Húsnæðisstofnun ríkisins

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 11:30:23 (7724)

     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er komið til 2. umr. er enn eitt frv. í langri röð frv. sem hafa

verið til meðferðar á Alþingi á undanförnum árum og fjallar um húsnæðismál. Það er nú svo að félmrh. á hverjum tíma hafa látið sig þennan málaflokk miklu varða og allar götur síðan ég settist á Alþingi hafa ávallt verið stórir lagabálkar til meðferðar um húsnæðismál. Ég er ekki frá því að þessi málaflokkur hafi liðið fyrir þessa lagasetningaráráttu. Það hefur aldrei gefist tími til þess í þessu þjóðfélagi að lofa einhverju ákveðnu húsnæðiskerfi, sem menn hafa þó komið á með nokkuð víðtækri sátt að þróast og sníða af því agnúana. Minnist ég húsnæðiskerfisins frá árinu 1986 sem var komið á í sátt við verkalýðshreyfinguna í landinu en það fékk ekki að standa og núv. félmrh. setti metnað sinn í að koma því fyrir kattarnef. Nú á að ganga enn lengra og koma fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar út úr stjórn Húsnæðisstofnunar eins og ég kem að síðar og slíta tengslin við verkalýðshreyfinguna í sambandi við húsnæðismálin.
    Ég er sannfærður um að þessi lagasetningarárátta og pólitísk áhrif á húsnæðismálin í landinu, að sá málaflokkur hefur liðið fyrir þetta enda skipta þær greinar um þau málefni hvernig á að lána fólki til að byggja íbúðarhúsnæði, hvaða nafni sem það nefnist, þær skipta hundruðum.
    Nú er enn verið að styrkja þessi pólitísku áhrif með þessu frv. Spurningin er: Verður það til góðs eða ekki fyrir þennan málaflokk? Þetta frv. sem hér um ræðir er nokkuð viðamikið og snertir grundvallarþætti í stjórnun þessa málaflokks. En að meginhluta til má skipta því í fjóra kafla eða fjögur aðalsvið sem það tekur inn á með efnislegar breytingar.
    Í fyrsta lagi varðar frv. stjórnsýslulega stöðu Húsnæðisstofnunar sem er stórmál og hv. frsm. minni hluta félmn. hefur gert ítarlega grein fyrir en ég vil eigi að síður koma örlítið nánar inn á.
    Í öðru lagi snertir það það að leggja niður hönnunardeild Húsnæðisstofnunar en ég mun fjalla örlítið um þann þátt málsins sem er nokkuð einstakur. En því miður er þó að færast í vöxt að frv. eru komin til framkvæmda áður en þau eru afgreidd hér frá hv. Alþingi og er það ekki til fyrirmyndar svo ekki sé meira sagt.
    Í þriðja lagi það sem ég minntist á í upphafsorðum mínum að breyta stjórn Húsnæðisstofnunar.
    Í fjórða lagi að afnema skyldusparnaðinn.
    Ef ég kem fyrst að stjórnsýslulegri stöðu Húsnæðisstofnunar, þá er það rétt sem hv. frsm. minni hlutans sagði í sinni ræðu að það fóru fram ítarlegar umræður í félmn. um þennan þátt málsins þannig að það var varpað skýru ljósi á það hvað hér er um að ræða. Hér er náttúrlega verið að styrkja mjög yfirráð ráðherra yfir þessari stofnun sem fer með útlán og peningamál og er í ætt við bankastofnanir að því leyti þó ég viðurkenni vel að húsnæðismálin hafa vissulega sérstöðu og er ekki hægt að jafna þeim að öllu leyti við bankastarfsemi en þó er verulegur þáttur í þessu máli útlán til íbúðabygginga. Það má spyrja að því hvað rekur félmrh. og ríkisstjórnina til þessara breytinga miðað við þá stefnu sem uppi er varðandi hliðstæða starfsemi eins og hefur verið komið hér inn á varðandi ríkisbankana sem hæstv. ríkisstjórn hefur haft stíf markmið um að breyta í hlutafélög. M.a. má nefna að þau markmið eru svo stíf að á þeim forgangslista sem stjórn þingsins hefur borist frá ríkisstjórninni er enn þá að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög á þessari viku sem eftir er af þinghaldinu. ( RG: Það verður ekki.) Það verður ekki upplýsir hv. 11. þm. Reykn. Auðvitað verður það ekki. En markmiðin eru skýr og þetta forgangsverkefni er sett á listann til að þetta gleymist ekki. Til að menn geti munað það í sumar að það eru forgangsverkefni að breyta bönkunum í hlutafélög. Því skýtur það skökku við að það skuli nú bisað við það hér síðustu dagana að draga starfsemi Húsnæðisstofnunar undir ráðherra með þeim hætti sem þetta frv. gerir ráð fyrir.
