Húsnæðisstofnun ríkisins

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 16:00:37 (7755)

     Kristinn H. Gunnarsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Ég hafði rétt nýhafið ræðu mína er hlé varð að gera á umræðu vegna utandagskrárumræðu og var að hefja umfjöllun um þann þátt frv. er varðar breytingu á stjórnsýslulegri stöðu stofnunarinnar og yfirstjórn hennar og tengslum gagnvart ráðuneyti. Ég tel að það sé nauðsynlegt að fara nokkuð rækilega yfir þann þátt málsins því þar er um að ræða kannski það efni frv. sem mestur ágreiningur er um og mest umdeilanlegt er út frá pólitískum sjónarhóli séð því að þar kristallast í afstöðu manna mismunandi pólitískar skoðanir á hlutverki og valdsviði framkvæmdarvaldsins. Og miðað við stöðu málsins er ljóst að hér í þinginu skiptast menn í tvær fylkingar hvað þetta varðar. Annars vegar er sá hópur eða sú fylking sem vill þjappa valdi, færa meira vald undir beint boðvald ráðherra, breyta eðli framkvæmdarvaldsins þannig að draga meiri völd undir ráðherrann og hin fylkingin eru þeir sem vilja dreifa valdinu eins og verið hefur í þessum málaflokki og jafnvel á öðrum sviðum ganga lengra í þá átt að dreifa valdinu en verið hefur. Það er gömul saga og ný að vald spillir og ef einstaklingar hafa með höndum mikið vald í langan tíma, þá er hætta á því að valdið spilli þeim sem með það fara og menn fari að misbeita valdinu. Þess vegna er það grundvallaratriði hvernig menn byggja upp þessa stjórnsýslu, hvort menn byggja hana upp í þeim tilgangi að sem minnstar líkur séu á því að einstakir ráðherrar hafi of mikið vald í sínum höndum og sem minnstar líkur eru á því að um spillingu verði að ræða í stjórnsýslunni. Þarna er um að ræða pólitískt kjarnaatriði sem menn eru að takast á um í umræðu um þetta mál. Og það frv. sem hér liggur fyrir gerir þarna grundvallarbreytingu á, breytir stöðu mála frá því að valdið liggur nokkuð dreift í húsnæðismálum, annars vegar í sérstakri stofnun sem er sjálfstæð ríkisstofnun með eigin yfirstjórn, kosin af Alþingi, yfir í það að vera deild í félmrn. Um þetta snýst málið. Og það er ekki lítið í húfi þegar það er haft í huga að árlega er húsnæðismálastjórn að úthluta peningum, miklum peningum. Þar er um að ræða stjórn sem hefur verið falið það verkefni að útdeila peningum til aðila sem um það geta sótt. Og auðvitað skiptir miklu máli hvernig menn byggja upp stjórnsýsluna og lagarammann utan um þá ákvörðun hvernig og hverjir eigi að deila út skömmtuðu fé.
    Það fé sem árlega undanfarin ár hefur verið til ráðstöfunar í þessu skyni eru engir smáaurar. Það er miklu meira heldur en er árlega úr Framkvæmdasjóði fatlaðra sem Alþingi breytti lögum um á síðasta þingi í þá veru að færa vald meira til félmrh. en áður hafi verið. Þar erum að ræða nokkur hundruð millj. sem ráðherrann er kominn með tök á að ráðstafa meir af eigin vild en áður var þó vald ráðherrans sé ekki

óskorað í þeim efnum. En í þessum sjóðum, byggingarsjóðunum, erum við að tala um 3 milljarða kr. á ári. Og hvernig halda menn að verði haldið á útdeilingu á þessum peningum, 3.000 millj kr. á ári þegar útdeilingarkerfið er komið í beinar hendur ráðherrans eins og lagt er til í þessu frv.? Menn geta rétt ímyndað sér hvort það sé hyggilegt fyrirkomulag að leggja það á nokkurn ráðherra að hafa slíkt vald, að geta meira og minna ráðið því hvernig þessu fé er deilt út. Ég held að það sé ekki mikill greiði gerður þeim ráðherra sem er falin sú ábyrgð, það vald að hafa þetta fé meira og minna til ráðstöfunar þó að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar sé. Og það þarf ekki mikið hugmyndaflug þegar menn horfa yfir ríkisstjórnarbekkinn hér í þessari ríkisstjórn sem á tveggja ára afmæli í dag og heldur upp á það með því að sýna þjóðinni tóma ráðherrabekki á báða vegu. ( Gripið fram í: Kannski eru þeir hættir.) Þeir eru kannski hættir, ráðherrarnir, eða farnir að halda upp á afmælið úti í Viðey. Það væri fróðlegt ef hæstv. forseti upplýsti þingheim um það hvar ríkisstjórnin heldur sig í dag.
