Gæsla þjóðminja

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 15:31:00 (7746)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Fyrir réttri viku síðan brann skemma í Kópavogi til kaldra kola. Skemman sem var í eigu Þjóðminjasafnsins hafði að geyma 18 gamla báta, sá elsti var smíðaður 1840 en sá yngsti var frá því um 1940. Þarna mátti því lesa út frá bátalagi, saumum og viði hluta af 100 ára sögu sjómennsku og siglinga við strendur Íslands. Í skemmunni var einnig geymdur rekaviður í eigu húsfriðunarnefndar, ætlaður til viðgerða á gömlum húsum. Við þennan bruna eyðilögðust ómetanlegar og óbætanlegar þjóðminjar. Handverk bátasmiða, atvinnutæki tuga sjómanna frá fyrri tíð, bátar sem færðu hundruðum formæðra okkar og forfeðra lífsbjörgina eru orðin að ösku.
    Saga okkar og menning er orðin mun fátækari en áður. Þessi bátafloti, ættaður víða að af landinu, var geymdur í bráðabirgðaskemmu langt frá sjálfu Þjóðminjasafninu og Sjóminjasafninu í Hafnarfirði án nokkurrar gæslu eða varnarkerfa af einu eða öðru tagi. Börn úr nágrenninu notuðu skemmuna og svæðið í kring sem leikvöll og urðu völd að þessu óbætanlega tjóni er þau léku sér að eldi.
    Að mínum dómi er hér um mjög alvarlegan atburð að ræða sem hlýtur að kalla á allsherjarúttekt á stöðu safnamála í landinu og ég er viss um að víða um land þar sem er að finna einstök hús frá 18. og 19. öld, svo og stórmerkileg söfn nánast óvarin, hafa menn hrokkið við vegna þessa óhappaverks en það verður ekki annað sagt en stjórnvöld hafi sýnt vítaverða vanrækslu svo árum skiptir í fjárveitingum sínum til safna og þjóðminja.
    Bruninn í Kópavogi hefur vakið upp margar spurningar um það hvernig gæslu þjóðminja okkar er háttað og hvernig búið er að söfnum landsins og hvernig öryggi muna og minja er tryggt. Ég lít svo á að okkur sem nú teljumst komin til vits og ára beri að standa vörð um þann menningararf sem við eigum sameiginlegan hvort sem hann felst í tungutaki, siðum, venjum, bókmenntum, skráðum á skinn eða pappír, fornminjum eða þeim munum sem tekist hefur að varðveita frá fyrri tíð. Við höfum skyldum að gegna við sögu okkar og fortíð framtíðarinnar vegna, enda hlýtur sú þjóð sem ekki hlúir að menningu sinni og þekkir ekki sögu sína að verða villuráfandi og rótlaus.
    Eftir því sem ég fæ næst komist, frú forseti, eru öryggismál safna landsins í ólestri. Söfnin og gömul hús tengd þeim eru ýmist í eigu ríkisins eða sveitarfélaga en einstaka hús eða söfn eru rekin af einstaklingum eða félögum. A.m.k. í tvígang hefur verið gerð úttekt á söfnum landsins, annars vegar af Ragnhildi Vigfúsdóttur sagnfræðingi sem ritar grein í Morgunblaðið í dag um þessi mál. Hins vegar hefur Kristín Sigurðardóttir, sérfræðingur í forvörnum muna og minja, kannað ástand safnanna. Þessum sérfræðingum ber saman um að öryggi safnanna sé ábótavant en einnig að sú aðstaða sem er að finna utan þeirra, aðstöðu sem safngestum er ekki boðið upp á að skoða, þ.e. geymslur safnanna, séu alls óviðunandi. Peningum hefur fyrst og fremst verið varið í sýningarsali en þegar kemur að geymslum versnar málið.
    Söfn eru ekki bara sýningarsalir. Þau þurfa einnig að geta varðveitt muni við rétt hitastig og rakastig auk þess að geta tryggt að eigur safnsins hverjar sem þær eru verði ekki vatni, vindum, reyk eða eldi að bráð. Söfn þurfa að hafa viðvörunarkerfi, eldvarnarhurðir, eldtrausta skápa og þjófavörn. Mér vitanlega býr ekkert safn hér á landi við þessar aðstæður ef undan er skilin Stofnun Árna Magnússonar sem samkvæmt upplýsingum forstöðumanns er rammgert vígi utan um bókmenntaarfinn sem gætt er jafnt dag sem

nótt og varinn með ýmiss konar tækni. Sérstök ástæða er til að huga að Þjóðminjasafninu, Landsbókasafninu og Þjóðskjalasafninu en öll þessi söfn hafa að geyma dýrgripi sem hvergi finnast annars staðar, gripi, bækur, handrit og skjöl sem engin leið er að endurnýja verði þau eyðileggingu að bráð. Öll þessi söfn þurfa að búa við fyllsta öryggi og allar hugsanlegar varnir.
    Hér á landi gengur fólk óhindrað inn á söfnin. Í mesta lagi eru menn beðnir að skilja töskurnar sínar eftir í geymslu, en safnverðir, oftast fullorðnar konur, gæta þjóðararfsins og er auðvitað vel til þess treystandi á meðan ekkert kemur fyrir. Hingað til hefur andvaraleysið ekki komið að sök svo að ég viti til, en eftir Kópavogsbrunann hljótum við hér á hinu háa Alþingi að beita okkur fyrir auknum fjárveitingum til allra þeirra safna sem þurfa að taka á sínum öryggismálum og þau eru mörg. Það má ekki bíða að bætt verði úr. Við eigum að læra af fenginni reynslu þó dapurleg sé og þótt það kosti peninga.
    Þá vil ég vekja sérstaka athygli á gömlu torfbæjunum en eftir því sem mér er sagt er í mesta lagi að finna í þeim reykskynjara og slökkvitæki. Torfbæirnir eru einstakt fyrirbæri í byggingarsögu heimsins og við megum engan þeirra missa þó að forfeður okkar hafi tíðkað að brenna þá hver ofan af öðrum í hefndarskyni.
    Virðulegi forseti. Staðan í öryggismálum safna landsins og gæsla þjóðminja okkar er mikið áhyggjuefni í ljósi þeirra atburða sem eru tilefni þessarar umræðu. Ég vil því beina eftirfarandi spurningum til hæstv. menntmrh.:
    Hvernig er staða öryggismála og gæslu þjóðminja okkar háttað að mati ráðuneytis hans? Og til hvaða ráðstafana hefur verið gripið og á að grípa til í ljósi brunans í Kópavogi?