Gæsla þjóðminja

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 15:57:38 (7754)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég fagna þeim áhuga sem fram kemur í máli hv. þm. á að verja fé til varðveislu menningarverðmæta og það er enginn efi á því að það er vaxandi skilningur á nauðsyn þess og ekki síst á varðveislu gamalla bygginga.
    Það er enginn efi að menn töldu sig vera að gera rétt þegar reist var skýli sem geymdi þessa 18 báta. Menn geta kannski sagt núna að þeir hefðu betur verið dreifðir áfram víða um land, en það var þó samdóma álit manna að þeir mundu eyðileggjast með því móti. Hv. þm. Jón Kristjánsson nefndi það einmitt að það þyrfti að dreifa menningarverðmætum og gera þessi verðmæti aðgengileg fyrir fólk sem víðast um landið og það er vafalaust alveg rétt.
    Ég legg áherslu á að menn töldu sig áreiðanlega vera að gera rétt með því að forða þessum bátum frá skemmdum þar sem þeir lágu víða úti undir beru lofti og sums staðar í mjög slæmum geymslum. Það þarf svo sannarlega að hyggja betur að þessum málum heldur en við höfum gert og ég bendi á það þótt vegna þessa atviks og óhapps hafi verið sett af stað mjög ákveðin athugun, þá var ýmislegt þegar komið af stað áður.
    Þór Magnússon nefnir ýmislegt fleira í því bréfi sem ég var að lesa upp úr áðan, m.a. það að miklir skaðar hafa orðið víða um lönd vegna óhappa og einnig vegna íkveikja og hann minnir á skaða sem hér hafa orðið eins og þegar kirkjurnar á Breiðabólsstað og Skógarströnd brunnu, Miklabæ í Skagafirði, Ísafirði, Seyðisfirði og Heydölum. Sumir þessara bruna hérlendis og ytra urðu af gáleysi en í sumum byggingum var kveikt af ásettu ráði og við þurfum að gera allt sem við getum til þess að koma í veg fyrir slíkt.