    Í gildandi lögum eins og komið hefur fram er Húsnæðisstofnun ríkisins sjálfstæð ríkisstofnun. En með þeim takmörkunum auðvitað sem lög mæla fyrir um um slíkar stofnanir. Hér stendur í umsöng Páls Hreinssonar, sem kom á fund félmn. og hefur verið vitnað til af síðasta ræðumanni, með leyfi forseta: ,,Þar sem almennt stjórnsýslusamband er því ekki á milli ráðherra og sjálfstæðrar stofnunar getur ráðherra t.d. ekki gefið stofnuninni fyrirskipan um úrlausn einstakra mála. Þá verður stjórnvaldsákvörðun sjálfstæðra stofnana ekki heldur kærð til ráðherra til endurskoðunar.`` Takið eftir: Þá verður þessi stjórnvaldsákvörðun sjálfstæðrar stofnunar ekki heldur kærð til ráðherra til endurskoðunar. Með því að breyta þessu fyrirkomulagi þá verður að sjálfsögðu hægt að kæra þessar stjórnvaldsákvarðanir til ráðherra. Þar með er ráðherra auðvitað kominn með þessa stofnun og starfsemi hennar inn á borð til sín. Það hefur að vísu í brtt. meiri hlutans við 4. gr. verið dregið örlítið úr þessu til málamynda en í brtt. meiri hlutans er gert ráð fyrir að milda þetta örlítið, að síðari málsl. 3. tölul. falli brott en hann hljóðar þannig: ,,Áður en lánveiting á sér stað skal leita staðfestingar félmrh. á forsendum lánveitinga og skiptingu lánsfjár milli útlánsflokka.`` Þetta fellur brott. Þetta dregur örlítið úr áhrifunum en samt eigi að síður stendur það eftir að félmrh. er meira og minna kominn með þessa starfsemi inn á borð til sín í ráðuneytinu.
    Hvað skyldi valda? Hefur valdaleysi ráðherra varðandi húsnæðismálin verið algerlega óbærilegt? Ég held að svo hafi ekki verið. Ég hygg að samstarf ráðherra og stjórnar Húsnæðisstofnunar í gegnum tíðina hafi verið mjög bærilegt og ekki verra en um hliðstæða starfsemi. Enda hefur ráðherra gífurlega mikil áhrif á húsnæðismálin og starfsemi Húsnæðisstofnunar. Það vill nú svo til að fyrir liggja ítarlegar skýrslur um þessi mál sem þegar hefur verið vitnað til. Það liggur fyrir um þetta mál skýrsla frá 7. mars 1988 sem er lögfræðileg athugun og álit á stöðu, valdsviði og ábyrgð Húsnæðisstofnunar ríkisins og húsnæðismálastjórnar, tekin saman af Ragnari Aðalsteinssyni. Einnig liggur fyrir frá því í ágúst 1987 álitsgerð um stjórnsýslulega stöðu Húsnæðisstofnunar ríkisins en hún er tekin saman af Birni Þ. Guðmundssyni og Jóni L. Arnalds. Í skýrslunni frá 1987 er kveðið á um að Húsnæðisstofnun hafi sjálfstæði gagnvart ráðherra því

að þá var sú umræða uppi hvað heimildir stofnunarinnar í þessu efni og hvað sjálfstæði hennar væri víðtækt. Þar segir m.a. í niðurstöðu þeirrar skýrslu að húsnæðismálastjórn ber ekki ábyrgð gagnvart ríkisstjórninni í heild, hún þarf ekki að taka við samstarfsfyrirmælum frá fagráðherrum, hins vegar hefur hún verulega upplýsingaskyldu gagnvart honum og Alþingi. Síðan segir að Húsnæðismálastjórn hafi ein algert forræði á lánveitingum og endanlegt úrskurðarvald í þeim efnum. Líkist sá þáttur starfsemi fjárfestingarsjóða og banka. Það er þetta úrskurðarvald sem verið er að afnema með þessu frv. Það er sem sagt verið hjá þessari ríkisstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. að auka miðstýringu í þessum málaflokki. Það er ekki furða þó það séu fáir sjálfstæðismenn við þessa umræðu, þeir sjást ekki hér í þingsal fremur en endranær, stjórnarliðar í Sjálfstfl., enda hafa þeir nú átt heldur erfiðar stundir í félmn. og sannleikurinn er sá að hinn ágæti formaður félmn., hv. 11. þm. Reykn. hefur átt frekar erfitt í þessari nefnd og þurft að beita allri sinni lagni til þess að fá samstarfsflokkinn og þá fulltrúa sem voru í nefndinni til að samþykkja þann gerning sem hér er og dugði ekki minna á síðasta fundi nefndarinnar heldur en að fá bæði þingflokksformann Sjálfstfl. og þingflokksformann Alþfl. til að sitja nefndarfundinn, þó við höfum afbragðs formann til þess að allir fulltrúar Sjálfstfl. mundu skrifa undir þetta sem tókst þó ekki nema með fyrirvara. En ég reikna ekki með að mér takist að draga neinn af fulltrúum Sjálfstfl. inn í þessa umræðu. Hér kemur hugrakkur maður, hv. þingflokksformaður Sjálfstfl., 8. þm. Reykv., sem gekk í þetta verk að koma þessu máli út úr nefndinni því það ætlaði að ganga illa.
    Ég er svo sem ekki hissa á því þó það hafi staðið í fulltrúum Sjálfstfl. í félmn. að samþykkja þetta frv., miðstýringarfrv., þvert á stefnu flokksins og þvert á þá stefnu sem flokkurinn hefur haldið fram í þessum efnum. Það er nú svo að samkvæmt núgildandi lögum hefur félmrh. ekki lítil áhrif á starfsemi Húsnæðisstofnunar, þannig að það er merkilegt að það skuli enn þá verið að auka þau. Þá vil ég vitna í lögfræðilega athugun og álit frá 7. mars 1988 sem Ragnar Aðalsteinsson skrifar undir og hann segir hér í niðurstöðum sínum, með leyfi forseta: ,,Niðurstöður mínar eru því þær að áhrifavald ráðherra yfir Húsnæðisstofnun ríkisins og húsnæðisstjórn felist einkum í eftirfarandi.`` Hér kemur svo dálagleg upptalning:
    Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins, ráðherra hefur eftirlit með starfrækslu stofnunarinnar samkvæmt 9. gr. stjórnarráðslaganna, ráðherra skipar formann og varaformann stjórnar, ráðherra skipar framkvæmdastjóra og skrifstofustjóra stofnunarinnar og segir þeim upp, ráðherra getur lagt fyrir stjórnina að fjalla um mál sem ekki er getið sérstaklega um í lögum, ráðherra ræður skiptingu lánsfjár Byggingarsjóðs ríkisins milli lánaflokka og leyfir fjölgun lánaflokka, hann flytur lánsfé milli flokka, ríkisstjórnin ákveður vexti á lánum --- það er ríkisstjórnin en um að hljóta tillögur félmrh. að ráða mestu. Ráðherra hefur í raun frumkvæði að löggjöf á sviði húsnæðismála og getur komið sínum sjónarmiðum áfram með lagabreytingum enda njóti hann stuðnings meiri hluta þingsins til þess samkvæmt þingræðisreglunni. Ráðherra getur ekki hlutast til um framkvæmd einstakra mála. Vald húsnæðismálastjórnar takmarkast mjög af ítarlegum lagareglum sem veita lítið svigrúm svo og ákvæðum reglugerða sem ráðherra setur. Ráðherra getur hvenær sem er krafið Húsnæðisstofnun um upplýsingar og skýrslur og felst í því valdi mikið aðhald. Með framangreindum víðtækum takmörkunum er yfirstjórn stofnunarinnar í höndum húsnæðismálastjórnar.