    Þegar við horfum yfir það hvernig ráðherrar í þessari ríkisstjórn hafa beitt valdinu, þá hugsar maður til þess með hryllingi ef á að fara að flytja úthlutunarvald á 3.000 millj. kr. til eins ráðherra. Mér líst ekki á það fyrirkomulag, hvorki út frá almennum pólitískum viðhorfum né út frá þessari ríkisstjórn að taka upp þetta fyrirkomulag sem hér er lagt til.
    Þetta er því miður ekki fyrsta atlagan af hálfu núv. félmrh. í þá veru að ná undir sig þessu valdi. Hæstv. félmrh. sem er búinn að sitja hér í ráðherrastólnum í rúm 6 ár. Hann reyndi það fyrir þremur árum að fá það Alþingi sem þá sat til þess að samþykkja þetta vald sér til handa og er fróðlegt að rifja það upp að þeir sem einna helst höfðu uppi gagnrýni á þá tilburði ráðherrans voru sjálfstæðismenn. Þeim leist ekki á þetta fyrirkomulag og höfðu ýmis orð uppi um það. Nú hafa þeir hins vegar söðlað um. Nú eru þeir ekki lengur í stjórnarandstöðu og ábyrgðarlausir eins og Sjálfstfl. ævinlega er þegar hann er í stjórnarandstöðu þó það batni nú ekki ábyrgðarleysið þegar þeir komast í stjórn. Nú hafa þeir sýnt þá stefnu sem þeir í raun vilja framfylgja. Þeir eru nefnilega sammála Alþfl. um það að svona eigi stefnan að vera. Það er það sem menn lesa út úr afgreiðslu meiri hluta nefndarinnar á þessu máli að það þessir tveir Bilderberg-flokkar hafa náð saman og eru sammála um það hverjir eigi að deila út 3.000 millj. kr. á ári. Það er ekki þingkjörin stjórn sem á að gera það eftir nákvæmum reglum settum af Alþingi, það á að færa valdið inn á borð hæstv. félmrh. Og haldið þið að það verði nú gaman fyrir hæstv. félmrh. þegar hann verður búinn að fá þetta vald ef þetta frv. verður samþykkt. Því ef svo fer sem lögð er áhersla á þá verður búið að samþykkja þetta frv. áður en þeirri úthlutun lýkur sem nú stendur yfir. Þá getur ráðherrann farið að skipta sér af henni. Það verður gaman að sjá þegar ráðherrann fer að setja fingraför sín á þá úthlutun eða drög að úthlutun sem fyrir liggur. Það verður fróðlegt að sjá hverjar tölurnar verða til einstakra sveitarfélaga, hvernig ráðherrann hyggst breyta þeim.
    Mér er ekki grunlaust um að ýmsir vinir og flokksfélagar sem sitja í meiri hlutum í einstökum sveitarfélögum eigi kannski greiðari leið með að fá betri úthlutanir en til stendur. Það er nákvæmlega þetta sem mun gerast. Pólitísku áhrifin, flokkspólitísku áhrifin á úthlutunina munu aukast og menn munu sjá þau verk að úthlutunarkerfið þróast yfir í að vera nær því að vera flokkspólitískt úthlutunarkerfi frá því faglega kerfi sem hefur verið byggt upp á undanförnum árum.
    Það er alveg með ólíkindum að það skuli fyrirfinnast hér á Íslandi stjórnmálaflokkar sem vilja taka upp þetta pólitíska siðferði sem er í ætt við það sem menn eru að hrópa af sér suður á Ítalíu.
    Nei, virðulegi forseti, ég verð að láta það koma skýrt fram að hrifning mín yfir þessu fyrirkomulagi er ákaflega lítil og vilji minn til að standa að afgreiðslu frv. er enn minni og ég tel ekki nokkra ástæðu til þess að Alþingi sé að eyða tíma sínum á þessum síðustu dögum þingsins í að ræða svona vitlaust frv. sem er eins og bergmál aftan úr fortíðinni og minnir helst á eitthvað sem á rætur sínar að rekja austur fyrir múrinn. Það getur vel verið að svona kerfi hafi þótt gott fyrir nokkrum árum þar, svona vina, einkavinakerfi, úthlutunar-skömmtunarkerfi á pólitískum forsendum. Það má vel vera. En ég efa að það eigi upp á pallborðið þar nú. Og ég vænti þess að hv. Alþingi hafi þann dug í sér eins og það hafði fyrir þremur árum að hleypa frv. þessu ekki fram.
