Gæsla þjóðminja

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 15:44:02 (7748)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Eitt eftirminnilegasta útvarpsviðtal sem ég hef heyrt lengi og ég hygg að sitji í mér alllengi enn, er útvarpsviðtal sem var átt við Lúðvík Kristjánsson, rithöfund og sagnfræðing, daginn eftir að Kópavogsbruninn átti sér stað þar sem hann lýsti því að þarna hefðu farið forgörðum menningarleg, söguleg verðmæti, óbætanleg með öllu, en Lúðvík Kristjánsson hefur eins og kunnugt er helgað ævi sína því verki að halda til haga sögu íslenskra sjávarhátta á mjög breiðum grunni. Og ég held að það sé ekki nokkur leið annað en við gagnrýnum okkur dálítið fyrir þá niðurstöðu sem þarna liggur fyrir, þó að það sé að sumu leyti erfitt því að hér er ekki um fjárhagslegan vanda að ræða. Hér var ekki um að ræða kostnað sem var neinni stofnun ofvaxið að ráða við. Það er alveg hægt að segja að við hefðum getað verið betur á verði. Það er alveg hægt að segja án þess að gagnrýna neinn með ósanngjörnum hætti, það hefði verið hægt að vara sig betur, búa þetta hús betur áður en til þessara óskapa dró.
    1989 keyptum við hús fyrir geymslu Þjóðminjasafnsins við Vesturvör í Kópavogi af Jarðborunum ríkisins. Það hús er vel varið, tengt við slökkvilið og Securitas-kerfið. Einnig er um að ræða geymslu í Dugguvogi sem hefur verið allvel varin, sömuleiðis á efri hæð á Suðurgötu eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra og allt þarf þetta skoðunar við. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur leitað til Brunamálastofnunar varðandi úttekt á þessum málum. Ég tel að hann ætti einnig að snúa sér til fjárln. Alþingis og menntmn. og fjmrn. til þess að tryggja að peningar verði undanbragðalaust veittir í þetta verkefni strax á þessu ári eftir fjáraukalögum eða sérstökum ríkisstjórnarákvörðunum ef nauðsyn krefur. Ég tel að við eigum að láta þennan Kópavogsbruna verða okkur víti til varnaðar þannig að við tökum til hendinni þegar í stað.