    Þetta er nú allt nokkuð. Þetta er það sem gildandi lög gera ráð fyrir og þetta er að mati ráðherra, hæstv. félmrh. Alþfl., ekki nægjanleg miðstýring. Þetta er ekki nægjanleg miðstýring að mati Sjálfstfl. Að vísu þó þeir hafi átt erfitt með að kyngja því fulltrúar í félmn. þá fékk formaður félmn. hjálp frá þingflokksformanni Sjálfstfl. til að knýja þetta mál út úr nefnd. Það er hér ein setning sem er eitur í beinum hæstv. félmrh. og hún er hér efst á bls. 21 í þessari skýrslu. Það hlýtur að vera það sem verið er að breyta og frv. fjallar um það. Hún hljómar svo: ,,Ráðherra getur ekki hlutast til um framkvæmd einstakra mála.`` Það virðist vera það sem verið er að breyta. Það kemur reyndar fram í áliti Páls Sveinssonar sem ég vitnaði til í upphafi að í síðustu setningunni ,,þá verður stjórnvaldsákvörðunum sjálfstæðrar stofnunar ekki heldur kærð til ráðherra til endurskoðunar``. Með þessu frv. er hægt að kæra þessar ákvarðanir til ráðherra. Þá er búið að koma því fram að ráðherra getur hlutast til um einstök mál. Þetta er nú miðstýring í lagi og þetta er það sem Sjálfstfl. og Alþfl. nota síðustu dagana til að knýja fram. Þetta er forgangsmálið. Það eru engar tillögur hér varðandi kjarasamninga í þjóðfélaginu, það eru engar tillögur varðandi atvinnuvegina, sjávarútveginn, sem allur er að fara um hrygg. En síðustu dagarnir eru notaðir til að knýja fram miðstýringarfrv. um að félmrh. geti hlutast til um öll mál varðandi Húsnæðisstofnun ríkisins. Það er rismikið á síðustu dögum þingsins fyrir hæstv. ríkisstjórn að nota tímann í þetta. Það er auðvitað mjög hagkvæmt að nota tímann í þetta frv. vegna þess að ríkisstjórnin er blönk. Hún er ekki með nein úrræði í aðkallandi málum sem er miklu meira aðkallandi að knýja fram en þetta mál.
    Ég ætla þá að víkja að hér öðrum þætti sem þetta frv. felur í sér. Það er örlítill einkavæðingarþáttur til að bæta upp miðstýringuna sem frv. gerir ráð fyrir, en það er að leggja niður hönnunardeild Húsnæðisstofnunar ríkisins. Verkefni hönnunardeildarinnar hafa vissulega breyst í tímans rás breyst en þó gegnir og gegndi þessi hönnunardeild mikilvægum verkefnum. Hins vegar er búið að koma málum þannig fyrir að það er búið að leggja hana niður og starfsfólkið sem þar var mun reka hana áfram á eigin ábyrgð. Þannig að sá hlutur er gerður en aðfarirnar við þá aðgerð eru mjög ámælisverðar svo ekki sé meira sagt. Og það verður hér við þessa umræðu að draga fram þau vinnubrögð.
    Þetta frv. var lagt fram rétt fyrir jólin og kom til félmn. til meðferðar upp úr áramótum ef ég man

rétt. Það var lagt fram fyrir áramót. En þann 21. des. berst Húsnæðisstofnun bréf frá félmrn. þar sem Húsnæðisstofnun er nú þegar falið að leggja niður störf á svonefndri hönnunardeild, þjónustusviði tæknideildar. Þessi krafa er ítrekuð með bréfi dagsettu 4. jan. Þetta er nú kannski allt saman gott og blessað en hins vegar er sá hængur á að í gildandi lögum um stofnunina og takið eftir, í þeim lögum sem gilda enn, eru lagaákvæði um að slík hönnunardeild skuli rekin. Þarna er verið að framkvæma lögin sem við eigum að samþykkja núna fyrir þinglok í maí, þann 21 des. er félmrn. farið að vinna á grundvelli laga sem á að samþykkja núna næstu daga ef tekst að knýja það í gegn. Félmrh. hæstv. hefur að vísu tekið upp þá málsvörn að fjárlög hafi gert ráð fyrir að tæknideildin yrði lögð niður. Þau gerðu vissulega ráð fyrir því. Sparnaði í rekstri stofnunarinnar átti m.a. að ná vegna þess að tæknideildin yrði lögð niður. En það er í sjálfu sér engin málsvörn í því. Það er mjög algengt að það eigi að ná fram sparnaði með fjárlögum á grundvelli löggjafar sem á eftir að breyta en það réttlætir ekkert að byrja að framkvæma lögin áður en búið er að samþykkja þau, af því að hönnunardeildin var enginn baggi á rekstri stofnunarinnar þó verkefni hennar hafi breyst.