    Það er alveg nauðsynlegt að þeir sem einna helst stóðu þá í ræðustól og töluðu gegn málinu, þingmenn Sjálfstfl., komi hér upp í umræðunni og geri grein fyrir því hvernig það samræmist þeirra pólitísku yfirlýsingum í gegnum árin að standa að þessu frv. Þeir verða að koma hér fram og sýna sitt rétta eðli, það dugar ekki að flýja úr þingsölum eins og þeir hafa meira og minna gert undir þessari umræðu og nú situr aðeins einn hv. þm. Sjálfstfl. hér í þingsal, hv. 4. þm. Reykv., Eyjólfur Konráð Jónsson, sem ég þykist þess fullviss að treystir sér ekki til að standa að þessari miðstýringaráráttu hæstv. félmrh.
    En allir hinir einkavæðingarsinnarnir eru hlaupnir á brott og láta ekki sjá sig hér undir umræðum. Kalla ég gott ef þeir haldast í húsinu miðað við hraðferð þeirra hér á göngum þingsins í dag og óróleika. Því það er nefnilega þannig að þeim líður nokkuð illa, þeir vita upp á sig skömmina, að þeir eru að gera hluti sem samrýmist ekki því sem þeir hafa sagt að þeir ætluðu að gera. Það er nákvæmlega það sem er að, hv. þm. Sjálfstfl., þeir vita upp á sig skömmina.
    En það er engin ástæða til þess að láta þingmenn Sjálfstfl. komast upp með það í umræðum um svo mikilvægt mál að vera fjarverandi. Þeir eiga auðvitað að koma upp og gera grein fyrir afstöðu sinni, styðja þeir þetta mál eða styðja þeir það ekki? Allir aðilar, sem boðið var að senda umsagnir um þetta frv. og þáðu það boð og létu frá sér fara sjónarmið sín um efnisatriði þess, hafa mælt gegn þessari breytingu

á frv. Samband ísl. sveitarfélaga, sem er nú býsna valdamikið samband og þéttskipað mönnum úr Sjálfstfl., sendi frá sér ákveðna skoðun á þessum þætti frv. sem ég vil leyfa mér að lesa upp, virðulegur forseti, og er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn sambandsins telur að stjórn Húsnæðisstofnunar eigi sjálf að taka ákvarðanir um lánveitingar og skiptingu útlána milli útlánaflokka á grundvelli tillagna frá útibúum í landshlutunum og telur engin rök fyrir því að auka valdsvið ráðherra hvað það varðar.``
    Stjórn sambandsins er greinilega einróma í afstöðu sinni gegn þessum meginþætti frv. Þeir telja engin rök fyrir því að auka valdsvið ráðherrans á þessu sviði. Og þeir telja að stjórn Húsnæðisstofnunar eigi sjálf að taka ákvarðanir um lánveitingar og skiptingu útlána. Þannig að það er alveg ljóst hver stefna sveitarstjórnarmanna er í þessum efnum eða a.m.k. skulum við segja samtaka sveitarstjórnarmanna.
    Nú vill svo til að fjölmennasti hópurinn innan borðs í þeirri stjórn eru sjálfstæðismenn. Og formaður sambandsins er sjálfstæðismaður, borgarfulltrúi í Reykjavík, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Og ég hlýt að spyrja hvora afstöðuna hefur Sjálfstfl.? Hefur hann þá afstöðu sem sveitarstjórnarmenn flokksins boða hér, að leggjast gegn þessu, eða hefur hann þá afstöðu sem birtist í áliti meiri hluta félmn., að vera með þessu? Það duga ekki nein undanbrögð fyrir Sjálfstfl., hann verður að svara þessari spurningu. Er hann með málinu eða á móti málinu? Það dugar ekki að vera með málinu í þingflokki inni á Alþingi en á móti málinu utan Alþingis.
