Afgreiðsla allsherjarnefndar á frv. til skaðabótalaga

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 12:30:29 (7727)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Formaður félmn. gat þess að hér væru mörg mál á dagskrá sem þyrfti að ræða og afgreiða. Ég sé að eitt af þeim málum sem er á dagskrá er frv. til skaðabótalaga og af því að formaður félmn. gat um einstaklega gott samstarf á milli stjórnarflokkanna, þá þykir mér nú rétt að vekja athygli á þessu frv. En í viðtali við varaformann allshn., alþýðuflokksmanninn Sigbjörn Gunnarsson, í Dagblaðinu sl. miðvikudag, þar sem hann er spurður um frv. til skaðabótalaga, segir hann orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Frumvarp til nýrra laga um skaðabætur vegna slysa er í lokavinnslu í allshn. Alþingis. Ég reikna með að vinnslunni ljúki á fundi á fimmtudag og frv. fari þá inn á þing til 2. umr.``
    Nú var þessi fundur í gær í hv. allshn. og frv. til skaðabótalaga var þar ekki á dagskrá, var þar ekki rætt. Og nú erum við boðuð á fund í hv. allshn. núna kl. hálfeitt föstudaginn 30. apríl og enn er þetta mál ekki á dagskrá. Ég spyr: Hvernig er samstarfið milli stjórnarflokkanna í þessari nefnd? Því ég sé að þrátt fyrir það að varaformaður nefndarinnar telji að það sé ekki búið að afgreiða málið út úr nefnd, þá er það hér á dagskrá fundarins til 2. umr.