    Niðurstaðan af þessu var að framkvæmdastjóri stofnunarinnar segir starfsfólki hennar upp frá og með 30. jan. og upp úr þeim uppsögnum komu síðan þær breytingar sem nú hafa tekið gildi. Þessi vinnubrögð eru náttúrlega algerlega forkastanleg og við sem skipum minni hluta nefndarinnar mótmælum þeim harðlega, teljum þetta vanvirðu við Alþingi. Teljum að framkvæmdarvaldið sé hér að ganga á hlut þingsins eins og það gerir í æ ríkari mæli og þetta er ekki eina dæmið hér um. Okkur er í fersku minni t.d. í vetur þegar við vorum að samþykkja lagaákvæði um innflutning á skipum sem var löngu búið að flytja inn og var búið að ljúka sínum verkefnum og sökkva einu sinni og þar fram eftir götunum. Þessi vinnubrögð eru náttúrlega algjörlega óþolandi og þau eru þinginu til vansæmdar og þeim til vansæmdar sem reyna að ganga yfir það með þessum hætti.
    Við í minni hlutanum höfum ekki lagst gegn þeim þætti frv. sem varðar að leggja niður skyldusparnaðinn. Þessi starfsemi hefur breyst í tímans rás og ungt fólk á kost á fleiri sparnaðarleiðum en áður var þannig að þörfin er ekki sú sama og var áður. Þó er að ýmsu leyti eftirsjá að þessari starfsemi og það skiptir miklu máli að því fólki sem þarna á inni fjármuni sé gefinn kostur á hagkvæmum sparnaðarleiðum. Það verður sjálfsagt enginn hörgull á því að bankarnir bjóði í þessa fjármuni. Hins vegar er ástandið því miður þannig í dag eins og kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv. að ungt fólk hefur nú yfirleitt ekki mikla möguleika á því að geyma peninga inni á banka eða bankabókum hvort sem það er inni í Húsnæðisstofnun eða annars staðar. En hins vegar eru verulegir fjármunir í stofnuninni vegna skyldusparnaðarins eða um 4 milljarðar króna. Þarna getur með lagabreyting orðið útstreymi á peningum. Það kom fram í viðræðum milli fjmrn. og félmn. að Húsnæðisstofnun ríkisins skuldar ríkissjóði 1.400 millj. kr. og viðræður eru í gangi um skuldbreytingu þessarar fjárhæðar. En auðvitað er nauðsynlegt þegar skyldusparnaðurinn er nú lagður niður að leita leiða til þess að útstreymi þessa fjármagns dreifist á lengri tíma, þannig að það hafi sem minnst áhrif á fjárhag stofnunarinnar. En það hefur verið gerð grein fyrir því varðandi minnihlutaálitið að minni hlutinn mun ekki leggjast gegn þessari breytingu. Það er gert ráð fyrir að útstreymi úr stofnuninni vegna þessarar breytingar verði um 1.100 millj. á þessu ári og 600 millj. á næsta ári sem hefur auðvitað áhrif á fjármögnun hennar.