    Þá kom það fram hjá fulltrúa Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem mætti á fund nefndarinnar að hann taldi þessa breytingu ekki vera til bóta. Og enn fremur kom fram hjá aðila sem ætti nú að taka nokkuð mikið mark á þegar verið er að ræða þetta mál sem er sjálf húsnæðismálastjórn, sem er þannig samansett að fjölmennasti hópurinn þar innan borðs er úr röðum sjálfstæðismanna og næstfjölmennasti hópurinn úr röðum alþýðuflokksmanna og saman hygg ég að þessir tveir hópar fari nærri því að vera með meiri hluta. Að afstaða þessarar stjórnar, ekki bara þessara hópa manna sem hafa skipað sér í raðir Alþfl. og Sjálfstfl. heldur allrar húsnæðismálastjórnar, er að mæla einróma gegn þessari breytingu. Og maður hlýtur að spyrja sig: Hvaða afstöðu hefur Sjálfstfl. í þessu máli? Hann er á móti því í húsnæðismálastjórn, hann er á móti því í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. Og þvílíkur tvískinnungur hjá Alþfl. Hann er á móti málinu í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og hann er á móti málinu í húsnæðismálastjórn en telur það alveg bráðnauðsynlegt að það nái fram að ganga hér á Alþingi. Menn verða að vera heilsteyptir í afstöðu sinni í þessu máli, það dugar ekki til að slá ryki í augun á fólki að koma fram með tvær skoðanir í sama málinu. Flokkur sem vill láta taka sig alvarlega verður að gæta að því að það sé samræmi í afstöðu hans á opinberum vettvangi hvort sem það er innan þings eða innan raða sveitarstjórnarmanna eða á öðrum vettvangi þar sem um þessi mál er fjallað. Og það segir hér, virðulegur forseti, í greinargerð húsnæðismálastjórnar um þennan þátt málsins, með leyfi forseta: Breytingar á stjórnsýslulegri stöðu Húsnæðisstofnunar samkvæmt frv. miða að því að draga úr sjálfstæði stofnunarinnar og auka áhrif félmrh. í yfirstjórn stofnunarinnar. Allir stjórnarmenn í húsnæðismálastjórn mæla gegn þessari breytingu sem þeir telja óæskilega. Rök húsnæðismálastjórnar eru m.a. þau að óeðlilegt sé að opinber lánastofnun sé undir beinni stjórn ráðherra. Þar á meðal ákvarðanir um útlán, fjárhagsáætlun, innra skipulag, gjaldskrár og fleira. Tvennt kemur hér til. Annars vegar að ekki er æskilegt að lánastofnanir séu undir beinni stjórn ráðherra, hins vegar að rekstur stofnunar sem þessarar er svo sérhæfður að vart er hægt að ætla ráðherra að hafa á honum kunnugleika. Engin dæmi eru um að lánastofnun hér á landi í seinni tíð hafi verið undir beinni stjórn ráðherra. Hér er ákaflega skýrt og skilmerkilega að orði kveðið í þessu sameiginlega áliti stjórnarmanna í húsnæðismálastjórn. Þá segir enn fremur í greinargerð húsnæðismálastjórnar um þetta frv., eftir að rakið hefur verið hvernig málum er fyrir komið nú, með leyfi foreta:
    ,,Þau sjónarmið, sem kunna að liggja að baki ofangreindri skipan mála, geta verið margvísleg. Í fyrsta lagi er rekstur lánastofnana sérhæfð starfsemi og vart hægt að ætla að heppilegt sé að slíkri starfsemi sé stýrt beint af Stjórnarráði eða ráðherra. Í öðru lagi er hér um að ræða starfsemi sem ríkið hefur tekið að sér án þess að bein rök liggi til þess að starfsemin sé í höndum ríkisins, að minnsta kosti gildir þetta um sjálf útlán þessara stofnana. Af þeim sökum kunna menn að sækjast eftir því að starfsemi þessi sé sem minnst háð stjórnmálalegum afskiptum og sem mest á viðskiptalegum grundvelli.`` Síðan segir, með leyfi forseta, sem er ákaflega athyglisvert: ,,Aukin afskipti framkvæmdarvaldsins af rekstri Húsnæðisstofnunar og lánastofnana almennt eru að mati stjórnarinnar síst til bóta og með þeim væri verið að innleiða hér á landi stjórnarhætti í rekstri lánastofnana sem úreltir eru og hafa reynst illa hvarvetna annars staðar.