með yfirstjórn húsnæðismála.``
    Þá er lagt til að við 2. gr. bætist ný málsgrein er orðist svo:
    ,,Kostnaði við rekstur Húsnæðisstofnunar ríkisins skal skipta á milli þeirra sjóða sem stofnunin rekur, að teknu tilliti til umfangs í rekstri þeirra og útistandandi eigna í lok reikningsárs. Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þessarar greinar.``
    Við 3. gr. er lögð til sú breyting að þingkjörnum stjórnarmönnum Húsnæðisstofnunar ríkisins verði fjölgað úr fimm í sjö.
    Breytingin á 3. tölul. 4. gr. felur í sér að á brott falli skylda Húsnæðisstofnunar til að leita staðfestingar ráðherra á forsendum lánveitingar og skiptingu lánsfjár milli útlánaflokka áður en ákvörðun um útlán er tekin.
    Breytingin á 8. gr. felur í sér áréttingu þess að húsnæðismálastjórn semur sjálf við lánastofnanir

um afgreiðslu og innheimtu lána, að fengnu samþykki félagsmálaráðherra, í stað þess að frumvarpið gerir ráð fyrir að slíkt sé bundið við reglugerðarsetningu ráðherra. Efnismálsgreinin samkvæmt þessari tillögu orðast þá svo:
    ,,Húsnæðismálastjórn skal, að fengnu samþykki félmrh., semja við viðskiptabanka og aðrar fjármálastofnanir um afgreiðslu og innheimtu lána.``
    Lögð er til sú breyting að við 9. gr. bætist nýr málsliður er kveði á um að fjárhagur húsbréfadeildar skuli aðskilinn frá öðrum þáttum í starfsemi Byggingarsjóðs ríkisins. Breytist þá 12. gr. og í stað orðanna ,,Ráðherra getur með reglugerð heimilað að Húsnæðisstofnun semji`` í 1. málslið efnisgreinarinnar komi: Húsnæðismálastjórn skal, að fengnu samþykki félmrh., semja.
    Þá er lagt til að skv. 19. gr. verði byggingarsamvinnufélögum gert að greiða fyrir þá aðstoð er Húsnæðisstofnun veitir þeim vegna byggingarframkvæmda.
    Með þessu frv. er stjórnsýsluleg staða Húsnæðisstofnunar ríkisins ákvörðuð. Henni er ætlað að vera sérstök ríkisstofnun sem heyrir beint undir ráðherra en ekki að vera í hópi þeirra ríkisstofnana sem flokkast sem sjálfstæðar ríkisstofnanir eins og t.d. ríkisbankar.
    Félmn. fékk þá aðila sem þegar hafa verið nefndir á sinn fund til að fjalla um stjórnsýslulega stöðu ríkisstofnana almennt og skilgreiningu á því hvaða munur er á stjórnsýslulegri stöðu þeirra og var sú yfirferð afar gagnleg fyrir nefndina.
    Varðandi sjálfstæðar ríkisstofnanir, þá eru þær óháðar, settar til hliðar við ráðuneyti og ekki ætlast til að ráðherrar hafi mikið yfir þeim að segja. Húsnæðisstofnun ríkisins er mjög mikilvæg varðandi hagsmuni fjölskyldnanna í landinu og ekki sama eðlis og t.d. bankastofnun. Því er eðlilegt að hún sé sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir ráðuneyti. Hún fær fjármagn á fjárlögum sem henni er ætlað að ráðstafa með tilliti til, má segja, bæði jöfnunar- og byggðasjónarmiða. Vísa ég þar m.a. til þess hve vandasamt það oft er að feta veg sanngirnis, óska og þarfa í úthutunum félagslegra íbúða svo nefndur sé einn af stóru þáttunum í starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins, félagslegar íbúðabyggingar.
    Við höfum oft viljað kalla ráðherra til ábyrgðar í málefnum stofnunarinnar og það er ráðherra sem liggur undir ámæli hverju sinni ef málum vindur ekki fram eins og vænst er. Við þekkjum það öll hér inni. Í umræðum í nefndinni var m.a. rætt um kærurétt lægra setts stjórnvalds til hærra setts í stofnunum sem tilheyra sérstökum ríkisstofnunum. Virtust deildar meiningar um þann málskotsrétt. Einstaklingur hefur haft þennan rétt samkvæmt almennri réttarreglu en sums staðar hefur þótt rétt að færa hann inn í viðkomandi lög.
    Nú hefur allshn. afgreitt frá sér frv. til stjórnsýslulaga sem hefur að geyma ákvæði um kæru ákvarðana lægra setts stjórnvalds til hins æðra. Er meginreglan sú að aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds ef því er á annað borð til að dreifa. Eru með því tekin af öll tvímæli um málskotsrétt í stjórnsýslunni.