    Þá er komið að þeim þætti sem varðar stjórn stofnunarinnar. Ég kom inn á það í upphafi míns máls, sögulegan þátt þessara mála, og kom inn á húsnæðiskerfið árið 1986 sem var komið á í kjarasamningum í samvinnu verkalýðshreyfingar og stjórnvalda og þessi sögulegu tengsl hafa ávallt verið mikil. Þessi sögulegu tengsl eru m.a. í því fólgin að verkalýðshreyfingin eða ASÍ og Vinnuveitendasambandið hafa haft sína fulltrúa í stjórn Húsnæðisstofnunar. Nú telur félmrh. Alþfl. sig knúinn til að höggva á þessi tengsl og taka málið inn til sín. Þessir fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar sem komu inn fyrir atbeina kjarasamninga á sínum tíma eru nú álitnir hinir óæskilegu í stjórn stofnunarinnar. Það má minna á það að húsnæðiskerfið í landinu á nokkuð undir því að hafa gott samstarf við verkalýðshreyfinguna. Fjármögnun þess hefur síðustu árin og um langt árabil verið háð sjóðum hennar eða lífeyrissjóðakerfinu í landinu sem byggt er upp af fólkinu í landinu náttúrlega fyrst og fremst, vinnu þess og aðila vinnumarkaðarins. Þannig að ég sé ekki hvaða stjórnviska er í því að sparka þessum fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar út úr stjórn Húsnæðisstofnunar.
    Hér liggur fyrir ásamt fleiri umsögnum umsögn frá Alþýðusambandi Íslands um þetta mál. Þessi umsögn er ekki samin af einhverjum kontórista hjá ASÍ eins og er kannski stundum gert því þeir fá mikið af umsögnum um fjölmörg frv. Nei, ASÍ hefur litið svo alvarlegum augum á þetta mál að það hefur verið lagt fyrir fund miðstjórnar ASÍ. Hér segir, með leyfi forseta, í þessari umsögn:
    ,,Á fundi miðstjórnar Alþýðusambandsins 9. des. 1992 var eftirfarandi ályktun samþykkt:
    ,,Í áratugi hafa verkalýðssamtökin barist fyrir úrbótum í húsnæðiskerfinu. Þau hafa samið um skattlagningu til að fjármagna húsnæðiskerfið og staðið að lánsfjármögnun af hálfu lífeyrissjóðanna. Í ljósi þessa kemur á óvart að félmrh. skuli nú kynna tillögu um að ryðja fulltrúum verkalýðssamtakanna úr stjórn Húsnæðisstofnunar. Félmrh. ætti að vera það ljósara en nokkrum öðrum að einmitt nú ríður á að halda samstöðu um húsnæðiskerfið.
    Miðstjórn Alþýðusambandsins gerir kröfu til þess að samtökunum verði ávallt tryggð aðild að stjórn Húsnæðisstofnunar og varar alvarlega við því að höggvið verði á það samstarf sem verið hefur um húsnæðiskerfið.``
    Á undanförnum árum hefur stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins verið skipuð fulltrúum kjörnum á Alþingi og fulltrúum tilnefndum af ASÍ og VSÍ. Með þessum hætti hafa fulltrúar margra stórra hagsmunaaðila komið saman og unnið að húsnæðismálum og haft sitt að segja um stefnumótun og framkvæmd húsnæðismála.
    Með því að veita félmrn. og félmrh. meiri áhrif á stjórn Húsnæðisstofnunar er í fyrsta lagi verið að gera húsnæðismálastjórn óvirka sem stjónunaraðila og jafnframt er verið að gera forstjóra og aðra stjórnendur stofnunarinnar sem næst að óbreyttum ráðuneytisstarfsmönnum. Í öðru lagi er sýnilegt að sá vettvangur hverfi sem húsnæðismálastjórn hefur verið fyrir hagsmunaaðila til að koma saman og vinna að framgangi jafnviðamikils og viðkvæms málaflokks og húsnæðismálin eru.