`` Ég vil, virðulegur forseti, leyfa mér að lesa þetta aftur úr álit húsnæðismálastjórnar þar sem formaðurinn er fulltrúi félmrh., formaður stjórnarinnar er sérstakur fulltrúi félmrh. í stjórninni. Hann átti ekki hvað minnstan þátt í því að semja þetta álit. Reyndar var það hann sem lagði það fram. Þar stendur, virðulegi forseti: ,,Aukin afskipti framkvæmdarvaldsins af rekstri Húsnæðisstofnunar og lánastofnana almennt eru að mati stjórnarinnar síst til bóta og með þeim væri verið að innleiða hér á landi stjórnarhætti í rekstri lánastofnana sem úreltir eru og hafa reynst illa hvarvetna annars staðar.``
    Þetta er mat sérstaks fulltrúa félmrh. í Húsnæðisstofnun ríkisins í húsnæðismálastjórn. Formaður húsnæðismálastjórnar. Og reyndar stóð nú í uppkasti annað orðalag þar sem voru alveg tekin af öll tvímæli við hvað var átt. En því var breytt til að milda þetta aðeins. En það skilja allir sem skilja vilja í hvað menn eru að vísa um úrelta stjórnarhætti sem hafa reynst illa. Ætlar Alþingi Íslendinga að fara að taka upp

stjórnarhættir sem aðrar þjóðir hafa lagt af sér vegna þess að þeir reyndust svo illa? Miðstýringin gekk ekki upp. Ætlar þá Sjálfstfl. á Íslandi, gunnfáni einkaframtaksins að fara að innleiða hér stjórnarhætti sem menn eru búnir að leggja af sér í Austur-Evrópu? Því það er það sem verið er að vitna til. Eru það Sjálfstfl. og Alþfl. sem ætla að fara að þessu leyti að innleiða stjórnarhætti sem voru við lýði í Sovétríkjunum sálugu? Ég verð nú að segja, virðulegur forseti, að ég á bágt með að trúa því að menn ætli sér að gera þetta. En það er alveg ljóst a.m.k. af formanni félmn. að viljinn er mikill og hefur oft verið gerð tilraun til að taka málið út úr nefnd áður en það hafðist að lokum í fimmtu eða sjöttu tilraun, ég man nú ekki hvað þær voru margar. (Gripið fram í.) Nei, nei, þær voru fleiri, hv. þm., þær voru fleiri áður en hv. þm. Eggert Haukdal lét undan ofurþrýstingi þingflokksformannanna tveggja sem sátu honum hvor á sína hönd og gættu þess að hann viki ekki út af sporinu. Minna dugði nú ekki til að fá hv. þm. Suðurl. til að skrifa upp á útelta stjórnarhætti. ( RG: Þeir komu . . .  )
    Síðar segir, virðulegur forseti, í framhaldi af þessu og er það athyglisvert í ljósi þeirrar stefnu flokkanna að tala um markaðsbúskap sem lausnarorð á öllum vanda:
    ,,Gengið væri þvert á stefnu aukins markaðaðsbúskapar og á þá stefnu að ákvarðanir lánastofnana, þótt þær séu í eigu ríkisins, séu alfarið byggðar á efnahagslegum forsendum. Það er mat húsnæðismálastjórnar að ofangreindar breytingar muni færa stjórn, rekstur og útlánastarfsemi stofnunarinnar að mestu undir beina stjórn ráðherra. Slík breyting er afar óæskileg að mati húsnæðismálastjórnar.``
    Það er von, virðulegur forseti, að það skuli ekki haldast við hér í þingsalnum nokkur einasti þingmaður Sjálfstfl. undir þessum lestri og reyndar undir þessari umræðu allri. Því þeir flugu hér út úr þingsölum um leið og tekið var til við þetta mál eins og fiðurfénaður og hurfu á braut og hafa varla sést nema þá í skötulíki einn og einn. Og enginn þeirra hefur séð ástæðu til þess einu sinni að biðja um orðið til að mæla fyrir þessari stefnu. Er það orðin stefna Sjálfstfl. að víkja frá hugmyndafræðinni um markaðsbúskap? Er það stefna núv. ríkisstjórnar að leggja markaðsbúskapinn á hilluna og taka upp áætlunarbúskapinn í Sovétríkjunum? Það er það sem menn lesa út úr þessari stefnu. Og hvarf þá síðasti alþýðuflokksþingmaðurinn úr þingsalnum.