    Í umsögn, er félagsmálanefnd barst frá stjórn Húsnæðisstofnunar, kom m.a. fram að greiðslubyrði af lánum til almennra kaupleiguíbúða hafi reynst þung miðað við félagslegar kaupleiguíbúðir og að æskilegt væri að breyta lánafyrirkomulagi vegna slíkra íbúða þannig að veitt verði eitt lán sem svari til 90% af byggingarkostnaði eða kaupverði til 43 ára. Þá benti stjórnin á mikilvægi þess að breyta lögum um Húsnæðisstofnun þannig að útreikningur á söluverði félagslegra íbúða, sem byggðar eru fyrir gildistöku laga nr. 51/1980, samrýmist ákvæðum núgildandi reglugerðar og að lagaheimildir verði veittar til veitingar lána til meiri háttar endurbóta á félagslegum íbúðum. Meiri hluti nefndarinnar lítur svo á að um mikilvægar ábendingar sé að ræða. Á vegum félagsmálaráðuneytisins hefur starfshópur unnið að því undanfarna mánuði að meta reynsluna af lögum um félagslegar íbúðir og mun hann á næstunni skila niðurstöðum sínum og tillögum um breytingar grundvallaðar á fenginni reynslu. Á meðfylgjandi fylgiskjali, sem birt er með nefndarálitinu, er birt minnisblað sem formanni nefndarinnar barst frá Inga Val Jóhannssyni, húsnæðisfulltrúa og deildarstjóra í félagsmálaráðuneytinu, sem sæti á í umræddum starfshópi. Þar kemur m.a. fram að starfshópurinn mun gera tillögur er varða fyrrgreindar athugasemdir, um lán til almennra kaupleiguíbúða, lán til endurbóta á félagslegum íbúðum og lagfæringar vegna útreiknings söluverðs.
    Það kemur fram á þessu minnisblaði, virðulegi forseti, að starfshópurinn sem vísað er til hefur aflað upplýsinga um reynsluna af lögum um félagslegar íbúðir, m.a. heimsótt húsnæðisnefndir sveitarfélaga í því skyni og reynt að fá sem gleggsta mynd af lögunum um félagslegar íbúðir og um það bil 30 húsnæðisnefndir og mörg félagasamtök sem vinna að húsnæðismálum hafa verið sóttar heim.
    Starfshópurinn mun eins og áður sagði setja fram beinar tillögur um lagabreytingar, ábendingar og hugmyndir til frekari athugunar. Í framhaldi af starfi nefndarinnar, kemur fram í fylgiskjalinu, verður hafist handa um að athuga hvaða breytingar eru taldar nauðsynlegar á lánveitingum Byggingarsjóðs verkamanna með það fyrir augum að undirbúa frv. til laga um breytingu á lögum nr. 70/1990, um félagslegar íbúðir. En það er rétt að taka eftirfarandi fram um einstakar tillögur sem nefndinni bárust, og það er vegna lána til almennra kaupleiguíbúða, að starfshópurinn hefur verið með athugasemdir og tillögur húsnæðisnefnda í þessu efni til athugunar og mun leggja fram þrjár tillögur um breytingar á fyrirkomulagi lána til almennra kaupleiguíbúða. Vegna lána til endurbóta á félagslegum íbúðum hefur komið fram að á nokkrum stöðum þarfnast fjölbýlishús með félagslegum íbúðum gagngerra endurbóta utan húss. Að öðrum kosti liggja húsin undir skemmdum sem getur augljóslega haft í för með sér fjárhagstjón fyrir Byggingarsjóð verkamanna, enda er hér um veð sjóðsins að ræða.
    Auk þeirra húsa sem í ýmsum sveitarfélögum liggja nú undir skemmdum hefur komið í ljós að um yfirvofandi úrlausnarefni er að ræða og því mun hópurinn leggja fram tillögur í tveimur liðum, annars vegar um aðgerðir þegar í stað og hins vegar lagabreytingu um nýjan lánaflokk. Lögð er áhersla á skýrt afmarkað viðfang lánaflokksins og vandaðan undirbúning.
    Þá kemur fram að félmrh. óskaði eftir umsögn húsnæðismálastjórnar um þessa tillögu nefndarinnar í byrjun janúar þessa árs og að Húsnæðisstofnunin meti lánsfjárþörf ef farið yrði að tillögum starfshópsins. Húsnæðismálastjórn hefur sem sagt vísað til félmn. þessum tillögum sem hér hafa þegar verið kynntar. En ekki liggja fyrir upplýsingar um áætlaða lánsfjárþörf í þessu skyni.
    Þá hefur einnig verið fjallað um lagfæringar vegna útreiknings á söluverði. Það sem hér er um að ræða styðst við reglugerðarákvæði sem sett var fyrir 10 árum. Það er auðvitað eðlilegt að samræma þetta og eðlilegt að það gerist í tengslum við þær tillögur er gerðar verða á grundvelli niðurstaðna starfshópsins. Þess vegna þótti sjálfsagt og eðlilegt að vísa þessum tillögum húsnæðismálastjórnar sem bárust félmn. til samræmdrar tillögugerðar um lagabreytingar sem unnið verður að í kjölfar niðurstaðna starfshópsins og það var mat meiri hluta félmn. að æskilegt væri að niðurstaða starfshópsins varðandi breytingar á félagslega húsnæðiskerfinu lægi fyrir áður en gerðar yrðu tillögur um breytingar hvað þessi atriði varðar.
    Virðulegi forseti. Eggert Haukdal skrifar undir álitið með fyrirvara og áskilur sér rétt til að flytja breytingartillögur eða fylgja þeim er fram kunna að koma. Hann óskar þess einnig að fram komi sú afstaða hans að m.a. af háum vöxtum og atvinnuleysi leiði brýna þörf til að breyta húsnæðislögum áður en Alþingi lýkur störfum til að koma til móts við vandamál þeirra sem eiga í greiðsluerfiðleikum.
    Undir nál. rita Rannveig Guðmundsdóttir, Guðjón Guðmundsson, Össur Skarphéðinsson, Geir H. Haarde og Eggert Haukdal, með fyrirvara.