    Hætt er við að stefnumörkun og framkvæmd húsnæðismála muni eftir breytingar sem þessar leiða til meiri óstöðugleika í framkvæmd húsnæðismála en verið hefur til þessa þar sem félmrh. hvers tíma muni hafa tilhneigingu til að setja fingraför sín of mikið á verk Húsnæðisstofnunar.``
    Svo mörg voru þau orð og þau voru reyndar fleiri því fulltrúar ASÍ hafa litið svo alvarlegum augum á þetta mál að þeir hafa tekið það til ítarlegrar umræðu á miðstjórnarfundi ASÍ og samþykkt um það ítarlega ályktun sem barst til félmn. og fylgir reyndar sem fylgiskjal með áliti minni hluta nefndarinnar. Það er alveg furðulegt í ljósi sögulegra tengsla verkalýðshreyfingarinnar og Alþfl. að hæstv. félmrh. skuli nú ganga fram og nota síðustu þingdagana til að ryðja fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar út úr stjórn Húsnæðisstofnunar. Hér eru ýmsir á Alþingi sem eiga mikil tengsl við hreyfinguna. Ég hefði gaman af að heyra hvort hv. 6. þm. Reykn. Karl Steinar Guðnason, sem hefur starfað um árabil í verkalýðshreyfingunni, er ánægður með þessa aðgerð. Hann er náttúrlega ekki hér frekar en aðrir stjórnarliðar við þessa umræðu því að hér kemur yfirleitt ekki nokkur stjórnarliði í þingsal nema þeir sem neyðast til þess að vera vegna þess að þeir þurfi að taka þátt í umræðu. Hér búið að koma málefnum þingsins þannig fyrir og raða málefnum þingsins þannig niður á dagskrá að hér þarf enginn að koma nema til að greiða atkvæði og hér mun stjórnarliðið flykkjast inn til þess að greiða atkvæði kl. 1.30. Þeir sjást ekki í annan tíma. Hér er ekki nokkur maður af því liðinu nema ágætur formaður félmn. og hæstv. félmrh. Það er allt og sumt þannig að þetta fyrirkomulag á þinghaldinu er orðið þannig að það eru engin skoðanaskipti orðin í þinginu. Það er aldrei nokkur maður við hér í þingsal af stjórnarliðinu til að spyrja spurninga, t.d. spyrja hv. 6. þm. Reykn. hvort hann sé samþykkur þessari aðgerð gagnvart verkalýðshreyfingunni. Sannleikurinn er sá að það er alveg eins gott að hætta þessu þingi á morgun og senda það heim. Hér er ekkert að gerast. Hér er reyndar verið að klemma þessu frv. í gegn fyrir þinglokin, en hér er ekki nokkur skapaður hlutur að ske annar af hálfu þessarar ríkisstjórnar nema reyna að koma þessu frv. sem dregur valdið undir ráðherra, ryður fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar frá áhrifum á húsnæðismálin, koma því í gegnum þingið á þessum síðustu dögum. Það er eins og veggirnir hér séu dálítið þykkir.
    Það vill nú svo til að það heyrist stundum eitthvað utan úr þjóðfélaginu en það er ekki að sjá að það hafi áhrif á stjórnarliðið og hæstv. ríkisstjórn þó þeir séu yfirleitt hér utan veggja og komi lítið hér inn, þá virðast þeir ekki heyra það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Það eru engar ráðstafanir fram undan, ekkert hér á döfinni, ekkert sem máli skiptir í dag nema ryðja þessu frv. hér í gegnum þingið.
    Í umsögn Húsnæðisstofnunar um þetta frv. benda þeir á nauðsynlegar lagfæringar í húsnæðismálum sem þurfi að koma fram. En það er nú svo að af einhverjum ástæðum liggur meira á þessum skipulagsbreytingum heldur en bæta úr þeim augljósu agnúum. Umsögn húsnæðismálastjórnar um þetta frv. er mjög ítarlegt. Stjórnin er sammála um það að þessi breyting á stjórnskipulegri stöðu sé óæskileg, en hér er bent á í umsögninni að mjög brýnt sé að fá lagfæringar á 52. gr. laganna og einnig sé brýnt að lagaheimildir verði veittar til meiri háttar endurbóta á félagslegum íbúðum.
    Minni hluti félmn. flytur brtt. við frv. sem varða þessi mál vegna þess að það er ekki vilji fyrir því hjá meiri hluta nefndarinnar að taka þetta mál upp. Það hefur komið fram hjá hæstv. félmrh. hér á Alþingi að starfshópur vinnur að þessum málum og það er ekki á döfinni að breytt verði lögum á þessu þingi varðandi þessi ákvæði. Ég hefði haldið það og minni hlutinn er á þeirri skoðun að það væri rétt nú vegna þess að við erum með þessa húsnæðislöggjöf og frv. um hana í vinnslu að taka upp þessar heimildir og afgreiða heimildir varðandi þessa málaflokka nú í þinglokin. ( Félmrh.: Hvað kostar það?) Hér er aðeins um heimildir að ræða, hæstv. ráðherra, og ráðherra verður vafalaust ekki skotaskuld úr því að kanna kostnaðinn af slíku. Hins vegar hafa menn hugmyndir í því efni en að sjálfsögðu verður það til meðferðar við þá fjárlagagerð sem nú er hafin þannig að það er ekki nema gott um það að segja og nauðsynlegt að þessar heimildir liggi fyrir nú vegna þess að hér er verið að ganga í breytingar á húsnæðiskerfinu.