    Nei, virðulegi forseti, það gengur ekki að Alþingi samþykki þessa pólitísku forræðishyggju og áætlunarbúskaparstefnu Alþfl. og Sjálfstfl. Þingmenn verða hér eins og þeir gerðu fyrir þremur árum að taka völdin af ráðherragenginu. Af Viðeyjarríkisstjórninni sem á tveggja ára afmæli í dag og heldur upp á það með því að vera fjarverandi á báðar hendur. ( Forseti: Er það ekki á morgun?) Nei, nei, afmælið er í dag, virðulegur forseti. Ríkisstjórnin lagði mikið kapp á það að taka við völdum fyrir mánaðamót, 1. maí 1991. ( SvG: Það er rétt.) Óopinber skýring var sú að ef fyrri ríkisstjórn hefði setið einum degi lengur þá hefðu ráðherrar í þeirri ríkisstjórn fengið kaup í maímánuði. Og menn segja að viðtakandi ráðherrar hefðu ekki mátt til þess hugsa að fráfarandi menntmrh. fengi þetta kaup ásamt öðrum félögum sínum. ( SvG: Það er rétt.) Ég skal ekki dæma um hvort það er rétt skýring en ég læt hana fljóta með mönnum til skemmtunar. En alla vega á grundvelli þeirrar sögu þá ættu menn að muna að ríkisstjórnin tók við ekki á degi verkalýðssins heldur daginn fyrir dag verkalýðsins. Það er dæmigert fyrir Alþfl. að hann er ekki í þessari ríkisstjórn á vegum verkalýðsins.
    Ég vil þá aðeins víkja, virðulegur forseti, að brtt. sem meiri hluti félmn. flytur á þessum stjórnsýslukafla frv. og mér finnst satt að setja að brtt. séu svona hálfgerður brandari. Þær hefðu eiginlega átt að vera lagðar fram 1. apríl svo þær væru við hæfi. Við skulum líta á fyrstu brtt. meiri hlutans, virðulegur forseti, en lagt er til að taka fyrstu og aðra setninguna í 1. gr. frv. og breyta þessum tveimur setningum.
    Nefndin leggur til að þessar tvær setningar hljóði eftirfarandi, með leyfi forseta: ,,Húsnæðisstofnun ríkisins er ríkisstofnun er lýtur sérstakri stjórn og heyrir undir félmrh. sem fer með yfirstjórn húsnæðismála.`` Nú skulu menn bera þetta saman við það orðalag sem er í frv., sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn húsnæðismála.
    Húsnæðisstofnun ríkisins er ríkisstofnun sem lýtur sérstakri stjórn.``
    Ég spyr: Hver er munurinn á þessum tveimur tillögum? Mér er alveg fyrirmunað að sjá nokkurn mun á þeim. Orðunum er bara raðað öðruvísi upp. En enginn merkingarmunur. Þarna eru menn að leggja fram brtt. til að reyna að slá ryki í augun á fólki. Og segja sem svo: Við erum nú að draga úr þessu ráðherravaldi. Þegar maður fer ofan í brtt. alveg ,,grundigt``, þá kemur í ljós að þetta er bara plat, þetta er engin breyting. Síðan er lagt til að í stað þess að fimm menn sitji í húsnæðismálastjórn þá verði þeir sjö. Það kom mér nú satt að segja ekkert á óvart. Ég beið bara eftir því að meirihlutaliðið kæmi fram með þessa tillögu því auðvitað lá það í augum uppi að þeir mundu aldrei geta komið sér saman um það að fækka sínum fulltrúum í Húsnæðismálastjórn úr fjórum niður í þrjá. Hverjum átti að fórna? Fulltrúa frá Alþfl. eða fulltrúa frá Sjálfstfl.? Að sjálfsögðu gátu þeir ekki komið sér saman um það svo þeir komu náttúrlega fram með þá brtt. í anda gamalkunnugra úrræða í þessum efnum að fjölga bara aftur svo hvorugur missti neitt. Þannig að ég gef nú ekki mikið fyrir þessa tillögu. Eftir stendur að hent er út fulltrúum frá Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands og það er nákvæmlega mergurinn málsins að menn vilja losna við þá aðila út þó svo enginn rökstuðningur hafi komið fram um að fulltrúar þessara samtaka hafi reynst illa í störfum sínum í húsnæðismálastjórn frá því að þetta fyrirkomulag var upp tekið fyrir alllöngu

síðan. Það get ég sagt af minni reynslu að ég tel að það hafi verið störfum stjórnarinnar til góðs að hafa þarna innan borðs fulltrúa frá þessum tvennum samtökum. Ég óttast frekar að aftur fari störfum stjórnarinnar að þeim gengnum ef svo fer.
    Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að kynna brtt. sem ég lagði hér fram fyrr á fundinum, sem er þannig að lagt er til að stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins verði skipuð með sama hætti og nú er. Að ekki verði breyting þar á. Að Alþingi kjósi sjö menn og ráðherra skipi þrjá, tvo samkvæmt tilnefningu frá Alþýðusambandi Íslands og einn eftir tilnefningu frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Ég tel, virðulegur forseti, rétt að láta reyna á það hvort ekki sé stuðningur við það fyrirkomulag sem verið hefur og þá rétt að þeir gefi sig fram sérstaklega úr stjórnarliðinu sem eru því andvígir. Ég vil einnig minna á, virðulegur forseti, þá brtt. sem minni hluti félmn. flytur um breytingu á lánveitingum til almennra kaupleiguíbúða. Þar er ekki um að ræða breytingu sem leiðir af sér í heild sinni auknar lánveitingar því í stað þess að lána eins og nú er 70% til 40 ára og 20% til 25 ára ef um leigu er að ræða þá verði lánað 90% til 43 ára. Í dag er það þannig að ef leigjandi almennrar kaupleiguíbúðar vill gerast kaupandi og nýta sér ákvæði laganna og kaupa íbúðina þá fær hann 70% lánað og síðan 20% til fimm ára. Vextir af þessum lánum eru 4,9% svo þetta flokkast ekki undir félagsleg lán í þeim skilningi. Á meðan fólk er að borga 20% lánin niður á fimm ára tímabili er greiðslubyrðin gríðarlega mikil. Þetta ákvæði í lögunum hefur leitt til þess að almennar kaupleiguíbúðir eru illseljanlegar nema fyrir fólk sem á töluverða peninga. Víða úti á landi og jafnvel hér á höfuðborgarsvæðinu háttar svo til að það gengur afar erfiðlega að fá kaupendur að almennu kaupleiguíbúðunum. Miðað við núverandi kaupleigufyrirkomulag eru þær ekki raunverulegur valkostur fyrir fólk sem vill eignast íbúðir. Og húsnæðismálastjórn óskaði sérstaklega eftir því við félmn. að lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins yrði breytt þannig að lánað yrði 90% í einu láni í stað tveggja lána sem samtals eru 90% eins og áður greindi. Það fór nú svo, virðulegur forseti, að stjórnarflokkarnir gátu ekki hugsað sér að verða við þessari bón, sem skiptir fyrst og fremst landsbyggðina máli, og höfnuðu erindi húsnæðismálastjórnar. Því er þessi tillaga flutt til að fylgja eftir ósk húsnæðismálastjórnar um breytingu á lánveitingum í þessum lánaflokki.
    Þannig háttar á landsbyggðinni a.m.k. til skamms tíma að þar er býsna erfitt á almennum húsnæðismarkaði og þeir eru ekki margir sem á undanförnum árum hafa lagt út í það að byggja sér húsnæði á eigin vegum vegna þeirrar áhættu sem því fylgir þegar menn vilja selja það húsnæði síðar. Við sem höfum lifað og starfað úti á landsbyggðinni höfum séð þennan valkost, almennar kaupleiguíbúðir þannig fyrir okkur að þetta gæti hentað landsbyggðinni. Samkvæmt lögunum geta allir sem vilja keypt þessar íbúðir. Það eru ekki eignamörk og það eru ekki tekjumörk. Og þeir sem eru yfir þessum tekju- og eignamörkum sem eru í félagslega kerfinu og fá þar af leiðandi ekki að kaupa í því kerfi gætu keypt almennar kaupleiguíbúðir ef þeir á annað borð ráða við það. Aðalþröskuldurinn er þessi þunga greiðslubyrði þann tíma sem menn eru að borga niður þetta fimm ára lán sem veldur því að menn ráða ekki við að kaupa. Ef þessu yrði breytt þannig að það væri bara eitt 90% lán til 43 ára, minnir mig, þá efa ég ekki að það yrði hægt að selja þessar almennu kaupleiguíbúðir um allt land vel flestar ef ekki allar. Þetta eru íbúðir sem eru ekki byrði á húsnæðislánakerfinu ef við horfum á málið frá þeim sjónarhóli því menn eru að borga tæplega 5% vexti. Þannig að þeir sem taka lánið borga kostnaðinn við fjármögnunina og það lendir ekki á byggingarsjóðnum að fjármagna einhvern vaxtamun, a.m.k. að mati þeirra sem hafa ákvarðað þessa vexti. Þetta er því breyting sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir landsbyggðina og er ekki útlátamikil fyrir sjóðinn. Útlátin eru núll í heildina litið þó greiðslustreymi breytist að sjálfsögðu þar sem greiðslutíminn lengist.
