Gæsla þjóðminja

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 15:46:32 (7749)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Það þarf að auka öryggisbúnað, sagði hæstv. menntmrh. og ég vil þakka fyrir það. Mér heyrðist reyndar á hans máli að það hefði ýmislegt verið gert síðan þetta atvik átti sér stað, til þess að bæta úr. En ég vil þakka hv. 18. þm. Reykv. fyrir að vekja máls á mikilvægu máli. Kveikjan að þessari umræðu er mikið og dapurlegt atvik sem átti sér stað þann 22. apríl sl. þegar 18 bátar frá ofanverðri síðustu öld og öndverðri þessari brunnu til ösku í bátasafni Þjóðminjasafnsins í Kópavogi. Atvik sem þetta vekja þjóðina til umhugsunar um uppruna sinn og lífshætti fyrri kynslóða. Þau vekja líka upp hugsanir sem þær hvernig við stöndum okkur í stykkinu sem þjóð við það að vernda merkar minjar. Þessir bátar sem hér um ræðir verða ekki kallaðir fram á ný en e.t.v. getur atburðurinn sem slíkur orðið til þess að þeir sem fara með málefni þjóðminjavörslu og þeir sem stjórna þessu landi grípi til fyrirbyggjandi aðgerða sem gætu orðið til þess að svona lagað komi ekki fyrir aftur.
    Það eru ekki mörg ár síðan hv. Alþingi setti ný þjóðminjalög og þar er kveðið er á um ýmis atriði sem hafa því miður ekki komið til framkvæmda enn þá og má þar t.d. nefna ákvæði um minjaverði. Þjóðminjalögin gáfu líka vonir um að þjóðminjavarslan yrði styrkt. Allt hefur þetta því miður strandað of mikið á fjárskorti og ég vil leyfa mér að velta því hér upp hvort stjórnkerfið okkar geti verið óskilvirkt

hvað þetta snertir.
    Tími minn er víst á þrotum en ég vil þá að síðustu leggja áherslu á það að hér verði staldrað við og skoðað hvað gæti orðið til þess að svona lagað komi ekki fyrir aftur.