    Það mun vafalaust verða svo að það verður hægt að safna saman liði til þess að koma þessu frv. í gegn áður en þinginu lýkur. Þó er ég ekkert alveg viss um að sú ganga verði mjög létt fyrir alla. Auðvitað væri rétt að geyma þessar skipulagbreytingar, hugsa sig betur um þetta mál, fara yfir þau ágætu gögn sem eru komin til félmn. um stjórnskipun Húsnæðisstofnunar og fara yfir málið í sumar. Það liggur ekkert á í þessu efni. Stjórnskipulag Húsnæðisstofnunar er ekki það slæmt eins og það er núna og ráðherra hefur öll þau áhrif sem hann þarf að hafa og ég hef talið það upp hver þau áhrif eru að dómi sérfræðinga og ég þarf ekki neinu við það að bæta.
    Það er ein umsögn enn sem liggur fyrir hér um málið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem

þeir benda á ýmis atriði sem til bóta gætu orðið. Og þeir benda m.a. á að stofnunin skuli leitast við að veita landsmönnum öllum sömu þjónustu óháð búsetu og koma upp útibúum í öllum landshlutum. Síðan er ítrekuð sú skoðun stjórnar sambandsins að sveitarfélögin fái aðild að stjórn Húsnæðisstofnunar og minnt á að þau gegna þýðingarmiklu og margþættu hlutverki varðandi húsnæðismálin. Það er ekki valin sú leið að horfa neitt á þessa umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga og náttúrlega ekki að verða neitt við þeirra beiðni um aðild að stjórn Húsnæðisstofnunar. Þetta mál þarfnast allt saman miklu meiri skoðunar og það rekur engin nauður til að afgreiða það nú fyrir þinglok. Það væri réttast að skoða þetta mál miklu betur og reyna að koma viti í það og það veitir sjálfsagt ekki af að reyna að sansa stjórnarliðið í þessu máli og laga það þannig til að samstarfsflokkur Alþfl. taki gleði sína í málinu því að þeir eru mjög sorgmæddir og hryggir yfir þessu máli, en þeir munu nú samt samþykkja það, spái ég, að lokum því að allt vilja þeir til vinna að þessi ríkisstjórn hangi áfram saman því að síðustu skoðanakannanir sýna nú að það er ekki glæsilegt að hugsa sér að fara í kosningar. Alþfl. getur því ábyggilega lagt fram fleiri miðstýringarfrumvörp þess vegna að Sjálfstfl. mun samþykkja þau frekar en eiga það á hættu að slíta þessari ríkisstjórn. En það er ekkert hægt að spyrja þessa ágætu menn neitt um afstöðu þeirra. Það sést ekki nokkur maður hér til þess að rökræða við um málið. Sjálfstæðismenn og hvað þá félagsmálanefndarmenn passa sig að koma ekki hér inn fyrir dyrastafinn einu sinni þegar þessi mál eru rædd. Hér er bara formaður nefndarinnar inni og ég reikna ekki með að þeir komi hér inn fyrir dyrastafinn í dag. Ég mun freista þess að spyrja þá ef þeir kynnu að sjást einhvers staðar því að ég á eftir rétt til þess að taka til máls aftur, en ég tók það fram áðan að hér á hv. Alþingi eru ekki orðin nein skoðanaskipti vegna þess að stjórnarliðar eru hættir að koma hér. Þeir vilja ekki eiga það á hættu að þeir séu spurðir um neitt eða afstöðu til mála þannig að ég ætla að ljúka þessu máli mínu með þeim orðum að ég mun ásamt öðrum minnihlutamönnum í félmn. greiða atvæði gegn þessu frv. í megindráttum, en ég vil ítreka þá skoðun mína og ráð til félmrh. að láta þennan óskapnað liggja og reyna að koma einhverju lagi á þessi mál í sumar.