    Ég vildi því fara fram á það, virðulegur forseti, við hv. Alþingi og alþingismenn að þeir íhuguðu það mjög alvarlega hvort það væri ekki rétt að verða við þessari brtt. og samþykkja hana hvar svo sem menn kunna að skipa sér í þær tvær meginfylkingar sem eru að takast á um þetta frv.
    En mig langar til að vita, virðulegur forseti, af því að nú er það langt um liðið frá því ég sá nokkurn ráðherra hér í salnum og hef reyndar ekki séð félmrh. eftir að ég hóf ræðu mína á nýjan leik hvort hæstv. félmrh. er hér í salnum eða í húsinu. ( Forseti: Forseti getur upplýst það að hæstv. félmrh. er ekki í húsinu eins og er.) Það er nú skaði, virðulegi forseti, því þetta eru menn að leggja á sig til að þjóna virðulegum félmrh. að standa í þessari umræðu og vinnu um þetta frv. Það er fyrst og fremst lagt fram til að þjóna hagsmunum ráðherrans og mér finnst nú lágmark að ráðherrann sé viðstaddur og hlýði á mál manna og svari því. Ef hæstv. ráðherra er ekki í húsinu þá vil ég fara fram á það, virðulegur forseti, að þessari umræðu verði frestað þangað til hann kemur. Ég tel a.m.k. ráðherrann ekki of góðan þó hann sé í Viðeyjarstjórninni til að sitja hér undir ræðum stjórnarandstæðinga. ( Forseti: Forseti vill að það komi fram að hæstv. félmrh. mun hafa þurft að bregða sér frá. Þar sem hún gegnir embætti einnig fyrir hæstv. heilbrrh. þessa dagana, þá þurfti hún að mæta á áríðandi fund en bjóst við að vera komin aftur í Alþingishúsið um kl. hálffimm. Forseti vill nú eindregið beina því til hv. þm. að hann sýni hæstv. félmrh. svolitla biðlund. Hún mun sennilega vera rétt ókomin í þinghúsið.) Ef það er rétt skilið hjá mér, virðulegur forseti, að hann hafi átt við hálffimm í dag þá vil ég vekja athygli á því að það eru komnar 20 mín. fram yfir þann tíma. Ég vildi nú gjarnan að menn gerðu hlé á þessari umræðu þar til hæstv. ráðherra er mættur. Ég held að hæstv. ráðherra sé ekkert of góður til að sitja undir þessum umræðum. Ekki var ráðherrann svo blíðmáll við þáv. hæstv. félmrh. þegar hæstv. félmrh. var í stjórnarandstöðu 1983--1987. Það voru nú ekkert litlar skammir sem dundu á þáv. hæstv. félmrh. frá núv. félmrh. Og ég segi bara eins og er, virðulegur forseti, að hæstv. félmrh., þó hann sé líka heilbrrh., er ekkert of góður til að vera hér í húsinu og inni á þingpöllum í sínu sæti. Og ég fer eindregið fram á það að þessari umræðu verður frestað þar til ráðherrann sér ástæðu til þess að vera viðstödd það mál sem enginn hefur áhuga á nema hún sjálf. ( Forseti: Þannig háttar til að hv. þm. er hér síðastur á mælendaskrá og ( Gripið fram í: Það er nú fljótlegt að bjarga því.) forseta heyrðist nú að hv. þm. væri svona um það bil að ljúka máli sínu.) Það er misskilningur, virðulegi forseti. Ég á eftir að fara yfir ýmis ákvæði í núgildandi húsnæðislöggjöf og þar á meðal um húsbréfakerfið sem er nokkuð viðamikill bálkur. ( Forseti: Innan örfárra mínútna fær forseti fregnir af ferðum hæstv. félmrh. þannig að ef hv. þm. getur haldið áfram ræðu sinni enn um stund án þess að hæstv. ráðherra heyrir mál hans, þá er það ósk forseta.) Ja, þingmaður vill nú bara ítreka sína ósk að ráðherrann verði hér því að ég óska eftir því að umræðunni verði frestað þar til ráðherrann er hér kominn og ef stutt er í það, þá verður það ekki löng frestun svo að ekki ætti það að koma að sök. ( Forseti: Forseti leggur til að hv. þm. fresti ræðu sinni um stund því að einn hv. þm. annar hefur kvatt sér hljóðs og er þá kannski til með að tala meðan beðið er eftir fregnum af hæstv. ráðherra.) Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir að umræðunni yrði frestað þar til ráðherrann er kominn.